Fimleikarnir voru á þeim tímapunkti það eina sem ég hafði stjórn á – segir Ásta Kristinsdóttir Íþróttakona Garðabæjar sem greindist með flogaveiki árið 2023

Ásta Kristinsdóttir fimleikakona úr Stjörnunni var valin íþróttakona Garðabæjar fyrir árið 2024 á íþróttahátíð Garðabæjar, sem haldin var í Miðgarði 12. janúar sl.

Ásta Kristinsdóttir hefur verið í lykilhlutverki í meistaraflokki í Stjörnunnar sem varð bikar- og Íslandsmeistari á árinu 2024. Hún keppir þar með hæstan erfiðleika í stökkum sem sést á íslenskum mótum í öllum umferðum sem hún framkvæmir. Ásta hlaut einnig Evrópumeistaratitil með landsliði kvenna í fullorðins flokki í október 2024. Var þetta annar Evrópumeistaratitillinn hennar í fullorðins flokki.

Auk þess var Ásta valin í lið besta fimleikafólks mótsins (All Star) fyrir frammistöðu sína á dýnu. Það þýðir að hún framkvæmdi umferðir með hæstan erfiðleikastuðul og bestu framkvæmdina á öllu mótinu. Ásta keppti með þrefalt heljarstökk á íslenska keppnistímabilinu sem er mjög sjaldgæf sjón hjá konum í fimleikum, ásamt því þá keppti hún fyrst kvenna á Íslandi með framseríu sem endar á tvöföldu heljarstökki með hálfum snúningi á Evrópumótinu. Ásta vann einstaklings sigur í FACEOFF fimleikakeppninni í fjórða sinn, en hún var einnig valin Íþróttakona Garðabæjar 2022.

Verðlaunin hvatning

Jæja Ásta, til hamingju. Þetta er annað skiptið á síðustu þremur árum sem þú ert valin Íþróttakona Garðabæjar, þú ert greinilega að gera eitthvað rétt þegar kemur að hópfimleikum og ert væntanlega ánægð að fá þessa útnefningu aftur fyrir árið 2024 eins og þú varst árið 2022? ,,Það er algjör heiður að vera valin Íþróttakona Garðabæjar. Það er alltaf gaman að fá viðurkenningu fyrir það sem maður hefur lagt mikla vinnu og metnað í. Þessi verðlaun eru vissulega mikil hvatning að halda áfram og gera enn betur,“ segir Ásta.

Þurfti að hætta flugnámi

Segðu mér, hefur mikið breyst hjá þér á þessum tveimur árum, ertu orðin enn öflugri og betri hópfimleikakona en þú varst árið 2022? ,,Ég hef alla tíð verið mjög einbeitt í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur og vil gera hlutina vel,“ segir hún og heldur áfram: ,,Það sem hefur hinsvegar hvatt mig áfram og gert mig enn einbeittari að ná mínum markmiðum var að ég greindist með flogaveiki í júlí 2023 og varð ég strax staðráðin í því að láta veikindin ekki stoppa mig. Ég missti mikið þegar ég greindist með flogveikina þar sem ég neyddist til þess að hætta í flugnáminu, sem var minn draumur. Einnig þurfti ég að hætta að starfa sem flugfreyja hjá Icelandair. Fimleikarnir voru því á þeim tímapunkti það eina sem ég hafði stjórn á og urðu þeir því enn stærri hluti að mínu lífi og er mín núvitund. Ég tel mig hafa bætt mig í íþróttinni á þessum tíma og gat einbeitt mér enn frekar að þeim markmiðum sem ég hafði sett mér og varð íþróttinn svolítið mitt akkeri.“

Náði öllum sínum markmiðum

Árið 2024 var ævintýri líkast hjá þér, þú varst Íslands- og bikarmeistari með Stjörnunni, náðir í Evróputitil með landsliðinu og varst valin í úrvalslið Evrópumótsins og þá virðist þú vera orðin áskrifandi af gullverðlaunum á FaceOff fimleikakeppninni, vannst hana fjórða árið í röð – er hægt að gera betur og hvernig var upplifa þetta ár, eintóm hamingja og þú hlýtur að vera sátt með árið? ,,Óneitanlega er ég sátt með árið enda náði ég öllum mínum markmiðum. Ég var alveg viss um að við ættum möguleika á gullverðlaunum á EM frá því snemma árs 2024, enda sá ég að bæði liðsfélagar mínir og stelpur úr öðrum liðum væru mjög sterkar. Þegar það var búið að mynda landsliðhópinn vorum við allar staðráðnar í því að taka gullið og unnum við markvisst að því,“ segir Ásta en þetta var þriðja Evrópumótið mitt í röð þar sem Ásta er valin í úrvalsliðið.

Vann FaceOff fjórða árið í röð

Þetta eru mörg verðlaun á árinu, en er eitthvað sem stendur upp úr og þér þykir vænst um? ,,Evrópumeistaratitilinn skorar óneitanlega hátt enda vorum við allar búnar að vinna markvisst að því að taka gullið og því var skemmtilegt að öll vinnan sem lögð var í verkefnið skilaði sér með sigri. Maður fyllist eðlilega miklu stolti þegar maður tekur við verlaunum fyrir Íslands hönd,“ segir hún og heldur áfram: ,,Annars stendur Face off einnig upp úr þar sem keppinautar mínir þetta árið voru mjög sterkir og allar handhafar stórra titla. Við komum ekki allar úr sömu fimleikgreininni en meðal keppenda voru heims-, Evrópu- og Noruðurlandameistarar. Ég var því ekkert viss um að ég myndi taka gullið þetta árið, en var óneitanlega mjög stolt að taka gullið í ár.“

Það þarf mikið sjálfstraust og tæknilega getu til þess að framkvæma þessi stökk

Þú ert að framkvæma stökk í hæsta erfiðleikastiginu, sem almennt sést ekki á Íslandi, hvað þarf til að framkvæma svona erfið stökk og þau hljóta bæði að vera erfið líkamlega og andlega. Þarf ekki mikinn kjark til að framkvæmda svona erfið og flókin stökk þar sem ekkert má út af bregða? ,,Það þarf mikið sjálfstraust og tæknilega getu til þess að framkvæma þessi stökk. Það fer mikil vinna hjá mér utan æfingartíma til að halda mér í góðu líkamlegu formi. Eitt að því sem hefur hjálpað mér er að horfa á myndbönd af æfingum daginn eftir æfingu. Annað sem hefur hjálpað mér mikið er að setja mér lítil markmið fyrir hverja æfingu, sem eru í samræmi við uppbyggingu æfingarinnar. Ég deili þessum markmiðum annað hvort með liðsfélaga eða þjálfara, sem hjálpar mér að halda fókus út æfinguna. Ég reyni einnig að nýta hverja æfingu vel, sama hversu þreytt ég er í líkamanum því á keppnisdegi gæti ég verið þreytt og þarf að getað tekist á við það.“

Byrjaði sem draumamarkið

Þú kepptir með þrefalt heljarstökk á íslenska keppnistímabilinu, sem er mjög sjaldgæf sjón hjá konum í fimleikum, ásamt því framkvæmdir þú fyrst kvenna á Íslandi stökk með framseríu sem endar á tvöföldu heljarstökki með hálfum snúningi á Evrópumótinu. Hvernig kom það til að þú ákvaðst að taka þessi stökk, vaknaðir þú bara einn daginn og sagðir, nú ætla ég að æfa þessi stökk – þetta krefst sjálfsagt mikillar æfingar og hvernig kemur það til að maður ákveður að taka stökkin sín skrefinu lengra? ,,Það hefur alltaf verið markmið mitt að keppa með þessi stökk og í raun byrjaði bara sem draumamarkmið og eitthvað sem ég sá ekkert endilega fyrir mér að getað keppt með. Hinsvegar stóð það ekkert sérstaklega til að keppa með þessa framseríu, en ég var þó alltaf með hana bak við eyrað og eitthvað sem að mig langaði að prófa á móti. Á meðan landsliðsæfingum stóð var mér að ganga séstaklega vel í þessarri framseríu, en ég var ekki viss um að þjálfararnir myndu leyfa mér að keppa með hana. Þegar nálgaðist mótið að þá var mér að ganga mjög vel og er ég mjög þakklát þjálfurunum mínum að treysta mér fyrir æfingunni á mótinu.“

Og hvað með framhaldið – getur þú farið enn lengra er kemur að stökkum eða á hvað stefnir þú? ,,Í raun hef ég keppt með þrefalt heljar í semilendingu og er næsta markmið er að keppa með það í keppnislendingu. Ég stefni á að keppa með þessa lendingu á bikar- eða Íslandsmótinu. Hinsvegar tek ég ekki þá ákvörðun ein og heldur með þjálfaranum.“

FACEOFF er í raun X-Games útgáfan af fimleikum

Svo ertu orðin goðsögn í FaceOff fimleikakeppnina sem þú varst að vinna fjórða árið í röð, hvernig keppni er þetta og ertu alltaf að koma með eitthvað nýtt á hverju ári? ,,Margir segja að FACEOFF sé í raun X-Games útgáfan af fimleikum og ég er alveg sammála því. Það er mjög gaman hvernig keppnin hvetur mann til að ýta sér lengra og prófa nýja hluti. Það sem gerir FACEOFF sérstakt er hvernig keppendur fá að tjá sig og sýna sinn eigin persónuleika í óvenjulegu og síbreytilegu umhverfi. Áhöldin eru ekki þau sömu og í venjulegri keppni, heldur er þeim stillt upp á nýjan hátt, sem kallar á meiri sköpunargáfu og maður þarf svolítið að þora að prófa eitthvað nýtt og vera með bein í nefinu. Þetta er svolítið eins og að leika sér á nýjan máta sem gerir það að verkum að keppnin er bæði krefjandi og mjög skemmtileg. Það er einnig mikið lagt upp úr ljósasýningu og tónlist á meðan keppninni stendur sem gerir hana að mikilli sýningu fyrir áhorfendur og skapast mikil stemning meðal áhorfenda og keppenda,“ segir hún og bætir við: ,,Í ár héldu þeir keppnina í annarri höll, Jyske Bank Boxen og voru tæplega 10.000 áhorfendur sem var mjög súrealískt. Mér tókst einnig að lenda stökki sem kallast Miller, sem tvöfalt heljarstökk með þrefaldri skrúfu. Þetta var eitthvað sem ég hafði áður reynt en ekki náð að lenda svo það var ótrúlega gaman að klára það.Keppnishaldarar setja líka fyrir okkur þrautir og viss atriði sem við þurfum að uppfylla í sumum umferðum og því neyðist ég nánast til þess að koma með eitthvað nýtt á hverju ári.“

Liðsheildin skiptir miklu máli

En hvað er þetta með Stjörnuna, þið eruð búnar að vinna nokkra Íslandmeistaratitla í röð – hvað gerir ykkur að svona góða liði og sérðu fram á að einhver önnur lið geti stöðvað ykkur á næstu árum? ,,Við höfum í gegnum tíðina verið með mjög sterkt og gott lið og stundum fimleikana að mikilli ástríðu. Það sem gerir okkur að sterku liðið er ekki bara góðir liðsmenn heldur erum við líka mjög góðar vinkonur. Ég vil meina að ástæðan fyrir sigrum okkar sé liðsheildin. Ég vona að við höldum áfram á þessari braut og hef fulla trú á því. Við erum einnig margar í liðinu sem erum með mikla reynslu af landsliðsverkefnum sem bæði hefur hjálpað liðinu og sýnir hvað liðið okkar er sterkt.“

Undirbýr sig fyrir tannlækninn

Hvað gerir svo Ásta þegar hún er ekki að æfa fimleika? ,,Í haust komst ég inn í 40 manna hóp í tannlækningum eftir að hafa tekið inntökupróf í byrjun júní. Eftir haustönnina var svo skorið niður í átta manna hóp með svokölluðum klásus prófum sem ég komst ekki í gegnum. Ég var að reyna við þessi próf í fyrsta skipti og ætla að reyna við þau aftur á þessu ári,“ segir Ásta sem starfar sem aðstoðarkona tannlæknis hjá Tannlæknaþjónustunni í millitíðinni ásamt því að undirbúa sig fyrir næstu próf. ,,Með þessu og fimleikunum komast ekki fleiri áhugamál að enda mikið að gera hjá mér eins og er,“ segir hún brosandi.
Einbeita sér að vinnu, námi og fimleikunum

En á hvað stefnir svo íþróttakona Garðabæjar á fyrir árið 2025, þú ert ung að árum, áttu enn mikið inni, geturðu enn bætt þig sem fimleikakona og hvað er svo framundan hjá þér á næstu mánuðum? ,,Á næstu mánuðum er ég aðallega að einbeita mér að vinnu, námi og fimleikunum. Annars tel ég mig eiga eitthvað inni eins og að keppa með þrefalt heljar í keppnislendingu og er það helsta markmiðið mitt eins og er. Það er þó krefjandi að fara frá þeim erfiðleika sem ég er með núna, en ég reyni þó alltaf að finna mér spennandi markmið, þó svo það sé ekkert endilega eitthvað sem ég keppi með heldur til að halda mér í gangi,“ segir Ásta Kristinsdóttir íþróttakona Garðabæjar árið 2024.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar