Frumvarp þetta varðar mikilvæga fjárhagslega hagsmuni Garðabæjar

Málefni Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var til umfjöllunar á fundi bæjarstjórnar sl. fimmtudag þar sem Björg Fenger, fór fram á að bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Garðabæjarlistans í bæjarráði yrði færð til bókar í fundargerð bæjarstjórnar. 

„Á ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem haldinn var 20. september sl. gerði innviðaráðherra grein fyrir að lagt hefur verið fram frumvarp um heildarendurskoðun á jöfnunarsjóði sem væri ætlað að búa til einfaldara og sanngjarnara kerfi. Fjallaði ráðherra sérstaklega um nýtt ákvæði í frumvarpinu sem kveður á um að skerða skuli framlög Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga sem ekki fullnýta útsvar sitt. 

Í því sambandi telur bæjarráð rétt að árétta eftirfarandi. Sveitarfélögum er tryggt sjálfstæði í sínum málum, þ.m.t. varðandi álagningu útsvars og því óeðlilegt að reglur Jöfnunarsjóðs séu með þeim hætti að þær þvingi sveitarfélög til að leggja á íbúa sína hærra útsvar. Álagt útsvar hefur engin áhrif á hlutdeild Jöfnunarsjóðs í útsvarstekjum sem íbúar einstakra sveitarfélaga greiða og er því ekki hægt að halda því fram að tekjuminni sveitarfélög niðurgreiði útsvar fyrir aðra. M.ö.o. hefði hækkun útsvars í Garðabæ engin áhrif á tekjur Jöfnunarsjóðs eða stöðu annarra sveitarfélaga. 

Í allri umræðu um Jöfnunarsjóð er nauðsynlegt að minna á að hlutdeild sjóðsins í útsvarstekjum er nýtt til framlaga til grunnskóla og málefna fatlaðs fólks sem áður voru á hendi ríkisins. Gera verður þá kröfu að skipting þeirra fjármuna milli sveitarfélaga fari fram með hlutlægum hætti hér eftir sem hingað til.“

Björg Fenger lagði fram eftirfarandi bókun. „Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn árétta það sem fram kemur í sameiginlegri bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Garðabæjarlistans í bæjarráði og varðar lagafrumvarp innviðaráðherra um heildarendurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Frumvarp þetta varðar mikilvæga fjárhagslega hagsmuni Garðabæjar enda gegnir Jöfnunarsjóður mikilvægu hlutverki t.a.m. við yfirfærslu umfangsmikilla verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja það vera skyldu sína sem kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn Garðabæjar að gæta fjárhagslegra hagsmuna bæjarins og munu hér eftir sem hingað til vinna með markvissum hætti að því með hagsmuni allra íbúa að leiðarljósi.
Umræða um forgangsröðun verkefna eða pólitískar áherslur einstakra flokka eiga betur heima undir annarri umræðu en um breytingar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.“

Fundargerðin var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar