Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar til 17 ára tilkynnti fyrir jól að hann hygðist hætta sem bæjarstjóri að loknu kjörtímabili í maí. Áslaug Hulda Jónsdóttir, sem hefur setið í bæjarstjórn frá 2010 og verið í fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins þessi þrjú kjörtímabil, hefur gefið það út að hún bjóði sig fram til forystu í flokknum í komandi prófkjöri í Garðabæ.
Virk á vettvangi stjórnmálanna í nærri 30 ár
Þú ætlar að bjóða þig fram til forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í komandi prófkjöri og hefur áhuga að taka við sem oddviti flokksins í Garðabæ – ertu tilbúin í það? ,,Já, heldur betur! Ég hef verið virk á vettvangi sveitarstjórnarmála í nærri 30 ár, ég var í fyrsta sinn á lista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ árið 1994, þá 18 ára og skipaði 12 sæti. Síðan hef ég verið varabæjarfulltrúi, kosningastjóri, setið í ýmsum ráðum og nefndum samhliða því að sinna ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Og nú síðast bæjarfulltrúi, fyrst forseti bæjarstjórnar og nú formaður bæjarráðs. Víðtæk og fjölbreytt reynsla úr atvinnulífinu mun einnig nýtast mér vel,” segir Áslaug Hulda.
Engin tilviljun að hér hefur gengið vel og bæjarbúar eru almennt ánægðir með bæjarfélagið sitt
Hefur þetta lengi blundað í þér – með mikinn áhuga á málefnum bæjarins? ,,Mér þykir óendanlega vænt um bæjarfélagið okkar og fólkið sem hér býr,” segir hún og heldur áfram: ,,Garðabær er einstakt samfélag, hér er góður bæjarbragur og mikill mannauður. Nándin er mikil í sveitarstjórnarmálum og mikilvægt að hlusta. Starf bæjarfulltrúans er í raun þjónustustarf og ákveðin stefnumótun. Hvert viljum við fara, hvað getum við gert betur. Viðfangsefni bæjarstjórnar snerta okkur öll á einhvern hátt, leik- og grunnskólar, þjónusta við eldri bæjarbúa og fatlaða ein-staklinga, umhverfið okkar og aðgengi, stuðningur við íþrótta- og tómstundastarf og svo mætti áfram telja. Auðvitað þarf fjárhagurinn að vera í lagi, góð þjónusta byggir á traustri og góðri fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Og það er engin tilviljun að hér hefur gengið vel og bæjarbúar eru almennt ánægðir með bæjarfélagið sitt. Stef okkar sjálfstæðismanna með lágar álögur og valfrelsi íbúanna er grunnur sem við síðan byggjum ofan á.”
Þegar þetta verður í höfn verður gengið frá ráðningu bæjarstjóra
Hvað með bæjarstjórastólinn?Hefur þú áhuga að setjast í hann þar sem Gunnar er að hætta? ,,Gunnar hefur staðið sig vel í sínu starfi og ég vil nýta tækifærið og þakka honum fyrir gott samstarf, það hefur bæði verið lærdómsríkt og skemmtilegt að starfa náið með honum í tæp 12 ár. Við búum vel hér í Garðabæ og nýr bæjarstjóri mun taka við framúrskarandi búi. Næst á dagskrá er að halda hér prófkjör. Ég vona að fólk stígi fram og gefi kost á sér, bæði þeir sem eru í hlutverkum í dag og nýtt fólk. Sveitarstjórnarmálin eru ótrúlega skemmtileg og gefandi. Það verðugt verkefni að fá að hafa áhrif og móta nærumhverfið sitt. Það er ótrúlegur mannauður í grasrótinni í Sjálfstæðisflokknum í Garðabæ, starfið er öflugt og uppbyggilegt.
Ég hvet því fólk á öllum aldri að koma og vera með, þetta verður bara gaman! Þegar niðurstaða prófkjörs liggur fyrir og búið verður að raða á lista munum við sjálfstæðismenn bjóða fram framboðslista, ég vona samhentum og góðum hópi fólks, þar sem verk okkar og framtíðarsýn verða lögð í dóm kjósenda. Ég er bjartsýn á það að við fáum endurnýjað umboð. Þegar þetta verður í höfn verður gengið frá ráðningu bæjarstjóra.”
Á von á öflugri og málefnalegri kosningabaráttu Sjálfstæðisflokkurinn náði inn átta mönnum í bæjarstjórn af ellefu og heyrst hefur að flestir ef ekki allir ætli að halda áfram. Áttu von á harðri prófkjörsbaráttu í Garðabæ? ,,Ég á von á öflugri og málefnalegri kosningabaráttu. Vonandi stíga sem flestir fram og gefa kost á sér þannig að kjósendur í prófkjörinu hafi ólíka valkosti. Það skiptir máli að það sé fjölbreyttur og ólíkur hópur fólks sem gefur kost á sér. Mér er sérstaklega umhugað um raddir unga fólksins en þá rödd hefur oft vantað í bæjarstjórn. Ég fór fyrst í framboð sem fulltrúi unga fólksins, þá formaður Hugins, en því miður er brekkan oft brött fyrir ungt fólk í stjórnmálum. Margt bendir þó til að þetta sé að breytast, við sjáum það í prófkjörunum í kringum okkur og á þeim árangri sem ungt fólk hefur verið að ná. Í mínum huga skiptir öllu máli að niðurstaða prófkjörsins gefi okkur fjölbreyttan, framsækinn, samheldinn og öflugan hóp fólks sem er tilbúinn að leggja sitt af mörkum fyrir sveitarfélagið okkar með stefnu Sjálfstæðisflokksins í forgrunni.”
Auðvitað eru ákveðin mál sem ég vildi að við hefðum gert betur eða hraðar en almennt hefur gengið vel
En ertu ánægð með hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið um taumana í bænum á kjörtímabilinu? ,,Það væri mjög sérstakt ef ég, sem formaður bæjarráðs, væri ekki ánægð með störf okkar á kjörtímabilinu. Auðvitað eru ákveðin mál sem ég vildi að við hefðum gert betur eða hraðar en amennt hefur gengið vel. Heimsfaraldurinn hefur vissulega sett mark sitt á kjörtímabilið en veiran hefur samt sýnt okkur hversu góða innviði við höfum í sveitarfélaginu og magnað starfs-fólk sem hefur lagt mikið á sig til að halda úti góðri þjónustu, hvort sem það er í skólunum okkar eða annars staðar.”
Hverjar verða svo helstu áherslurnar í komandi sveit-arstjórnarkosningum? ,,Halda áfram og gera betur. Við þurfum að efla leik- og grunnskólana. Líðan barna og ungmenna skiptir máli og að þau finni sig örugg í sinni heimabyggð. Okkur ber líka að auka þjónustu við eldri bæjarbúa og tryggja þeim velferð og vellíðan. Þjónusta við fatlaða einstaklinga er stórt verkefni sveitarfélag-anna og þar er verðugt verk að vinna. Við verðum án nokkurs vafa að gera betur í umhverfis-málum. Áframhaldandi stuðningur við íþrótta- og tómstundastarf er mikilvægur. Það er einnig brýnt að vinna hraðar að stafrænum lausnum innan sveitarfélagsins Þá eigum við að veita fyrirtækjum góð skilyrði til að reka hér fjölbreytta starfsemi. Ég gæti haldið áfram. Það eru spennandi tímar framundan hjá sveitarfélaginu og uppbygging mikil. Ég lít bjartsýnum augum fram veginn, vitandi að við byggjum á góðum grunni og við getum því haldið áfram að bjóða upp á fyrsta flokks þjónustu í sveitarfélagi með framsækna framtíðarsýn,” segir Áslaug Hulda að lokum.