Almar Guðmundsson, bæjarfulltrúi og framkvæmdastjóri Reiknistofu lífeyrissjóða, tilkynnti í síðustu viku að hann bjóði sig fram í fyrsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, en Almar hefur setið í bæjarstjórn frá 2014.
Almar er hagfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands auk þess sem hann er með gráðu frá London Business School. Hann er uppalinn Garðbæingur og kvæntur Guðrúnu Zoega, deildarstjóra á Hrafnistu Skógarbæ og eiga þau fimm börn.
En hvernig kom það til að Almar ákvað að gefa kost á sér í oddvitasætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þann 5. mars nk.? ,,Ég gaf mér nokkurn tíma í þá ákvörðun, en fann fljótlega að það væri rétt að fylgja hjartanu og leita í ræturnar. Ég hef verið í bæjarmálunum síðan 2014 og komið að ýmsu félagsstarfi í bænum frá því ég var unglingur. Ég var virkur í félagsstarfi í Garðaskóla og FG og hef svo mikið unnið fyrir Stjörnuna í gegnum tíðina, m.a. sem formaður knattspyrnudeildar. Mér hefur þannig í gegnum tíðina verið falin ábyrgð og oft verið treyst fyrir forystuhlutverki, bæði í félagsmálum og eins í þeim störfum sem ég hef gegnt í atvinnulífinu. Svo fann ég mjög góða hvatningu frá vinum, fjölskyldu og ýmsu samferðafólki í gegnum tíðina og það gerði ákvörðunina ennþá einfaldari.”
Hefur fundið sig vel í bæjarmálunum
Þú hefur væntanlega enn brennandi áhuga fyrir málefnum Garðabæjar miðað við fyrirhugað framboð þitt? ,,Ég hef fundið mig mjög vel í bæjarmálunum. Ég hef setið í bæjarráði undanfarin fjögur ár og hef að auki komið að ýmsum málum og málaflokkum. Það er t.d. mjög ánægjulegt að Miðgarður, fjölnota íþróttahúsið okkar í Vetrarmýri, er að komast í rekstur þessa dagana en ég sat í undirbúningsnefnd um það verkefni. Ég hef verið formaður fjölskylduráðs undanfarin fjögur ár en þar eru m.a. málaflokkar sem voru að hluta til nýir fyrir mér. Ég hef unnið í ráðinu með mjög góðu fólki og starfsfólk okkar á fjölskyldusviði er bæði mikið fagfólk og metnaðarfullt. Ég er mjög ánægður með okkar vinnu og stöðuna. Við höfum verið að bæta við búsetukjörnum fyrir fatlað fólk, sá næsti rís brátt í Brekkuási og þar á eftir verður byggt í Hnoðraholti. Við erum líka með skýra sýn á uppbyggingu leiguíbúða og félagslegs húsnæðis í fjárhagsáætlun næstu þriggja ára. Þá höfum við unnið að því að bæta félagsaðstöðu fyrir eldri borgara og samið sérstaklega við félög eldri borgara um að taka að sér umsjón með námskeiðum sem hvetja til heilsueflingar og aukinnar virkni.
Við höfum líka unnið mikið í málum sem hafa alltaf verið mikilvæg en hafa sem betur fer fengið enn meira vægi í umræðunni síðustu ár. Þar er ég að tala annars vegar um jafnréttismál, en við endurskoðuðum jafnréttisstefnu bæjarins fyrir nokkrum misserum, og hins vegar lýðræðismál og þátttöku borgaranna en ný lýðræðisstefna Garðarbæjar verður kynnt á næstu vikum,” segir Almar.
Skiptir miklu máli að varðveita stöðu okkar
Auk þess að vera búinn að vera bæjarfulltrúi undanfarin átta ár, tekið þátt í fjölbreyttu félagsstarfi í bænum, þá hefur þú verið búsettur í Garðabæ nánast frá blaut barnsbeini. Þú þekkir því almennt vel til í bænum. Hverjar eru þínar helstu áherslur og hvað er hægt að gera betur í Garðabæ? ,,Staðan í Garðabæ er góð, enda hefur það verið okkar aðalsmerki að gera sífellt betur t.d. í þjónustu við íbúa. Ég legg áherslu á fjármál sveitarfélagsins en ég hef mikla þekk-ingu og reynslu á fjármálum og rekstri. Mér finnst skipta miklu máli að varðveita stöðu okkar þar sem við veitum mjög góða þjónustu en á sama tíma eru álögur á íbúa lágar og skuldum haldið niðri. Við höfum notið mjög góðs af því að vera skynsöm í fjármálum, það gefur nauðsynlegan kraft í innviðauppbyggingu. Það er auðveldara um að tala en í að komast.
Ég þekki íþrótta- og tómstundamál vel og vil að Garðabær verði áfram í fararbroddi sveitarfélaga í aðstöðu til íþrótta, hreyfingar og hvers kyns útivistar. Samvinna bæjarins við hin ýmsu félög á sviði íþrótta, tómstunda og skátastarfs þarf að þróast áfram og ég tel mikil tækifæri í því til að bæta samfélagið.
Svo vil ég leggja áherslu á starfsumhverfi fagfólksins okkar á öllum sviðum, en auðvitað ekki síst í fræðslumálunum bæði hvað varðar leik- og grunnskóla. Við búum að því að hafa mjög öflugt fagfólk í skólum, leikskólum, tómstundastarfi. Við þurfum að stíga frekari skref í að gera starfsumhverfið þeirra enn meira aðlaðandi, þannig að faglegur stuðningur við þau þróist í takt við þarfirnar og að rými sé til að þróa skólastarf og annað starf áfram. Að sjálfsögðu brenna mörg önnur mál á mér og ég mun gera því betri skil.”
Það eru áskoranir í vextinum
Er Garðabær að þróast í rétta átt og eru spennandi tímar og mikil uppbygging framundan? ,,Ég mikla trú á framtíð bæjarins og þeirri uppbyggingu sem er framundan t.d. á miðsvæði Álftaness, í Vetrarmýri og í Hnoðraholti. En það eru áskoranir í vextinum. Við eigum verðmætt byggingarland og höfum náð góðum árangri í að fá með okkur aðila í uppbyggingu. Það skiptir máli að það fjármagn sem fellur til bæjarins í gegnum slík verkefni fari annars vegar í innviði og hins vegar í að halda skuldahlutfalli bæjarins ásættanlegu og lágu, eins og okkur hefur tekist að gera. Þessar tekjur eru ekki viðvarandi og það er mjög mikilvægt að við horfum þannig á málin. Við höfum lagt áherslu á lágar álögur og þær þurfa að skila skatttekjum sem standa undir hefðbundnum rekstri bæjarfélagsins.
Skyldur sveitarfélagsins í einstökum málaflokkum eru alltaf að aukast og alls ekkert óeðlilegt við það. Ég nefni málefni fatlaðs fólks sem dæmi. Ég tel það forgangsatriði að Garðabær, í samstarfi við önnur sveitarfélög, nái því fram að ríkisvaldið fjármagni þann málaflokk að fullu eins og lagt var upp með þegar málaflokkurinn færðist til sveitarfélaga. Við þurfum að standa þá vakt og taka þá baráttu. Ég er tilbúinn til þess.”
Viljum viðhalda metnaðinum í þjónustunni
Og það er mikilvægt að þjónustan nái að halda í við uppbygginguna eins og þú nefnir?
,,Já, auðvitað er það mikilvægt og á heildina litið hefur það gengið vel. Mikill aukning á fjölda barna í Urriðaholti hefur auðvitað verið áskorun sem ég lít á sem tímabundna því að sjálfsögðu viljum við viðhalda metnaðinum í þjónustunni.
Við Guðrún eigum fimm börn og það má segja að við höfum verið „ofurnotandi“ á þjónustu bæjar-ins undanfarin ár. Börnin okkar eru á breiðu aldursbili þannig að á tímabili áttum við leikskóla-barn og börn á grunn-, framhaldsskóla- og háskólaaldri líka. Við þekkjum því vel þarfirnar og mér finnst það hjálpa mér mikið í samtalinu við ibúa.”
Hefur opnað heimasíðuna www.almarg.is
Og þú hefur opnað heimasíðu þar sem bæjarbúar geta farið enn betur yfir áherslur þínar og framboð? ,,Já ég er með virka síðu sem bæði er hægt að fylgja á Facebook og eins í gegnum www.almarg.is. Mér finnst samtalið skipta miklu þannig að ég vil hverja fólk til að hafa samband við mig til að ræða málin. Það er stór hluti af verkefninu að eiga í milliliðalausum samskiptum við íbúa,” segir Almar að lokum.