Fyrirmyndar bæjarfélag

Garðabær hefur byggst upp sem bæjarfélag á síðustu 70 árum. Það fór að myndast þéttbýliskjarni í Garðahreppi um 1950, fyrsti vísir að Garðabæ okkar daga. Við eigum því bæði eldri og nýrri hverfi eins og Túnin, Flatirnar, Lundina, Sjálandið, Urriðaholtið, Álftanesið og fleiri. Við uppbyggingu Garðabæjar hefur verið haft að leiðarljósi að bjóða upp á fjölskylduvænt og öruggt umhverfi með góðum skólum, góðri þjónustu og tækifærum til tómstundastarfs og annars félagslífs fyrir alla fjölskylduna. Þetta eru allt lífsgæði sem við Garðbæingar viljum halda í heiðri við uppbyggingu nýrra hverfa í Garðabæ. 

Gera má ráð fyrir auknu framboði lóða á komandi kjörtímabili og fjölgun íbúa. Það er því mikilvægt að nýir íbúar bæjarins verði boðnir velkomnir í metnaðarfullt bæjarfélag þar sem aðbúnaður allra bæjarbúa er til fyrirmyndar.

Upplyfting eldri hverfa bæjarins

Samhliða uppbyggingu nýrra hverfa í bænum er ekki síður mikilvægt að eldri byggðir bæjarins fái upplyftingu og reglulegt viðhald. Með stækkandi bæjarfélagi er eðlileg krafa íbúa í eldri hverfum að hugað verði að endurnýjun innviða sem snúa að þessum hverfum. Hér þarf að tryggja að viðhald eigi sér stað og að hverfin standist samanburð við nýju hverfin í bænum. Auk þess er mikilvægt að hugað sé að gerð hjóla- og stígakerfa. Gott dæmi um fallega stíga sem tengja saman eldri og nýrri hverfi bæjarins eru stígarnir í hrauninu fyrir neðan Flatirnar og núna nýjasta viðbótinn stígurinn í hrauninu frá Hraunhólum sem malbikaður var snemma árs.

Æskilegt er að gerð sé áætlun til lengri tíma um viðhald og endurnýjun innviða í eldri hverfum sem lögð er fram með fjárhagsáætlun. Garðbæingar hefðu þá upplýsingar um hvaða hverfi/svæði eru á viðhaldsáætlun ár hvert. Samkvæmt ársreikningum Garðabæjar nema árlegar tekjur af fasteignaskatti rúmum 1,5 ma.kr. Tekjur af fasteignaskatti eiga því að tryggja fjármögnun á viðhaldi gatna, gangstétta og öðrum innviðum eldri hverfa.

Bæjarbragurinn

Við eigum að varðveita heildaryfirbrag bæjarins og tryggja að eldri hverfi verði ekki útundan í viðhaldi og vexti. Auk þess er viðhald eldri hverfa ein af forsendum fyrir því að eldri íbúar geti búið sem lengst í eigin húsnæði með því að tryggja að gangstéttir og þá um leið gönguleiðir þeirra séu greiðfærar og án allrar slysahættu.

Það á að vera kappsmál okkar íbúanna að standa vörð um vöxt og viðgang sveitarfélagsins, þannig að tryggt verði að Garðabær verði fyrirmynd annarra sveitarfélaga varðandi lífskjör og aðbúnað bæjarbúa.

Lilja Lind Pálsdóttir
Ég gef kost á mér í 6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar