Fræðsluskilti um Stálvík og hafsækin iðnað í Arnarnesvogi afhjúpað

Bygg ehf, Björgun ehf og Garðabær stóðu fyrir athöfn sl. þriðjudag í Sjálandi þar sem fræðsluskilti var afhjúpað um skipasmíðastöðina Stálvík, Rafboða og annan hafsækin iðnað í Arnarnesvogi fyrr á tímum, en nú er þar komin aðlaðandi íbúðabyggð.

Það var ekkja Jóns heitins Sveinssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Stálvíkur, Þuríður Hjörleifsdóttir, sem afhjúpaði fræðsluskiltið ásamt Almari Guðmundssyni bæjarstjóra í Garðabæ og Sigurði R. Helgasyni fyrrverandi framkvæmdastjóra Björgunar ehf.

Almar Guðmundsson bæjarstjóri hélt stuttu tölu við þetta tækifæri ásamt Sigurði R. Helgasyni fyrrverandi framkvæmdastjóra Björgunar ehf og gaman er að segja frá því margir fyrrverandi starfsmenn bæði Stálvíkur og annarra fyrirtækja sem voru við Arnarnesvog voru viðstaddir athöfnina auk fyrrverandi og núverandi bæjarfulltrúa í Garðabæ og bæjarstjóra.

Garðabær / Gardabaer

Um 220 mann störfuðu við skipasmíðarnar

Starfsemi Stálvíkur hf. stóð í 27 ár og voru á þeim tíma smíðum 50 fiskiskip, þar af sex skuttogarar. Þegar mest var stöfuðu yfir 220 manns við skipasmíðarnar. Það var í september 1961 sem hlutafélagið Stálvík var stofnaði en stofendur voru 9 og hluthafar 20 og var hlutafé 2,5 milljónir króna.

Tilgangur félagsins var að reka stálskipasmíði, skipaviðgerðir og vélsmíði samkvæmt samþykktum félagsins. Framkvæmdastjóri Stálvíkur var Jón Sveinsson, tæknifræðingur og Sigurður Sveinbjörnsson, vélsmíðameistari, var formaður stjórnarinnar.

Í janúar 1962 var vinna hafin við fyrsta áfanga skipasmíðastöðvar fyrirtækisins við Arnarnesvog, sem var 7000 fermetra strengjasteypuhús. Ári síðar, í janúar 1963, hófst smíði fyrstu bátanna. Tveir olíuafgreiðslubátar fyrir Olíufélagið Skeljung hf og var hvor um sig 27 rúmlestir að stærð.

Fyrsti skuttogarinn smíðaður í Garðabæ

Tíu árum síðar, árið 1973, var fyrsta skuttogara sem smíðaður var á Íslandi hleypt af stokkunum. Kaupandi var Rammi hf. á Siglufirði. Hann var 621 brúttótonn og var nefndur Stálvík SI-1.

Ráðherrabannið 1983 olli þáttaskilum í rekstri Stálvíkur

Í viðtali sem var tekið við Jón Sveinsson, töluvert eftir að rekstur Stálvíkur fór í þrot, segir hann að rekstur Stálvíkur hafi gengið vel fram til 1983. Þá hafi sjávarútvegsráðherra, Halldór Ásgrímsson, ákveðið að þau skip sem væru í smíðum fengju ekki leyfi til fiskveiða. Sú ákvörðun hafi verið tekin í ljósi svartrar skýrslu Hafrannsóknastofnunnar sem kom út það ár. Þegar bannið var lagt á hafi Stálvík verið með átta samninga um skipasmíði og eitt skip í smíðum. „Það vill enginn útgerðarmaður kaupa skip sem ekki má veiða fisk,“ sagðir Jón en öllum þessum samningum var rift í kjölfarið. Þarna var verið að setja kvóta á fiskveiðar, sem kunnugt er og ný smíðuð skip höfðu ekki veiðireynslu og höfðu þess vegna enga veiðireynslu og fengu engann kvóta.
Jón sagði alveg ljóst að ráðherrabannið hafi valdið þáttaskilum í rekstri fyrirtækisins. Þegar banninu var aflétt þremur og hálfu ári síðar hafi íslensku skipasmíðastöðvarnar verið komnar að fótum fram. Upp frá þessu gekk rekstur Stálvíkur brösulega og árið 1990 var fyrirtækið tekið til gjaldþrotaskipta.

Uppbygging íbúðabyggðar í Sjálandi

Tíu árum eftir að Stálvík fór í þrot, eða árið 2000 var undirrituð viljayfirlýsing milli Garðabæjar annars vegar og Björgunar efh og Byggingarfélags Gylfa og Gunnars hf hins vegar um uppbyggingu íbúðabyggðar við Arnarnesvog í Garðabæ. Var um að ræða svæðið sem skipasmíðastöðin Stálvík stóð og svæðið meðfram ströndinni í átt að Álftanesi.

Í hönnunartillögunni fyrir svæðið var einnig gert ráð fyrir uppfyllingu út í Arnarnesvog fyrir íbúðabyggðina, en skipulagshönnuður byggðarinnar var Björn Ólafs arkitekt.

Byrjað var á landfyllingu undir byggðina snemma árs 2003 og lokið við hana haustið 2005. Svæðið var fyllt upp með efni sem var að mestu leyti dælt af sjávarbotni. Þá var sjávarkanturinn mótaður með grjóti líkt og notað er í sjóvarnargarða. Lætur nærri að efnismagn í landfyllingunni sé 580 þúsund rúmmetrar. Í dag er komin mjög falleg og vel heppnuð byggð í Sjálandi með um 800 íbúðum.

Gestum á athöfninni var svo boðið upp á léttar veitingar í Jónhúsi. Það var létt yfir mannskapnum enda margir gamlir félagar að hittast þar sem sögur við Arnarnesvoginn voru rifjaðar upp.

Forsíðumynd: Fræðsluskiltið afhjúpað í Sjálandi! F.v. Sigurður R., Almar, Þuríður ásamt Þórunni og Sveinbjörgu dætrum Þuríðar og Jóns

F.v. Hulda Steinunn, Þórunn, Þuríður, Sveinbjörg, Jón Björgvin og Ronja

Apríl 1964, skipasmíðastöðin Stálvík við Arnanesvog í Garðahreppi (Garðabæ). Bómukrani hífir stýrishús (brú) á nýsmíðaðan skipsskrokk úr stáli. Hér má sjá stærsta stálskip sem smíðað hafði verið á Íslandi fram til þessa. Skipið fékk nafnið Sæhrímir og var smíðað fyrir Hraðfrystihúsið Jökul hf. í Keflavík.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar