Gaf út sitt fyrsta jólalag 59 ára

Garðbæingurinn Guðrún Erlingsdóttir er 59 ára, sem er svo sem ekki frásögu færandi nema að því leyti að hún var að gefa út sitt fyrsta jólalag á Spotify á dögunum sem ber nafnið Friður á jólanótt, en þetta er fyrsta lag Guðrúnar á Spotify.

Guðrún er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum og bjó þar fyrstu 50 ár ævinnar. Hún flutti á fastalandið 2013 og þá til Hafnarfjarðar, en gerðist Vestmannaeyískur Garðbæingur árið 2015 þegar hún flutti á Álftanesið, en þaðan kom hún svo í byggðirnar í Garðabæ árið 2018. ,,Ég er starfa nú sem ráðgjafi hjá Félagi grunnskólakennara, þar á undan var ég blaðamaður á Morgunblaðinu og í Eyjum varði ég stærstum hluta starfsævinnar í verkalýðsmál sem formaður Verslunarmannafélags Vestmannaeyja sem sameinaðist VR árið 2008, en þá hóf ég störf sem sérfræðingur á kjarasviði VR,” segir hún aðspurð hvað hún hafi haft fyrir stafni á undanförnum árum. Guðrún er gift Gylfa Sigurðssyni og þau eiga þrjú börn á aldrinum 31 til 41 og tvö barnabörn.

Komu hvort öðru á óvart En að máli málanna, Garðapósturinn spurði Guðrúnu hvernig það hafi kom til að hún ákvað að gefa út jólalag? ,,Ég lærði einn vetur á gítar þegar ég var 12 ára en hafði ekki sjálfstraustið til að halda áfram svo gítarinn var ekki lagður á hilluna heldur settur inn í kompu. Það var svo árið 2006 sem ég ákvað að láta drauminn um að spila á hljóðfæri rætast og ætlaði að koma eiginmanninum á óvart með því að spila fyrir hann lag einn daginn. Ég þurfti að fara til Reykja-víkur vegna kjarasamningsgerðar og var þar í rúman hálfan mánuð á meðan ákvað minn maður að fara að spila á gítar og ætlaði að koma mér á óvart þegar ég kæmi heim. Þegar við svo hittumst og opinberuðum hvað við höfum verið að brambolta þá ákváðum við að kaupa okkur sitthvorn gítar-inn og byrja að æfa okkur,” segir hún og heldur áfram.

Erfitt að ganga um bæinn með gítar á bakinu 54 ára

,,Ég var eitthvað feimin við að fara í tónlistarskóla, fannst erfitt orðin 54 ára að ganga um með bæinn með gítar á bakinu þannig að ég leitaði til góðrar Aglow konu sem hjálpað mér af stað. Það er mikill sköpunarkraftur í sjónum og ég einn daginn árið 2011 þegar ég sat við gluggann minn úti í Eyjum og horfði út á sjó og spila á gítarinn heyrði ég lag sem ég kannaðist ekki við og áttaði mig á því furðu lostin að lagið kom frá mér og svo texti í kjölfarið. Eftir þetta komu 12 önnur lög með textum þar til ég flutti frá Eyjum 2013. Þá kom þriggja ára stopp þar til ég flutti á Álftanesið og samdi þar fjögur lög svo hafa þrjú bæst við í Garðabænum, samtals á ég því 19 lög. Eftir að ég flutti á fastalandið var ég beðin um að þýða gospeltexta yfir á íslensku og á nú 28 slíka texta. Ég hafði aldrei þýtt áður svo það kom mér jafn mikið á óvart eins og texta- og lagagerðin. Ég hef einnig samið texta við lög tveggja tónlistarmanna að þeirra beiðni og lag við texta Hannesar Hafstein,” segir hún.

Boðskapur jólanna í flutningi Helgu Möller

Um hvað er jólalagið, einhver sérstök skilaboð? ,,Frið á jólanótt samdi ég á Álftanesinu. Ég sat og horfði út um gluggann og horfði á snævi þakta jörðina og það ríkti kyrrð eins og segir í textanum. Þannig kom textinn og lagið til mín samtímis en viðlagið lét á sér standa. Þegar Covid -19 brast á var ég flutt Garðabæinn og ákvað að kaupa mér hljómborð. Mig langaði að nýta tímann og reyna að læra að spila á píanó og einn daginn kom til mín viðlagið við Friður á jólanótt. Ég hef ekki lært nótur né hljóðfræði þannig að ég verð að spila og syngja lögin mín fyrir aðra til þess að fá þau nótnasett.
Það sem mig langaði að gera með textann var að í honum kæmi boðskapur jólanna fram. Eins og með alla texta þá túlkar hver og einn hvað hann heyrir. Textann má túlka sem ástarsögu veraldlega en einnig sem andlega ástarsögu þar sem helgi jólanna er lýst og þeim friði og fullnægju sem hlýst af því að gefast Guði. Mér fannst alveg tilvalið að fá Helgu Möller með sína fallegu jólarödd til þess að syngja lagið sem er í senn hátíðlegt og gefur von.”

Og þú ákvaðst að setja það í spilun á Spotify? ,,Það er ekki auðvelt að koma lögum í spilun í útvarpi og því fór ég þá leið að gera lagið klárt til flutnings í útvarpi og þar með tilbúið á Spotify. Viðtökur við laginu hafa verið góðar og er lagið nú vinsælasta útgáfan af þeim lögum sem Helga Möller er með á Spotify,” segir hún og bætir við: ,,Ég vona bara að sem flestir hlusti á lagið og ef það höfðar til fólks að setja það á spilunarlistann sinn þá væri það gaman.”

Þetta er þitt fyrsta jólalag, en þú hefur í gegnum tíðina gefið út lög eins og þú nefnir, en hvaðan kemur áhuginn? ,,Ég hélt tónleika í Salnum í Kópavogi þegar ég útskrifaðist úr Háskóla Íslands 2016 þar sem 15 laga minna voru flutt að kór Ástjarnarkirkju en ég söng með honum. Tónleikarnir eru til á DVD diski en ég hef ekki gefið hann út en lögin eru flest ef ekki öll á Youtube. Ég hef fullan áhuga á að gefa lögin mín bæði af tónleikunum og svo þeim lögum sem eftir þá komu. Það kostar sitt að gefa út lög en koma tímar og koma ráð.
Söngur gefur mér mjög mikið, ég syng núna í tveimur ólíkum kórum Rokkkór Íslands og Vox Gospel en þar er kórstjórinn Matthías V. Baldursson, algjör snillingur sem útsett hefur flest lögin mín fyrir kór. Það er góð tilfinningaúrvinnsla að semja texta og falleg lög. Tilfinningin þegar lag eða texti snertir við fólki er ólýsanleg en það er tilgangurinn með mínu tónlistarbrölti. Ég er þakklát fyrir þá náðargáfu eða geta samið músík og komið texta á blað og finnst enginn tilgangur að geyma lögin mín ofan í skúffu.
Ég verð 60 ára næsta haust og því verður fagnað með tónleikum með lögunum mínum og lögum annarra sem ég hef samið við.”

Var pikkföst í hefðunum

Fyrsta jólalagið þitt komið á Spotify og jólin framundan, ertu mikið jólabarn og fylgir þú ákveðnum jólahefðum? ,,Ég er mikið jólabarn og finnst aðventan og jólin góður og gefandi tími. Ég var pikkföst í hefðunum séstaklega þegar börnin voru lítil og var í þeim pakka að þrífa allt hátt og lágt og baka óhóflega margar kökusortir. Það er liðin tíð. Eftir að við fluttum frá Eyjum bjuggum við á þremur stöðum á fimm árum og þá riðlaðist allt jólahald. Skreytingarnar pössuð ekki, fastir liðir með fólkinu okkar í Eyjum voru ekki til staðar osfr. Að sumu leyti var þetta gott því nú hef ég fullt frelsi til þess að breyta jólahefðunum eins og vindar blása. Við borðum með dóttur minni og tengdasyni á aðfangadag og á borðum er hamborgarahryggur og stundum bætist kalkúnn líka við. Heimagert rauðkál er ómissandi á jólaborðið sem og Cream Brulee sem mér tókst loksins að gera samkvæmt bókinni á jólunum í fyrra eftir misheppnaðar tilraunir í 18. ár. Þetta hefst allt með seiglunni.
Einum sið höfum við haldið í áratugi en það er að kveikja á aðventukertinu og borða saman eða fá okkur kaffi og með því alla sunnudaga á aðventunni, hversu mikið sem við höfum að gera. Það er nauðsynlegt að staldra við og huga að því hvers vegna við erum að halda jól,” segir hún að lokum.

Linkurinn á jólalag Guðrúnar á Spotify er: http://open.spotify. com/album/1UT7FMvrzmf-PqhMqPPVcJq

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar