Stjarnan upp í þriðja sætið í 0lís deild karla í handknattleik
Stjarnan sigraði ÍR örugglega, 33-23, í skemmtilegum leik í Olís deildinni í gærkvöldi. ÍR komu sterkir inn í byrjun leiks og var staðan jöfn fram í miðjan fyrri hálfleik. Þá tók varnarleikur og markvarsla Stjörnunnar við sér. Vörnin mætti leikmönnum ÍR framar og Adam byrjaði að verja vel. Brynjar skoraði 3 mörk á byrjunarkaflanum og hélt Stjörnunni við efnið í sóknarleiknum. Stjarnan náði undirtökunum síðari hluta seinni hálfleiks og fór með fimm marka forystu inn í hálfleik.
Í síðari hálfleik tók Stjarnan öll völd á vellinum og komst mest í 12 marka forskot. Mörkin komu eftir vel útfærðan varnarleik þar sem að markvarslan var til fyrirmyndar og áttu ÍR engin svör.
Adam Thorstensen átti mjög góðan leik í markinu og varði fimmtán skot sem gerir 47% markvörslu. Sigurður Dan Óskarsson kom einnig sterkur inn og varði sjö skot og var með 54% markvörslu.
Starri Friðriksson spilaði bara í seinni hálfleik og var markahæstur Stjörnumanna með 7 mörk.
Allir leikmenn skiluðu sínu í leiknum og fékk hver og einn að njóta sín í sínu hlutverki.
Hjá ÍR var uppalinn Stjörnumaður Gunnar Valdimar Johnsen markahæstur með átta mörk.
Patti tefldi fram fjórum leikmönnum úr 3. flokki
Athygli vekur að Patrekur Jóhannesson tefldi fram fjórum leikmönnum úr þriðja flokki þeim Adam Torsteinssen, Gunnari Hrafni Pálssyni, Benedikt Marínó Herdísarsyni og Degi Loga Sigurðssyni sem spilaði sinn fyrsta meistaraflokks leik í gær. Allir stóðu þeir sig með prýði og virkilega gaman að sjá að framtíðin er björt hvað varðar uppalda handknattleiksmenn hjá Stjörnunni.
Átta uppaldir Stjörnumenn
Auk þess ber að geta að Stjarnan teflir fram 8 uppöldum leikmönnum á þessu keppnistímabili en það eru þeir Tandri Már Konráðsson, Hjálmtýr Alfreðsson, Starri Friðriksson, Sverrir Eyjólfsson, Hrannar Eyjólfsson, Benedikt Marínó Herdísarson, Dagur Logi Sigurðsson og Pétur Árni Hauksson.
Stjarnan spilaði í gær án Tandra Konráðssonar og Ólafs Bjarka Ragnarssonar. En Tandri var nýlega valin í landslið Íslands til að taka þátt í loka verkefni landsliðsins í undakeppni EM. Ólafur Bjarki var meiddur. Patrekur ákvað að fresta ekki leikjunum á móti FH og ÍR heldur treysta liðinu i erfitt verkefni sem liðið stóðst með stæl, náði 3 stigum af 4. Stjarnan spilaði leikinn gegn ÍR með sjö uppalda Stjörnuleikmenn.
Stjarnan í þriðja sæti
Stjarnan er nú í þriðja sæti í Olís deildinni á eftir nágrönnunum í Haukum og FH, en það eru mörg ár síðan Stjarnan hefur verið jafn ofarlega í deildinni. Næsti leikur er klukkan 16:00 á sunnudaginn nk. á móti ÍBV í Vestmannaeyjum. Þá verður Tandri Már kominn úr sóttkví vegna landsliðsverkefnisins. Það er ljóst að það verður erfiður leikur þar sem ÍBV er með jafn mörg stig og Stjarnan og því mikið undir.
Eftir ÍBV á Stjarnan þrjá heimaleiki eftir:
15.5. Kl. 18:00 Stjarnan – Valur
24.5. Kl. 19:30 Stjarnan – Þór Akureyri
27.5. Kl. 19:30 Stjarnan – Fram
Efnilegir! Á myndinn eru f.v. Benedikt Marínó Herdísarson, Adam Thorsteinsen, Dagur Logi Sigurðsson og Gunnar Hrafn Pálsson