Fjölbreytt sumarnámskeið hjá Klifinu

Kristjana Mist og Hildur Lára sem stýra sumarstarfinu í ár voru ánægðar með mikla eftirspurn eftir námskeiðum sumarsins en það er nú þegar orðið fullt á nokkur þeirra. ,,Við erum svo lánsamar að vera með framúrskarandi listafólk sem mun kenna á sumarnámskeiðum Klifsins,” segir Kristjana Mist og bætir við: ,,Söngkonan, lagahöfundurinn og leikkonan Silja Rós sem tók þátt í söngvakeppni sjónvarpsins ætlar að vera aftur með okkur í sumar og kenna söng fyrir 6-9 ára. Einnig mun Bára Lind sem er nýútskrifuð úr leiklistarskóla á Englandi vera með spennandi námskeið í leiklist, spuna, tjáningu og framkomu fyrir 6-12 ára.”

Fyrir börn sem elska að skapa með höndunum þá verða þrjú myndlistarnámskeið í boði. ,,Ari Arnalds listamaður mun kenna grunnatriði teikningar þar sem börnin fá tækifæri til að æfa sig í að teikna umhverfi sitt og prófa fjölbreytt efni og verkfæri til listsköpunar. Björk Viggósdóttir sem hefur kennt í Klifinu til fjölda ára verður með vinsælt námskeið þar sem sköpun fer fram með hjálp snjallforrita í spjaldtölvu, en einnig verður í boði hefðbundið myndlistarnámskeið þar krakkarnir fá tækifæri til að vinna með fjölbreyttan efnivið svo sem vatnsliti, blek , kol, krít og hluti sem þau finna í náttúrunni,” segir Hildur Lára.

Gleði og ánægja

,,Mikil gleði og ánægja hefur fylgt sumarnámskeiðunum Klifsins, enda eru börnin hvött til að nýta ímyndunaraflið út í ystu æsar,” segir Kristjana Mist sem hlakkar til sumarsins.

Frekari upplýsingar um námskeiðin er að finna á: www.klifid.is.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar