Garðabær er okkar samfélag

Kosningar nálgast og nú er valdið hjá Garðbæingum. Hvert á Garðabær að stefna? Í hvernig samfélagi viljum við búa, ala upp börnin okkar og verja ævikvöldinu? 

Við í Garðabæjarlistanum viljum að samfélagið okkar sé fjölbreytt samfélag, þar sem allar kynslóðir geta búið saman og þar sem fólk hefur alvöru val um ferðamáta. Við viljum að bærinn sé ábyrgt samfélag, þar sem þörfum fatlaðs fólks er mætt og þar sem félagslegt húsnæði er tryggt þeim sem þurfa. 

Við viljum að Garðabær sé ábyrgt samfélag þar sem við stöndum vörð um náttúruna og tökum forystu í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Við viljum að Garðabær sé barnvænt samfélag, þar sem líf barnafjölskyldna er einfaldað og þar sem öll börn geta blómstrað. 

Þetta er okkar sýn og við vitum hvernig við ætlum að gera hana að veruleika. 

Við höfum sýnt á kjörtímabilinu fyrir hvað við stöndum og veitt meirihlutanum í Garðabæ öflugt aðhald. Við höfum gert okkar allra besta í erfiðri stöðu á undanförnum fjórum árum og óskum eftir umboði Garðbæinga til þess að halda áfram að vinna fyrir alla íbúa.

Við eigum þetta samfélag öll saman. Þegar ákvarðanir um framtíð Garðabæjar eru teknar er mikilvægt að raddir fleira fólks í samfélaginu okkar fái alvöru vægi við bæjarstjórnarborðið. Garðabær er okkar samfélag. Við hvetjum ykkur öll til þess að nýta kosningaréttinn 14. maí. 

Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans, X-G. 

Þorbjörg Þorvaldsdóttir

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar