Gallerí Kaffihús opnar á Garðatorgi – haustsýning Grósku opnuð á laugardaginn

Gróska opnar hina árlegu myndlistar-haustsýningu félagsins laugardaginn 2.nóvember frá klukkan 14-18. Sýningin fer fram í Gróskusalnum á 2.hæð á Garðatorginu og nefnist hún Gallerí Kaffihús.

Sýningarstjóri að þessu sinni er myndlistarkonan Unnur Sæmundsdóttir. Garða-pósturinn leit við í undirbúningi sýningarinnar uppi í Gróskusal þar sem allt var á rúi og stúi og tók Unni Sæm – eins og hún er oftast kölluð – tali.

Hér er mikið um að vera Unnur. Stendur mikið til? ,,Já, heldur betur. Eins og þú sérð erum við að umbreyta Gróskusalnum, mála hann í gleðilegum litum, færa inn í hann alls konar húsgögn og stóla, hengja upp seríur og fleira. Og svo eigum við eftir að hengja upp og stilla fram fullt af myndlist,” segir Unnur.
Sýningin heitir Gallerí Kaffihús. Mér sýnist salurinn vera farinn að minna á kaffihús. ,,Já, takk, gaman að heyra. Okkur langaði að slá tvær flugur í einu höggi. Við vildum breyta salnum þannig að umhverfi myndanna sem sýndar verða væri ekki hvítir veggir heldur hlýlegt og margbreytilegt umhverfi. Með því að búa til þannig umhverfi fannst okkur við vera að nálgast einhvers konar kaffihúsastemningu þar sem öllu ægir saman og mikið flæði er á öllu. Má kannski segja að salurinn verði að einu stóru lifandi verki með því að láta umhverfið og listina blandast svona saman. Það er virkilega spennandi hugmynd.”

Þannig að Gallerí Kaffihús er ekki hefðbundin sýning eða hvað? ,,Alveg rétt hjá þér. Við breytum Gróskusalnum alveg sérstaklega til að hann blandist saman við verkin sem verða til sýnis. Saman búa þau til stemminguna. En svo verður auðvitað kaffi og sitthvað annað á boðstólnum eins og á öllum góðum kaffihúsum, sem leikur líka hlutverk í stemmingunni sem skapast. Tarrot, upplestur, notaleg tónlist og fleira sem á eftir að koma í ljós og svo gestirnir. Mikið um að vera en í notalegu umhverfi samt. Við vonumst til að fólk mæti til að setjast aðeins niður og slaka á. Taki með sér bók eða prjónana. Kroti jafnvel á borðin. Svona eins gerist á kaffihúsi.”

Kroti á borðin? ,,Já,” segir hún hlæjandi. ,,Við dekkuðum nokkur borð með pappír og á þau má lita og teikna. Ef fólk lætur það eftir sér verður sýningin jafnvel enn betri.”

Hvað stendur sýningin lengi? ,,Sýningin er þrjár fyrstu helgarnar í nóvember, opið á laugardögum og sunnudögum milli kl.14-18. Lokahelgin er helgin 16. og 17. nóvember. Og það eru allir velkomnir.”

Við óskum Unni Sæm og félögum í Grósku til hamingju með framtakið.

Gallerí Kaffihús í Gróskusalnum á Garða-torgi opnar sem fyrr segir á laugardaginn næsta, þann 2.nóvember milli klukkan 14-18.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar