Fullt út úr dyrum þegar vetrarstarf eldri borgara var kynnt

Hann var þétt setinn bekkurinn í Jónshúsi þegar farið var yfir dagskrá vetrarins á vegum Jónshúss og Félags eldri borgara í Garðabæ, en í félaginu eru yfir 2000 manns og hefur fjölgað verulega síðustu 3 árin, eða um 25%. Árið 2021 voru um 1600 í félaginu.

Lífsgæðin aukast með hreyfingunni

Það er eftir mörgu að slægjast hjá FEBG. Þar er boðið upp á fjölbreytt útval námskeiða, á sviði hreyfingar. Þar er af ýmsu að taka; vatnsleikfimi, stólajóga og línudans eru meðal námskeiða, sem kosta einungis 3000 krónur á mánuði. „Við gerum okkur ljóst að lífsgæðin aukast með hreyfingunni og finnum mikinn áhuga á henni hjá fólkinu okkar. Fólk finnurað því líður betur þegar það hreyfir sig og sérfræðingar á þessu sviði segja að gott sé að styrkleikaþjálfun og liðleikaþjálfun fari saman,“ segir Anna R. Möller formaður félagsins sem leggur mikið upp úr hreyfinámskeiðunum. Garðabær hefur síðan gert samning við Janus heilsueflingu, sem félagar í FEBG hafa aðgang að en þar hafa um 300 manns farið í gegn frá 2021.

Elín og Anna voru ánægðar með kynningardaginn

Fjöldasöngurinn vinsælastur

Fyrir utan hreyfinguna eru fjölbreytt listnámskeið í boði og nú í haust bætist við námskeið í postulínsmálun sem þegar er orðið uppbókað . Einn vinsælasti viðburðurinn er samsöngur sem fyllir húsnæði Jónshúss 1.- og 3. föstudag hvers mánaðar, undir stjórn Benedikts Sigurðssonar einnig er Félagsvist spiluð alla föstudaga og þar er einnig mikil þátttaka. Annar vinsæll og fastur liður í starfinu er gönguhópurinn sem gengur alla daga vikunnar klukkan 10 frá Jónshúsi. Flestir ganga alla virka daga, en margir ganga einnig um helgar og skreppa svo í kaffi á kaffihúsi eftir göngu, lengri göngur er svo farnar tvisvar í mánuði frá vori fram á haust.

Rýmra um félagsstarfið í Jónshúsi

Aðstaðan sem Garðabær býður eldri borgurum upp á í Jónshúsi er mjög góð ekki síst eftir gagngerar endurbætur í Jónshúsi sem fóru fram fyrir um ári síðan en þá voru gerðar ýmsar breytingar á húsnæðinu, til að mynda var húsnæðið opnað meira og rúmar nú félagsstarfið enn betur en áður. Í Jónshúsi er hægt að kaupa bæði kaffiveitingar og máltíðir í hádeginu í Jónshúsi, á vægu verði. ,,Ég held að öllum líði vel hér og samstarfið milli bæjarins og Félags eldri borgara er bæði gott og gjöfult,“ segir Elín Þ. Þorsteinsdóttir, umsjónarmaður félagsstarfs eldri borgara í Garðbæ.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar