Sjálfstæðisflokkurinn setur fjölskylduna í forgrunn, fjölskyldur eru allskonar en þær eru hornsteinn samfélagsins.
Sjálfstæðisflokkurinn vill létta undir með fjölskyldum landsins. Við viljum minnka báknið, lækka skatta og skilja meira eftir í vösum fólks. Hjálpum fólki að hjálpa sér sjálft og styðjum þau sem þurfa á stuðningi að halda.
Jöfn tækifæri allra eru forsenda framfara og velferðar. Á Íslandi eiga öll börn að njóta sömu tækifæra og þar eru skólarnir okkar í lykil hlutverki. Þjóðir sem ná árangri í menntamálum búa við fleiri tækifæri og betri lífskjör. Þess vegna boðar Sjálfstæðisflokkurinn stórsókn og umbreytingu á menntakerfinu.
Við viljum heilbrigðisþjónustu fyrir fólkið en ekki kerfið, þar sem þjónusta er veitt tímanlega og er aðgengileg öllum óháð efnahag. Sjálfstæðisflokkurinn vill aukna nýsköpun og fjölbreyttari rekstrarform sem stuðlar að betri þjónustu.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði eldri borgara og stuðla að vellíðan þeirra. Leyfum þeim að vinna sem vilja og hafa heilsu til. En tryggjum þjónustu við þá sem þurfa þjónustu, þjónustuna á að veita á forsendum einstaklingsins og á réttu þjónustustigi. Við boðum stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarheimila með breyttu fyrirkomulagi þar sem ríkið gerir leigusamninga við sérhæfða aðila um uppbygginguna.
Það getur verið krefjandi að hefja nýtt líf og stofna fjölskyldu. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að létta róðurinn hjá barnafólki með stuðningi sem skiptir máli. Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um séreignarstefnuna og ætlar að ryðja í burtu hindrunum sem standa í vegi fyrir því að einstaklingar geti eignast eigið húsnæði. Tryggjum að allir sem vilja geti fjárfest í eigin húsnæði. Það þarf að auka framboð, byggja hraðar, meira og hagkvæmar. Það gagnast jafnt þeim sem vilja eiga og leigja. Tryggjum að áfram verði hægt að nýta séreignasparnað sem innborgun á fasteignalán, lækkum vexti og verðbólgu og afnemum stimpilgjald á kaupum einstaklinga á íbúðarhúsnæði.
Fæðingartíðni hefur farið lækkandi á undanförnum árum það er áhyggju efni. Við ætlum að auka fjárhagslegan stuðning við tæknifrjóvganir og styðja fólk á vegferð sinni að foreldrar hlutverkinu. Við boðum 150 þúsund króna skattaafslátt með hverju barni undir þriggja ára og við viljum að öll börn fái leiksskólapláss frá 1 árs aldri.
Meiri árangur fyrir okkur öll
Settu X við D á kjördag
Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks