Íbúar Garðabæjar eiga von á sendingu með póstinum þann 1. september en þann dag verður borinn í hús dagskrárbæklingur sem inniheldur yfirlit yfir alla viðburði og dagskrá sem í boði eru í Hönnunarsafni Íslands, Bókasafni Garðabæjar og í Tónlistarskóla Garðabæjar í haust.
Ólöf Breiðfjörð menningarfulltrúi Garðabæjar var spurð út í þessa nýjung og hvernig haustið leggst í hana. „Alveg frá því ég hóf störf í Garðabæ hef ég haft í huga að láta hanna kynningarefni þar sem bæjarbúar geta séð á einum stað hvað er framundan í menningarstofnunum bæjarins. Í fyrra var útlitið auðvitað þannig að óvíst var hvort við gætum yfir höfuð haldið úti einhverri dagskrá enda varð úr að rafræn dagskrá var það eina sem við gátum boðið uppá fyrir jól,“ segir Ólöf og vísar til efnis sem enn er aðgengilegt á heimasíðu Garðabæjar undir liðnum Menning í Garðabæ – rafrænt efni.
Ólöf hefur greinilega fulla trú á að þær takmarkanir sem nú eru í gildi séu yfirstíganlegar og búin að leggja mikla vinnu í að bæklingurinn verði að veruleika. „Ég sigli því bara bjartsýn inn í haustið og er mjög spennt fyrir dagskránni sem í boði er og er ansi fjölbreytt,“ bætir Ólöf við.
Nýjungar og hefðbundnir viðburðir á dagskrá
Sunnudagsleiðsagnir á Hönnunarsafni Íslands í tengslum við yfirstandandi sýningu sem og fyrirlestrar í tengslum við útgáfu á bók um ævistarf Kristínar Þorkelsdóttur hönnuðar eru meðal hefðbundinna dagskrárliða á Hönnunarsafi Íslands.
Þá verður áfram hinn sívinsæli viðburður Sögur og söngur á dagskrá á Bókasafni Garðabæjar sem og leshringir, foreldraspjall og handavinnuklúbburinn Garðaprjón en handavinnukennari mun leiðbeina þátttakendum í haust.
Nýjungarnar eru að í hverjum mánuði verða í boði ókeypis hádegistónleikar með yfirskriftinni Tónlistarnæring sem og smiðjur sem styrktar eru af Barnamenningarsjóði og eru liður í verkefninu Við langeldinn / Við eldhúsborðið. „Ég veit að tónlist er nauðsynleg næring fyrir sálina og er því gífurlega ánægð með að Menningar- og safnanefnd Garðabæjar býður upp á ókeypis tónleika í samvinnu við Tónlistarskóla Garðabæjar en tónleikarnir fara allir fram í yndislega salnum sem skólinn býr yfir. Ég fékk til liðs við mig nokkra af flottustu söngvurum landsins sem ætla að koma fram. Við byrjum þann 8. september með Kolbeini Jóni Ketilssyni tenórsöngvara sem hefur í áratugi verið búsettur erlendis og mikill fengur að leyfa Garðbæingum og þeirra gestum að njóta hans fallegu raddar. Í október verða það svo hjónin Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzosópran og gítarleikarinn Francisco Javier Jáuregui sem flytja spænska dagskrá fyrir okkur og í nóvember er það enginn annar en Kristinn Sigmundsson sem kemur fram. Það er svo Hallveig Rúnarsdóttir sem syngur inn jólin þann 8. Desember en tónleikarnir hefjast allir kl. 12:15 þannig að fólk geti skotist í hádeginu til að fá andlega næringu í formi tónlistar,“ segir Ólöf mjög spennt.
Verkefnið Við langeldinn / Við eldhúsborðið hefst svo með smiðju í Hönnunarsafninu þann 5. september en það eru þau Rán Flygenring teiknari og Stefán Pálsson sagnfræðingur sem leiða peningasmiðju. „Verkefnið gerir okkur kleift að varpa ljósi á hvað er líkt og ólíkt með lífinu í dag og á landnámsöld en smiðjurnar munu allar fjalla um það og við fáum hönnuði, rithöfunda, þjóðfræðinga og teiknara til liðs við okkur til að leiðbeina í mjög spennandi smiðjum fyrir alla fjölskylduna en í hverjum mánuði verður ein smiðja í Hönnunarsafninu og ein á Bókasafni Garðabæjar,“ segir Ólöf að lokum.
Það er ljóst að haustið lofar góðu en spritt og grímur og heilbrigð skynsemi ætti að leyfa okkur að njóta þessarar frábæru dagskrár sem Ólöf Breiðfjörð heldur utanum í frábæru samstarfi við menningarstofnanir bæjarins.