Garðabær ætlar að draga 33% úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna eigin reksturs til 2030

Garðabær ætlar að draga 33% úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna eigin reksturs til 2030
Garðabær stefnir á að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum samkvæmt nýrri Loftslagsstefnu bæjarins

Umhverfisnefnd Garðabæjar samþykkti á fundi sínum í síðustu viku Loftlagsstefna Garðabæjar og verður stefnan nú send til kynningar hjá öðrum nefndum Garðabæjar og í framhaldi af því til samþykktar hjá bæjarstjórn.

Jóna Sæmundsdóttir formaður umhverfisnefndar Garðabæjar

Garðabær stefnir á að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum samkvæmt nýrri Loftslagsstefnu bæjarins

Loftslagsstefna Garðabær stefnir á að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum með því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni og þeim áhrifum sem losunin hefur í för með sér. Garðabær vill leggja sitt af mörkum til að markmiðum Parísarsamningsins verði náð og taka þannig virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Loftslagsstefna Garðabæjar

Fram til 2030 mun Garðabær draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna eigin reksturs um samtals 33% miðað við árið 2019 og þá þætti sem teknir voru inn i losunarbókhaldið það ár. Losunarbókhald Garðabæjar árið 2019 tók aðeins tillit til grunnlosunarþátta frá rekstri sveitarfélagsins og hyggst Garðabær því á komandi árum bæta við fleiri þáttum og uppfæra markmiðin þegar náð hefur verið utan um losun fleiri þátta.

Tafla 1 hér að neðan sýnir grænmerkta þá þætti sem teknir voru inn 2019 og gulmerkta þá þætti eða hluta þeirra þátta sem Samtök Íslenskra Sveitafélaga mæla með að teknir séu inn. Eitt af stærstu markmiðum bæjarfélagsins er því að ná utan um losun þessara þátta og setja í kjölfarið metnaðarfull markmið um hvernig megi draga úr heildarlosun. Þegar þessir þættir verða teknir inn verður því heildarmarkmið uppfært.

Auk þess að ná betur utan um kolefnisspor bæjarins og uppfæra markmiðin eftir því mun Garðabær leggja áherslu á að draga úr losun frá þeim þáttum sem nú þegar eru mældir en nánari útlistun á því hvernig markmiðinu um að draga úr losun núverandi þátta um 33% fyrir 2030 miðað við 2019 er að finna hér að neðan.

Stefnan nær til allrar starfsemi Garðabæjar, þ.e. reksturs skóla- og íþróttamannvirkja, sundlauga, bókasafna, rekstur áhaldahúss, sorphirðu o.s.frv.

Loftslagsstefna Garðabæjar er rýnd á hverju ári af Umhverfisnefnd og yfirmarkmið og undirmarkmið uppfærð með tilliti til þróunar í losun gróðurhúsalofttegunda á milli ára. Stefnan er samþykkt af bæjarráði og upplýsingum um árangur aðgerða er miðlað á heimasíðu sveitarfélagsins.

Garðabær hefur gert umhverfisuppgjör fyrir rekstur sveitafélagsins fyrir árið 2019 og 2020. Viðmiðunarár fyrir losun er því árið 2019 fyrir þá þætti sem þá voru teknir með í bókhaldið.

Garðabær það sveitarfélag sem hefur vaxið hvað mest á síðustu árum

Garðabær er það sveitarfélag höfuðborgarsvæðisins sem hefur vaxið hvað mest á síðustu árum og gert er ráð fyrir áframhaldandi fólksfjölgun sveitafélagsins. Auk þess að horfa til heildarlosunar mun Garðabær því horfa til þess að lækka losunarkræfni íbúa frá ári til árs.

Tafla 1. Yfirlit yfir þá þætti sem Garðabær hefur nú þegar tekið með í sitt losunarbókhald (grænn) og þá þætti sem Garðabær hyggst taka inn í framhaldinu út frá viðmiðum SÍS (gulur). Losunarþættir eru byggðir á leiðbeiningum Greenhouse Gas Protocol.

AÐALMARKMIÐ

  1. Draga úr losun í Umfangi 1 (Bein losun vegna jarðefnaeldsneytis) um 83% fyrir árið 2030 ef miðað er við árið 2019. 2. Draga úr losun í Umfangi 2 (óbein losun vegna notkunar á rafmagni og heitu vatni) um 15% fyrir árið 2030 ef miðað er við árið 2019. 3. Draga úr losun í Umfangi 3 (Úrgangur frá rekstri) um 60% fyrir árið 2030 ef miðað er við árið 2019. 4. Ná inn mælingu á þeim þáttum sem gulmerktir eru í töflu 1 hér að ofan og setja markmið úr hvernig draga má úr losun frá þeim.

UMFANG 1
Garðabær hyggst fasa út bifreiðar og tæki sem nota jarðefnaeldsneyti en fyrsta skref í þessari vegferð er að skipta út að lágmarki öllum bifreiðum og tækjum sem nota meira en átta hundruð lítra af jarðefnaeldsneyti á ári fyrir bíla með vistvænni orku. Ef miðað er við árið 2019 skilar þessi breyting 83% lækkun á losun í umfangi 1.

UMFANG 2
Losun í umfangi 2 vegna rafmagnsnotkunnar árið 2019 var 12% af heildarlosun í umfangi 2 og losun frá heitu vatni var 88% en Garðabær rekur meðal annars fjórar sundlaugar en 40% af heitu vatni sem notað er í rekstri bæjarins er vegna sundlauganna. Garðabær hyggst LED væða lýsingu bæjarins fyrir árið 2026 en LED perur nota að minnsta kosti 75% minni orku en hefðbundnar perur. Ef gert er ráð fyrir því að rafmagnsnotkun bæjarins vegna lýsingar sé þriðjungur heildarrafmagnsnotkunnar getur Garðabær dregið úr losun vegna rafmagns um 14 tCO2í. Stefnt er að því að draga enn frekar úr losun í umfangi 2 með fræðsluátaki um nýtingu auðlinda og betri stýringu á húshitun og lækka þannig losun um 15% í umfangi 2.

UMFANG 3
Á viðmiðunarári Garðabæjar var 41% úrgangs frá rekstri Garðabæjar flokkaður og 59% óflokkaður. Garðabær setur sér það markmið að ná flokkunarhlutfalli bæjarins upp í 80% fyrir árið 2030. Tveir stærstu úrgangsflokkar Garðabæjar árið 2019 voru grófur úrgangur og blandaður úrgangur en Garðabær mun vinna í því að bæta flokkun á verkstöðum og efla fræðslu á vinnustöðum og í skólum bæjarins til að auka flokkun með innkaupa og úrgagnsstefnu sem samþykkt var árið 2020. Ef miðað er við sambærilegt magn úrgangs og sambærilega úrgangsmeðhöndlun hefur þetta átak í för með sér 5% minni losun frá úrgangslosun sveitarfélagsins. Í þessu samhengi er mikilvægt að horfa til úrgangsmeðhöndlunar en aðeins 18% úrgangs var endurunninn eða endurnýttur og 82% fargað árið 2019. Stærsti úrgangsflokkur Garðabæjar sem flokkaður var en ekki endurunninn árið 2019 var flokkurinn litað timbur. Litað timbur er hakkað og urðað og veldur því umtalsverðri losun. Garðabær hyggst líta til þess hvort hægt sé að endurvinna hærra hlutfall þessa flokks eða endurnýta til að minnka losun CO2í. Með því að auka flokkun og ná endurvinnsluhlutfalli upp í um 70% mun Garðabær draga úr losun CO2í frá úrgangi um rúm 60%

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar