Fjárfest í mannauði og mannvirkjum í Garðabæ

Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2023 var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn í byrjun desember. Garðapósturinn tók Almar Guðmundsson bæjarstjóra Garðabæjar tali og spurði hann nánar út í fjárhagsáætlunina.

Þú ert væntanlega ánægður með hvernig fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2023 lítur út miðað við stöðuna í þjóðfélaginu um þessar mundir, þ.e.a.s. háa verðbólgu og stýrivexti svo fátt eitt sé nefnt? „Það er sannarlega ánægjulegt að við stefnum að jákvæðri niðurstöðu í fjárhagsáætluninni. Við gerum ráð fyrir að rekstrarafgangur A-hluta verði jákvæður um 51,5 milljónir kr. og í samstæðureikning, þ.e. A- og B-hluta gerum við ráð fyrir 589 m.kr. í rekstrarniðurstöðu,“ segir Almar og bætir við að há verðbólga og aðrar ytri aðstæður hafi óneitanlega áhrif á rekstur bæjarins. „Fjárhagsáætlunin sýnir hins vegar að staðan er góð í Garðabæ þrátt fyrir áskoranir og úrlausnarefni í rekstri og uppbyggingu bæjarins. Í áætluninni er mikil áhersla lögð á fjárfestingu í mannauði og mannvirkjum,“ segir hann.

Fjárhagslegt svigrúm til að sækja fram í Garðabæ

Gengur það upp að halda uppi góðri þjónustu við bæjarbúa um leið og álögum er haldið í lágmarki eða lækkað og rekstrarafgangi skilað? „Með fjárhagslegu svigrúmi gefst okkur tækifæri og grundvöllur til að veita Garðbæingum áfram góða þjónustu en á sama tíma að sækja fram við uppbyggingu mannvirkja og styðja við framúrskarandi mannauð sem starfar hjá bæjarfélaginu,“ segir Almar. „Þetta er krefjandi verkefni en í forsendum sem lagt var upp með í haust þegar byrjað var að vinna við fjárhagsáætlunina var stefnt að því að halda álögum á íbúa eins lágum og kostur er en jafnframt að áfram yrði unnið að stafrænum lausnum og eflingu annarrar þjónustu sem myndi einfalda líf og bæta lífsgæði íbúa.“

Í áætluninni kemur fram að það er tækifæri til að sækja fram og byggja upp frekari innviði á næstu árum, hverjar eru stærstu framkvæmdirnar á næstu árum í bænum? „Á næstu árum verður haldið áfram að byggja upp innviði í bænum okkar og ekki síst í þágu barnafjölskyldna,“ segir Almar. „Við höldum áfram að byggja upp skóla, s.s. grunn- og leikskóla í nýjum hverfum og bæta aðstöðu í eldri hverfum. Í Urriðaholti er 2. áfanga Urriðaholtsskóla að rísa, en áætlað er að sú framkvæmd verði í gangi allt næsta ár en tilbúin endanlega í lok árs 2023,“ segir Almar og heldur áfram: „Við höfum líka svarað breyttri íbúasamsetningu með því að fjölga duglega leikskólarýmum í bænum en á þessu ári var tekinn í notkun leikskólinn Urriðaból í Kauptúni. Nýr leikskóli við Holtsveg verður svo tekinn í notkun í lok árs 2023.“

Að sögn Almar þarf á næstunni einnig að huga að frekari uppbyggingu í Hnoðraholti ásamt því að í fjárhagsáætlun fyrir næstu þrjú ár m.a. gert ráð fyrir fjármagni í stækkun Garðaskóla, Sjálandsskóla og Álftanesskóla.

Fjárfest í vexti og velsæld í Garðabæ

Samkvæmt framkvæmdaráætlun Garðabæjar til ársins 2026 er verið að setja 5-6 milljarðar króna árlega í framkvæmdir. Hvað þýðir þetta hvað skuldahlutfall Garðabæjar varðar, sem er í dag það langlægsta á meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, mun það rjúka upp? „Það er rétt að skuldahlutfall í Garðabæ hefur verið lágt og er í dag langlægst á höfuðborgarsvæðinu. Skuldahlutfallið mun hækka lítillega á næstu árum vegna þeirra framkvæmda sem eru framundan en til lengri tíma mun það þói rétta sig af þegar mesti vöxturinn er afstaðinn. Hlutfallið er mjög lágt í samanburði við önnur stærri sveitarfélög og við munum hafa burði til að fjármagna framkvæmdir að töluverðu leyti úr sterkum rekstri,“ segir Almar.

Þið ætlið einnig að fara í fjárfestingu til endurbóta?

„Í áætlun fyrir næsta ár verður mikil innspýting hvað varðar endurbætur og viðhald á húsnæði og lóðum sveitarfélagsins. Framlög til endurbóta skólahúsnæðis, íþróttamannvirka og skólalóða verða sem dæmi nánast þrefölduð milli ára. Undanfarin ár hefur verið farið í miklar endurbætur en það er þörf á að bæta í og gera enn betur,“ segir Almar sem einnig nefnir endurbætur á Garðatorgi. „Þá er uppbygging nýs fráveitukerfis að fara af stað og innan fárra ára mun nútíma hreinsistöð rísa á Álftanesi.“

Sókn í þágu allra Garðbæinga

Þið eruð einnig að leggja til aukið fjármagn í félagslegt húsnæði og í þjónustu við fatlað fólk? „Á þessu ári var tekin skóflustunga að nýjum sjö íbúða búsetukjarna fyrir fatlað fólk við Brekkuás í Ásahverfi sem verður tilbúinn til notkunar síðla árs 2023. Einnig stendur til að skipuleggja búsetukjarna fyrir fatlað fólk í nýja hluta Hnoðraholts,“ segir Almar sem leggur áherslu á að málefni fatlaðs fólks sé málaflokkur sem þurfi að huga betur að, enda sé Garðabær að gera fleiri liðveislu- og NPA samninga.

Þá ætlið þið líka að auka framlög í heilsutengdar forvarnir og virkni fyrir eldri bæjarbúa? „Það er mikilvægt að huga að heilsutengdum forvörnum fyrir alla aldurshópa og ekki síst eldri bæjarbúa. Það er hópur sem fer stækkandi bæði vegna fjölgunar bæjarbúa og með lengri lífaldri. Við erum svo lánsöm hér í Garðabæ að eiga öflug félög eldri borgara og höfum hug á því að efla samstarf við þau enn frekar,“ segir Almar og bætir við að félög eldri borgara í bænum hafi staðið fyrir fjölbreyttum námskeiðum og í félagsstarfi eldri borgara sem sveitarfélagið hefur umsjón með eru fjölmörg námskeið sem snúa að heilsueflingu og annarri virkni. „Einnig stendur til að skoða hvernig við getum bætt og nýtt betur félagsaðstöðu fyrir eldri borgara. Við viljum auðvitað vinna áfram að því markmiði að vera heilsueflandi samfélag hér í Garðabæ,“ segir Almar.

Góð samstaða í bæjarstjórn

Það virðist ríkja góð samstaða á meðal allra flokka í bæjarstjórn Garðabæjar með fjárhagsáætlunina fyrir árið 2023 – væntanlega ánægjulegt? „Í haust lögðum við mikið upp úr góðu samtali og samstarfi við alla bæjarfulltrúa í bæjarstjórn óháð flokkum í vinnu við fjárhagsáætlun. Það náðist góð samstaða um meginlínur áætlunarinnar, enda var hún samþykkt samhljóða með öllum atkvæðum bæjarfulltrúa við síðari umræðu í bæjarstjórn 1. desember sl.. Gott samstarf meðal flokka skiptir miklu máli en auðvitað eru og verða alltaf átakalínur um tekjuöflun og forgansröðun verkefna,“ segir Almar sem vill einnig hrósar starfsmönnum bæjarins fyrir góða vinnu og bæjarbúum sem sendu inn margar góðar ábendingar um áherslur í rekstri Garðabæjar.

Mikilvægt að viðhalda fjárhagslegum stöðugleika

Þú tókst við sem bæjarstjóri í maí sl., hefðir þú viljað koma inn á betri tíma miðað við stöðuna í þjóðfélaginu í dag eða ertu ánægður með á hvaða vegferð bærinn er? „Það er alltaf mikil áskorun að takast á við rekstur á stóru sveitarfélagi í miklum vexti eins og Garðabær er,“ segir Almar. „Síðustu ár höfum við staðið í ströngu í glímu við heimsfaraldur og á þessu ári hafa aðrar utankomandi aðstæður eins og stríð í Evrópu og orku- og efnahagskreppa einnig haft áhrif hér á landi. En þá skiptir máli að fjárhagurinn hefur verið traustur í gegnum árin og ávallt reynum við að sníða stakk eftir vexti,“ segir Almar. „Við hagræðum t.d. í rekstri um 150 m.kr. á næsta ári, enda er mikilvægt að þjónustan sé reglulega rýnd og verkefnum forgangsraðað. Það er mikilvægt að viðhalda þeim fjárhagslega stöðugleika sem hefur verið byggður upp í Garðabæ, sýna ábyrgð í rekstri en sækja einnig fram eins og fjárhagsáætlunin gefur til kynna. Þá viljum við halda áfram að bjóða Garðbæingum góða og trausta þjónustu um leið og álögum er haldið í lágmarki,“ segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar