Fjórar fasteignasölur hafa fengið rúmar 40 milljónir í söluþóknun sem af er ári

1300 tilboð bárust í 126 lóðir sem auglýstar hafa verið til úthlutunar á rétt rúmu ári
Garðabæjarlistinn óskaði á dögunum eftir upplýsingum um greiðslur til fasteignasala vegna sölu á lóðum/eignum bæjarins og á fundi bæjarráðs sl. þriðjudag lagði Almar Guðmundsson, bæjarstjóri fram minnisblað sem svarar þessari fyrirspurn Garðabæjarlistans.

Þar kemur fram að á síðustu fjórum árum hafa fjórar fasteignasölur fengið greidda söluþóknun að upphæð 57.507.856 kr., af því hefur rétt rúmlega 41 milljón króna verið greidd út sem af er ári, en á tæpum tveimur árum hafa borist um 1300 tilboð í þær 126 lóðir sem auglýstar hafa verið til úthlutunar.

Fasteignasölur hafa umsjón með söluferli og móttöku tilboða

Í minnisblaðinu kemur m.a. fram að Garðabær hafi í ákveðnum tilvikum þegar fasteignir í eigu bæjarins hafa samkvæmt ákvörðun bæjarráðs verið auglýstar til sölu eða lóðir auglýstar til úthlutunar leitað til fasteignasala varðandi umsjón með söluferli og móttöku tilboða. ,,Tilvik er varðar sölu á íbúðarhúsnæði í eigu bæjarins eru örfá og verður því hér eingöngu gerð grein fyrir þeim tilvikum þegar fasteignasalar hafa komið að söluferli í tengslum við úthlutun á byggingarrétti lóða.

Á fundi bæjarráðs 13. júní 2023 voru samþykktir úthlutunarskilmálar vegna sölu á byggingarrétti lóða í 1. áfanga Hnoðraholts norður. Um var að ræða 7 einbýlishúsalóðir, 20 lóðir fyrir par/raðhús og 10 lóðir fyrir fjölbýlishús með 83 íbúðum.
Í skilmálunum kom fram að söluaðilar væri þrjár tilteknar fasteignasölur.

Á fundi bæjarráðs 4. júlí 2023 voru lögð fram 159 óopnuð umslög með tilboðum í byggingarrétt lóða á Hnoðraholti. Samtals fjöldi tilboða í fjölbýlishúsalóðir 179, samtals fjöldi tilboða í par/raðhúsalóðir 67 og samtals fjöldi tilboða í einbýlishúsalóðir 53.

Á fundi bæjarráðs 24. október 2023 voru samþykktir úthlutunarskilmálar vegna sölu á byggingarrétti lóða í 2. áfanga Hnoðraholts norður. Um var að ræða 23 einbýlishúsalóðir, 45 lóðir fyrir par/raðhús og 5 lóðir fyrir fjölbýlishús með 60 íbúðum.

Á fundi bæjarráðs 4. júlí 2023 voru lögð fram 351 óopnuð umslög með tilboðum í byggingarrétt lóða á Hnoðraholti. Samtals fjöldi tilboða í fjölbýlishúsalóðir 103, samtals fjöldi tilboða í par/raðhúsalóðir 215 og samtals fjöldi tilboða í einbýlishúsalóðir 491.
Í skilmálunum kom fram að söluaðilar væri fjórar tilteknar fasteignasölur.

Á fundi bæjarráðs 7. maí 2024 voru samþykktir úthlutunarskilmálar vegna sölu á byggingarrétti lóða í Kumlamýri og í Prýðahverfi sunnan Garðahraunsvegar (Gamli Álftanesvegur). Um var að ræða 8 lóðir fyrir parhús við Kumlamýri og 8 einbýlishúsalóðir í Prýðahverfi.
Í skilmálunum kom fram að söluaðilar væri fjórar tilteknar fasteignasölur.

Á fundi bæjaráðs 4. júní 2024 voru lögð fram 72 tilboð í einbýlishúsalóðir í Prýðahverfi og 161 tilboð í parhúsalóðir við Kumlamýri.

Á myndinni hér fyrir neðan er yfirlit um söluverð lóða í 1. og 2. áfanga Hnoðraholts norður ásamt því að tilgreina söluþóknun, fjárhæð virðisaukaskatts og söluaðila lóða.

Uppgjör vegna sölu á byggingarrétti lóða við Kumlamýri og Prýðahverfi liggur ekki fyrir.

Mundi fylgja mikið álag á starfsemi bæjarskrifstofanna ef starfsmenn væru að taka á móti öllum tilboðunum

Almar bendir á eins og kemur fram í minnisblaðinu hér á undan að fjöldi tilboða sem berst í byggingarrétt lóða sé gríðarlega mikill ,en samtals hafa borist um 1300 tilboð í þær 126 lóðir sem auglýstar hafa verið til úthlutunar. ,,Ljóst má vera að því fylgir mikið álag á starfsemi bæjarskrifstofanna ef starfsmenn þeirra væru að móttaka öll þau tilboð sem berast, annast alla kynningu og svara fyrirspurnum frá tilboðsgjöfum um ýmiss atriði varðandi viðkomandi lóðir. „

Sérfræðiþekking á fasteignamarkaði og tengsl við ýmsa verktaka sem starfa á byggingarmarkaði

Hann segir að ein megin ástæða þess að leitað er til fasteignasala til að annast sölu á byggingarrétti lóðanna er sérfræðiþekking þeirra á fasteignamarkaði og tengsl þeirra við ýmsa verktaka sem starfa á byggingarmarkaði. ,,Með því verður að telja líklegt að það fáist hærra verð fyrir byggingarrétt lóðanna sem auðvitað er markmið með því að leita tilboða í byggingarréttinn. Söluþóknun og virðisaukaskattur nemur um 1% af heildarsöluverði byggingarréttar lóðanna. Með því að leita til fasteignasala til að annast sölu á byggingarrétti lóðanna hljóta að vera líkur á því að það fáist hærra verð en sem nemur söluþóknun fasteignasala.“

Gæta þess að ekki skapist tortryggni um vinnuaðferðir bæjarins við móttöku tilboða

,,Þá má benda á það að með því að leita til fasteignasala tryggjum við að einstaka starfsmenn bæjarskrifstofanna eiga ekki samtal við tilboðgjafa um mat á verðmæti byggingarréttar á sama tíma og þeir annast móttöku á tilboðum þeirra. Með því gætum við þess að ekki skapist tortryggni um vinnuaðferðir bæjarins við móttöku tilboða,“ segir í minnisblaðinu að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar