Framganga oddvita Garðabæjarlistans í fjölmiðlum er ámælisverð

Á fundi bæjarráðs í síðustu viku gagnrýndi Almar Guðmundsson bæjarfulltrúi meirihlutans framgöngu oddvita Garðabæjarlistans, Söru Daggar Svanhildardóttur, í fjölmiðlum í tengslum við uppbyggingu á fjölnota íþróttahúsi í Vetrarmýri, en Almar segir framgöngu oddvitans ámælisverða enda sé málflutningur hans í öllum meginatriðum byggður á rangfærslum.

Almar lagði fram eftirfarandi bókun á fundinum: ,,Undirritaður sat í undirbúnings- og dómnefnd fyrir byggingu fjölnota íþróttahúss ásamt Björgu Fenger, sem var formaður, Baldri Svavarssyni, fulltrúa minnihluta bæjarstjórnar, og Sigurði Bjarnasyni og Guðrúnu Dóru Brynjólfsdóttur sem tilnefnd voru af íþróttafélögum í Garðabæ. 

Niðurstaðan var að hanna fjölnota íþróttahús með áherslu á æfingaaðstöðu fyrir knattspyrnuiðkendur, sérstaklega þá yngri. Húsið hefur aldrei verið hugsað sem vettvangur fyrir keppni í efstu deildum, nema í undantekningartilvikum, enda fer keppni í meistaraflokkum í knattspyrnu nánast eingöngu fram utandyra. Húsið verður svo sannarlega fjölnota enda verða alls um 4.800 m2 á þremur hæðum til notkunar í ýmislegt tengt líkams- og heilsurækt auk fræðslu og kennslu. Í húsinu verður m.a. að finna styrktar- og lyftingasal, svalir með hlaupaundirlagi og klifurvegg ásamt því að unnt verður að nota húsið fyrir tónleikahald. 

Framganga oddvita Garðabæjarlistans í fjölmiðlum í tengslum við málið er ámælisverð enda er málflutningur hennar í öllum meginatriðum byggður á rangfærslum. Rétt er að fram komi að fulltrúar Garðabæjarlistans hafa aldrei greitt atkvæði gegn málinu né setið hjá þegar það hefur komið til afgreiðslu.“

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar