Það er ekki að ástæðulausu sem fólk vill búa í Garðabæ. Fallegt umhverfi, öflugt íþrótta- og félagsstarf og fjölbreytt þjónusta í göngufæri hafa laðað fólk að bænum okkar um árabil. Helsti styrkleikinn felst hins vegar í fjölbreyttum hópi fólks á öllum aldri sem gerir Garðabæ að öflugu samfélagi.
Á komandi kjörtímabili er mikilvægt að nýta tækifærin sem við eigum til að Garðabær verði áfram raunhæfur kostur fyrir öflugt fólk á öllum æviskeiðum.
Raunverulegur valkostur fyrir ungt fólk
Fasteignaverð er eðli málsins samkvæmt hærra þar sem margir vilja búa og álögur lágar. Þetta þekkjum við Garðbæingar ágætlega og í því felast meðmæli með bænum. Hér þarf hins vegar áfram að vera raunhæft að festa rætur, en í dag er erfitt fyrir ungt fólk að taka sín fyrstu skref á fasteignamarkaði í bænum.
Margir sem alist hafa upp í Garðabæ fjárfesta í sinni fyrstu fasteign utan bæjarins, en ætla að koma aftur með tíð og tíma. Hins vegar er óvíst hvort af því verði þegar börn þeirra eru komin í skóla- og íþróttastarf í öðrum bæjarfélögum. Bærinn þarf að nýta það fjölbreytta byggingarland sem við erum víða öfunduð af til að auka áfram framboð. Við eigum spennandi tækifæri í Hnoðraholti og fyrirhugaðri uppbyggingu Garðaholts, en í öllu skipulagi verður að tryggja byggingu íbúða þar sem ungt fjölskyldufólk getur fest rætur.
Fjölskylduvæn hverfi
Nýjum hverfum fylgjir þjónusta við nýja íbúa. Við megum vera stolt af þeim fallegu fjölskylduhverfum sem hafa byggst upp víða um bæinn undanfarna áratugi. Öll eru þau ólík á sinn hátt, en eiga það sameiginlegt að þar er gott aðgengi að leik- og grunnskólum, íþróttastarfi og annarri þjónustu.
Ný hverfi þurfa að vera aðgengileg og fjölskylduvæn, líkt og þau sem fyrir eru. Þar þarf að vera leikskóli í nærumhverfi fyrir börn frá 12 mánaða aldri og raunhæft að stunda íþróttir og tómstundir án þess að þurfa skutl þvert yfir bæinn. Það dugar ekki að fjölga eingöngu lóðum og byggingum, heldur þarf sú framúrskarandi þjónusta sem við Garðbæingar þekkjum að fylgja.
Kynslóðir mætast
Það á að vera gott að eldast í Garðabæ.Hér hafa verið byggðir upp skemmtilegir íbúðakjarnar fyrir eldra fólk og í minni heimabyggð í Sjálandi er gott dæmi um samfélag, þar sem kynslóðir mætast og njóta samvista hver við aðra í fallegu umhverfi.
Ég vil sjá bæjarfélag sem styður við íbúa sína á öllum æviskeiðum. Við eigum að halda fast í þá sérstöðu sem hér er í fjölbreyttu starfi fyrir eldri bæjarbúa eins og í Jónshúsi, Janusar-verkefninu, öflugum gönguhópum og kynna þessa sérstöðu vel. Sjálf ætla ég að eldast í Garðabæ og vil þá búa í lifandi hverfi, með nóg fyrir stafni, í kringum fólk á öllum aldri.
Höfundur gefur kosta á sér í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.
Margrét Bjarnadóttir