FRELSI – Sumarsýning Grósku opnar 19. apríl kl. 20

Rétt eins og koma vorsins er Sumarsýning Grósku árviss viðburður, jafn ómissandi og birtan, ylurinn og gleðin. Á vorin er allt að losna úr viðjum og höftunum er kastað. Frelsinu er líka fagnað á Sumarsýningu Grósku sem verður opnuð kvöldið fyrir sumardaginn fyrsta 19. apríl kl. 20-22 í Gróskusalnum á 2. hæð við Garðatorg 1. Sýningin er helguð frelsi og birtist þar frjálst sköpunarflæði í fjölbreyttum listaverkum enda eru sýnendur 24 talsins, allir úr Grósku, félagi myndlistarmanna í Garðabæ. 

Sýningarstjóri er Birgir Rafn Friðriksson myndlistarmaður og Gróskufélagi sem einnig annaðist sýningarstjórn sýningarinnar Walk Through á Garðatorgi sem nú stendur yfir. Þar má sjá olíumálverk eftir Auju – Auði Björnsdóttur Gróskufélaga. Myndlistarmenn í Grósku hafa lífgað upp á Garðatorg með sýningum og mynda sýningarflekar Grósku sérstakt rými sem gengið er í gegnum á torginu. Um leið og fólk gengur um myndlistarsýningarnar gengur það gegnum listina enda er eitt af meginmarkmiðum Grósku að gera myndlistina sýnilegri í Garðabæ. 

Siglt fyrir Núpa – mynd eftir Þránd Arnþórsson

Þetta er einnig haft að leiðarljósi á samsýningum myndlistarfélagsins og er fólk hvatt til að gera sér glaðan dag, göfga andann og bjóða sumarið velkomið með því að fjölmenna á Sumarsýningu Grósku og spjalla við listamennina sem verða á staðnum. Boðið er upp á léttar veitingar. 

Allir eru hjartanlega velkomnir, Garðbæingar jafnt sem aðrir listunnendur, og þeir sem ekki komast á opnunina þurfa ekki að örvænta því sýningin er opin áfram dagana 21.-23. og 29.-30. apríl kl. 13.30-17.30.

Gróska er stórt og öflugt myndlistarfélag sem stendur fyrir allnokkrum myndlistarsýningum á ári, auk námskeiða og annarra viðburða. Í félaginu er fjölskrúðugur hópur fagmenntaðra og sjálfmenntaðra myndlistarmanna en ein af hugsjónum Grósku er að allir fái að blómstra og njóta sín við listsköpun. Í rúmlega þrettán ár hefur starfsemi Grósku skapað mikilvægan vettvang fyrir skapandi samneyti myndlistarmanna og eflt myndlistina og menningarlíf Garðabæjar.

Myndlistarmenn sem búa eða vinna í Garðabæ eru hvattir til að sækja um inngöngu í Grósku gegnum fésbókarsíðu félagsins: https://www.facebook.com/groska210/ eða með því að senda póst á [email protected].

Bestu kveðjur fyrir hönd Grósku
Rúna K. Tetzschner

Forsíðumynd: Auja Auður Björnsdóttir Frelsi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar