Te & Kaffi opnaði á slaginu klukkan 08:00 í morgun nýtt og glæsilegt kaffihús á Garðatorgi 4 í Garðabæ
Það var Sverrir Ragnars Arngrímsson sem fékk fyrsta kaffibollann á nýja staðnum og hann var af dýrari gerðinni, tvöfaldur expressó, og honum leist vel á staðinn. ,,Maður verður fasta kúnni hérna, mjög skemmtilegur og vel hannaður staður,“ sagði Sverrir Ragnars sem fannst expressó kaffibollinn bragðast vel, en Sverrir mætir á hverju morgni í Ásgarðslaug kl. 07:30 ásamt félögum í sínum í sundhópnum Húnunum. ,,Það verður tilvalið fyrir okkur að mæta á Te & Kaffi eftir sundið á morgnana, fá okkur góðan kaffibolla og spjalla.“
Það hefur svo verið mikill straumur gesta í Te & Kaffi sem af er deginum og greinilegt að bæjarbúar ætla að taka vel í þessa frábæru viðbót á Garðatorg.