Garðabær er fyrir ofan meðaltal í öllum spurningum Gallup

Garðabær lendir í 1. sæti þegar spurt er um ánægju með þjónustu grunnskóla í samanburði við önnur sveitarfélög í árlegri þjónustukönnun Gallup sem var framkvæmd í lok árs 2021 og byrjun árs 2022.
Markmið könnunarinnar er að kanna ánægju með þjónustu 20 stærstu sveitarfélaga landsins og gera samanburð þar ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum.

Garðabær er í efstu sætum eða meðal fimm efstu í 10 af 13 spurningum

Í heildina eru niðurstöður könnunarinnar góðar og Garðabær er fyrir ofan meðaltal í öllum spurningum utan einnar í samanburði við önnur sveitarfélög. Garðabær er í efstu sætum eða meðal fimm efstu í 10 af 13 spurningum. Í samanburði á milli ára þá hækkar skor í tveimur spurningum, stendur í stað í tveimur og lækkar í 8 spurningum þar af er um marktæka lækkun í þremur. Meðaltal sveitarfélaga í heild lækkar í öllum spurningum utan tveggja á milli ára þar sem það stendur í stað.

Mikilvægt að halda uppi góðri þjónustu

,,Á síðasta ári var áfram mikil uppbygging í Garðabæ og íbúum fjölgaði hér um 760 eða um 4,3% sem er mesta fjölgun meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Með mikilli fjölgun íbúa og uppbyggingu í bænum er áfram mikilvægt að halda uppi góðri þjónustu við bæjarbúa og gott veganesti er að fá fram sjónarmið íbúa með árlegum könnunum eins og þjónustukönnun Gallup. Afar ánægjulegt er að sjá að Garðabær er í fyrsta sæti stóru sveitarfélaganna þegar spurt er um þjónustu á heildina litið, bæði út frá reynslu og áliti,” segir Gunnar Einarsson bæjarstjóri í samtali við Garðapóstinn.

Það þarf að rýna betur í niðurstöðurnar þar sem um lækkun er að ræða

,,Það eru þó ávallt tækifæri til að gera betur og við sjáum það þegar við rýnum niðurstöður á milli ára að þar sem um lækkun er að ræða þarf að rýna hvað veldur. Í ár virðist það þó eiga við um sveitarfélög á landsvísu að meðaltal í flestum spurningum lækkar á milli ára og á það einnig við um svör Garðbæinga. Könnunin var framkvæmd í lok síðasta árs og byrjun þessa árs en þá voru enn miklar samkomu-takmarkanir í gildi og það þarf að vera vakandi yfir því hvernig áhrifin af faraldrinum verða þegar fram líða stundir og hvort það endurspeglist í þessari þjónustukönnun eða ekki,“ segir hann.

Tækifæri til að gera betur

Íbúar Garðabæjar eru ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á en sú spurning fær hæsta skorið eða 4,3 (á mælikvarðanum 1-5). Í könnuninni er einnig spurt um ánægju með aðstöðu til íþróttaiðkunar, ánægju með þjónustu leikskóla, þjónustu grunnskóla, þjónustu við barnafjölskyldur, þjónustu við fatlað fólk, þjónustu í tengslum við sorphirðu, þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið, ánægju með menningarmál, skipulagsmál og hversu vel eða illa leyst er úr erindum.
,,Við munum eins og áður rýna gaumgæfilega í allar niðurstöður og áfram er tækifæri til úrbóta í ýmsum málaflokkum, s.s. þjónustu leikskóla, sorphirðu og þjónustu við fatlað fólk. Í flestum tilfellum eru þó notendur þjónustunnar ánægðari en aðrir aðspurðir,” segir Gunnar aðspurður um hvar má gera betur.

Þakkar Garðbæingum fyrir góðar ábendingar

,,Á þessu ári er stefnt að því að innleiða samræmt sorphirðu-kerfi á höfuðborgarsvæðinu og sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi og það hefur vonandi jákvæð áhrif á viðhorf íbúa til þessa málaflokks enda um-hverfismálin íbúum Garðabæjar hugleikin. Íbúar eru í ár ánægðari með menningarmál og reynt hefur verið að halda úti öflugu menningarstarfi í skólum sem og með rafrænu efni sem hefur verið miðlað við góðar undirtektir til bæjarbúa í gegnum vef og samfélagsmiðla. Það sama á við um aðstöðu til íþrótta-iðkunar að þrátt fyrir að ekki hafi verið hægt að halda úti íþrótta- og tómstundastarfi með sama hætti og áður hefur ánægja aukist þar á milli ára og verður vonandi enn meiri með opnun fjölnota íþróttahússins Miðgarðs í Vetrarmýri sem gjörbyltir íþróttaaðstöðu innandyra í Garðabæ. Ég vil einnig nota tækifærið og þakka starfsfólki Garðabæjar sem hefur lagt sig fram við að vera lausnamiðað í starfi og sýnt mikla seiglu á krefjandi tímum á liðnum misserum. Það er þakkarvert hversu vel hefur tekist til við að halda úti skólastarfi og þjónustu við íbúa með þær takmarkanir sem hafa verið í gildi og þau áhrif sem veikindi og fjarvera hefur haft á allt starf bæjarins. Jafnframt vil ég þakka Garðbæingum fyrir góðar ábendingar um það sem má gera betur í þjónustu til þeirra,“ segir Gunnar að lokum.

Þjónustukönnunin var lögð fram til kynningar í bæjarráði Garðabæjar í morgun og niðurstöður úr könnuninni eru aðgengilegar á vef Garðabæjar, gardabaer.is og þar má jafnframt sjá niðurstöður til samanburðar úr eldri könnunum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar