Þegar maður les þær greinar sem birtast nú dag eftir dag og beint er að Garðbæingum skynjar maður mikinn samhljóm meðal frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ. Það er vel – enda þekkt sigurformúla að ganga saman fylktu liði, skref fyrir skref, í sömu átt.
Stefnumál frambjóðenda eru mörg og fjölbreytileg, og sum kostnaðarsöm. Ég er þar ekki undanskilinn – ég hef stórar hugmyndir um ýmislegt – en ég skil þó og veit að ekkert hefst án yfirvegaðrar ígrundunar og ábyrgrar fjármálastjórnunar.
Forsjá í fjármálum
Kapp er best með forsjá, segir máltækið – enda er það hárrétt. Það hefur verið eitt aðaleinkenni Garðabæjar í gegnum tíðina að vel hefur verið haldið utan um rekstur og fjármál bæjarins. Traustur fjárhagur er ætíð forsenda framþróunar og því verður ný bæjarstjórn að vera skynsöm og yfirveguð í ákvörðunartöku sinni í framtíðinni. Eyðum ekki um efni fram og höfum skýra framtíðarsýn í fjármálum bæjarins.
Forgangsröðun mikilvæg
Orð eru til alls fyrst og það er gott að sjá að hópur frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins hefur mikla og góða framtíðarsýn fyrir bæinn sinn. Það er þó nauðsynlegt að við forgangsröðum verkefnum eftir mikilvægi og setjum þau sem krefjast brýnustu úrlausnar efst á lista. Þau málefni sem ég tel að fyrst þurfi að sinna eru þessi:
- Stóraukin uppbygging í leikskólamálum þannig að loforð um pláss fyrir 12 mánaða börn séu uppfyllt. Í nýjum hverfum er mikilvægt að huga að og byggja innviðina fyrst svo að við séum tilbúin að mæta íbúunum og þörfum þeirra.
- Öryggi í samgöngum verði aukið – t.d. með undirgöngum eða göngubrú frá Urriðaholti, yfir Reykjanesbraut og í eldri hverfi bæjarins. Þannig tryggjum við t.d. örugga leið barna og ungmenna á helstu íþróttasvæði bæjarins. Þá þarf að auka tíðni strætisvagna í úthverfum bæjarins, s.s. í Urriðaholti og á Álftanesi.
- Bærinn ráðist í átak gegn félagslegri einangrun eldri borgara.
- Að blönduð byggð yngra og eldra fólks verði skipulögð á nýjum uppbyggingarsvæðum bæjarins.
- Menningarhús rísi í Garðabæ og Bessastaðasafn á Álftanesi. Lifandi hús styrkja menningarlíf bæjarins.
Loforðaflaumur fylgir oft kosningabaráttu en ég lofa fyrst og fremst þessu: Ég mun reyna mitt besta og mun vera sannur og trúr minni sannfæringu þegar ég tek ákvörðun fyrir hönd bæjarbúa. Ég vona að sjálfstæðisfólk treysti mér til ábyrgðarstarfa fyrir flokkinn og bæinn minn. Ég óska eftir 4.-5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ 5. mars næstkomandi.
Hrannar Bragi Eyjólfsson