Það er fátt sem sameinar okkur jafn kröftuglega og góður íþróttakappleikur eða öflugur listviðburður. Við þekkjum öll tilfinninguna þegar við hvetjum okkar lið til sigurs eða hrífumst með tónlistarflutningi. Íþróttir, tómstundir og listir efla heilsu og lífsgæði auk þess að skapa samkennd og félagsauð. Ég vil sjá enn fjölbreyttari tækifæri í Garðabæ fyrir unga fólkið okkar, þá sem eldri eru og alla sem helga sig íþróttum eða listum.
Tækifæri fyrir alla
Lýðheilsa tekur til andlegrar, líkamlegrar og félagslegrar heilsu. Við viljum tækifæri til fjölbreyttrar heilsueflingar sem byggir á samveru, hreyfingu og menningu, einnig er rými fyrir afreksmiðaðar íþróttir mikilvægt.
Stuðningur við félög
Farsælt samstarf við frjáls félög auðgar bæjarfélagið. Stjarnan, UMF Álftanes, Skátafélögin, Taflfélag Garðabæjar, hestamanna- og golffélög ásamt annarri félagsstarfsemi í íþróttum, tómstundum og menningu eru hornsteinar okkar frábæra samfélags. Slíkt samstarf skapar félagsauð, forvarnagildi og eflir mannlíf og lýðheilsu í bænum.
Forvarnir
Hluti ungmenna hættir í keppnismiðuðum íþróttum á unglingsárum og jafnvel fyrr. Þá er mikilvægt að til staðar sé framboð tómstunda sem höfðar til þeirra. Í Miðgarði skapast tækifæri fyrir margskonar heilsutengda starfsemi. Huga þarf að óskum íbúanna, þeim sem þurfa sérstaka þjónustu eða hvatningu t.d. vegna fatlana, skerðinga eða efnahags. Ekkert barn á að hverfa frá íþrótta- eða tómstundaiðkun vegna efnahags forráðamanna.
Ungmennahús og frístundabíll
Bæjarfélag á að styðja við jákvætt mannlíf ungmenna t.d. í gegnum listviðburði, íþrótta- og tómstundaiðkun. Iðkendur þurfa að komast auðveldlega á milli svæða með frístundabíl eða góðu stígakerfi. Ungmennahús væri kjörinn staður fyrir ungt fólk til að hitta vini sína, fara í pílu eða borðtennis og sinna heimavinnu.
Menningarhús
Menningarstarf skapar mannlíf, þroskar okkur og gerir tilveruna litríkari. Við höfum öflugt Hönnunarsafn og Tónlistarskóla sem tengjast starfsemi skólanna. Bæjarfélag sem styður við fjölþætt menningarstarf skapar tækifæri fyrir íbúa til upplifana og eflir fjölhæft bæjarlistafólk. Sem bæjarfulltrúi hef ég ásamt félögum mínum í meirihlutanum komið að því að setja á fót þróunarsjóð fyrir skapandi greinar og rýna möguleika á starfsemi menningarhúss í bænum. Slíkt hús gæti haldið utan um margsvíslega starfsemi, viðburði og söguna okkar í ýmsum myndum.
Félagsauður, upplifanir og mannlíf
Hönnunarsafnið, Kvennakór Garðabæjar, listsýningar Grósku, tónlistar- og menningardagskrá í Tónlistarskólanum og kirkjunni, afrakstur skapandi sumarstarfa, söngleikir og leiksýningar skólanna í bænum – allt þetta og margt fleira hef ég sótt um árabil og það hefur gefið mér gríðarlega ánægju. Í störfum mínum hef ég kynnst því hvernig framúrskarandi fyrirtæki leiða saman ólíka styrkleika t.d. þegar skapandi greinar tengjast tækninni og úr verður árangur sem skapar lífsgæði. Hið sama getur sveitarfélag gert og Garðabær ætti að vera í fremstu röð í þessu sem öðru.
Sigríður Hulda Jónsdóttir er bæjarfulltrúi, varaformaður bæjarráðs, formaður skólanefndar og gefur kost á sér í 1. sæti i prófkjöri Sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ. Áherslur hennar má sjá nánar á heimasíðunni sigridurhuldajons.is og Facebook síðunni Sigríður Hulda 1. sæti.