Fjölbreyttir íbúðakostir fyrir Garðbæinga

Það er erfitt fyrir ungt fólk að kaupa sína fyrstu eign. Það er líka erfitt fyrir ungar fjölskyldur að stækka við sig. Framboð á minni sérbýlum fyrir eldra fólk þarf að vera meira.

Árið 2021 hækkaði húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu um 18%, þar eru ýmsir þættir sem spila inn í. Eftirspurn er almennt mikil sem og fólksfjölgun en á síðasta ári fjölgaði landsmönnum um tæplega 7.500 manns sem er 30% umfram spár. Vaxtalækkanir, aukinn kaupmáttur og ýmis sértæk úrræði hafa einnig haft áhrif.

Lóðaskortur og ábyrgð sveitarfélaga

Það eru ýmsir þættir sem hafa áhrif á framboð húsnæðis en þar má til dæmis nefna framboð lóða og er ábyrgð sveitarfélaga þar mikil. Undanfarin ár hefur framboð nýrra lóða verið töluvert í Garðabæ og má gera ráð fyrir að sú uppbygging haldi áfram. Það er jafnframt mikilvægt að huga að því hvernig lóðum er ráðstafað með tilliti til tegunda íbúða og ekki síður atvinnuhúsnæðis. Sé horft til framtíðar stefnum við að því að byggja hátt í 3.000 íbúðir sem verða sambland af fjölbýlis-, rað- og parhúsum ásamt sérbýli og atvinnuhúsnæði og þar má til dæmis nefna Vífilsstaðaland, Hnoðraholt, Urriðaholt, Arnarland og á Álftanes.

Lækkum fasteignaskatt

Hækkandi markaðsverð á fasteignamarkaði hefur bein áhrif á fasteignamat sem hefur íþyngjandi áhrif á fasteignaeigendur, til dæmis í gegnum fasteignaskatt. Í Garðabæ höfum við lækkað álagningaprósentu fasteignaskatts á kjörtímabilinu en með hækkandi fasteignamati er brýnt að horfa til frekari lækkana á fasteignaskattinum.

Eflum félagslega innviði

Uppbyggingu og vexti sveitarfélags fylgja miklar fjárfestingar í innviðum. Það er mikilvægt í allri umræðu um innviði sveitarfélaga að félagslegir innviðir gleymist ekki, þeir eru ekki síður mikilvægir. Við höfum þegar hafið undirbúning á viðbyggingu við Urriðaholtsskóla auk nýs leikskóla. Fjölnota íþróttahúsið, Miðgarður, er komið í notkun og var gaman að mæta og sjá fyrstu æfingu ungra fótboltaiðkennda Stjörnunnar þar á laugardaginn síðastliðinn. Á árinu verður jafnframt byggður nýr búsetukjarni fyrir fatlað fólk og þá verða endurbætur við skólalóðir, íþróttavelli og opin svæði. Við höldum áfram með viðhald gatna og stíga, aukum hljóðvist og svo mætti áfram telja.

Húsnæði fyrir unga og aldna Garðbæinga

Við viljum að ungt fólk geti keypt sína fyrstu íbúð í Garðabæ, að ungar fjölskyldur geti stækkað við sig og Garðbæingar sem hafa flutt úr bænum geti komið heim. Eldri bæjarbúar geti fundið húsnæði við sitt hæfi kjósi þeir svo. Með auknu framboði t.d. á minni einingum fyrir eldri bæjarbúa losnar um annað húsnæði sem hentar ungum fjölskyldum. Við þurfum áfram að tryggja framboð á lóðum og fjölbreyttu húsnæði í Garðabæ.

Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs og býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar