Gámaleikskóli á Vífilsstöðum

Nú á vordögum ákvað Sjálfstæðisflokkurinn í Garðabæ að reisa gámaleikskóla á Vífilsstöðum og leit sú ákvörðun út fyrir að hafa stuttan aðdraganda. Það er því miður ekki rétt því þessi ákvörðun á sér langan aðdraganda. 

Þannig er mál með vexti að á bæjarstjórnarfundi 3. september 2020 lögðum við í Garðabæjarlistanum fram tillögu um að bygging nýs leikskóla í Garðabæ ætti að vera forgangsmál enda þá orðið ljóst að skortur á leikskólaplássum væri yfirvofandi. Því var að sjálfsögðu hafnað á endanum með þeim formerkjum að það væri óþarfi, þau í meirihlutanum vissu vel hvað þyrfti að gera og væru löngu byrjuð á þessari vinnu. Þetta er því miður hrokinn sem mætir okkur í Garðabæjarlistanum og engu líkara en að þeir sem mestu stjórna geti ekki samþykkt góðar tillögur nema eiga þær sjálfir, slíkur hroki verður mönnum oft að falli. Á bæjarstjórnarfundi þann 21. október voru umræður um stöðuna í leikskólamálum og sagði bæjarstjóri meðal annars að allt tal um það að þetta eigi að vera til staðar þegar fólk flytur inn í hverfi sé útópía.

Þegar ákveðið var að byggja á Urriðaholti var strax ljóst að hverfið þyrfti skóla og leikskóla út frá stærð og staðsetningu, enda ekki fyrsta hverfið sem er byggt upp á Íslandi. Til að flýta fyrir innviðauppbyggingu var ákveðið að leggja á innviðagjald, þetta gjald hefur nú þegar verið greitt af stórum hluta hverfisins. Núna þegar hverfið er að mestu byggt upp er aðeins búið að byggja fyrsta hlutann af þremur af grunnskólanum og hann notaður að hluta sem leikskóli sem veldur því að ekki er meira pláss fyrir nemendur á grunnskólaaldri. Það má því segja að ekki sé kominn leikskóli í hverfið. En hvað veldur? Þrátt fyrir að fjöldi íbúða í byggingu liggi fyrir og á hvaða stigi byggingar eru hefur lítið sem ekkert gerst, það var ekki fyrr en í vor að ákveðið var í flýti að koma af stað samkeppni um hönnun leikskóla í Urriðaholti sem eitthvað gerðist í þessum málum. Hann mun líklega vera tekinn í notkun 2023 ef vel gengur.

Á hverjum bitnar þetta klúður mest? Klúðrið mun bitna á börnunum og fjölskyldum þeirra. Til að bjarga málum tímabundið hafa margir foreldrar leikskólabarna í Urriðaholti fengið pláss í leikskólanum á Álftanesi. Börnin hafa farið þar í aðlögun og þurfa svo að fara aftur í aðlögun þegar þau flytja í gámaleikskólann. Mikið vildi ég óska að staðan væri önnur og að það hefði verið hlustað á okkur í Garðabæjarlistanum. Núna er verið að raða gámunum á einum fallegasta stað á höfuðborgarsvæðinu og það allt gert án útboðs með tilheyrandi auknum útgjöldum sem því fylgja.

Ingvar Arnarson bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar