Fersk framtíðarsýn fyrir Garðabæ!

Saga Garðabæjar er merkileg. Með hana í farteskinu skulum við horfa fram á við með framsæknum hug.

Hér er mín framtíðarsýn fyrir Garðabæ!

Byggjum innviðina fyrst

Við uppbyggingu á nýjum hverfum í bænum er mikilvægt að huga að innviðunum fyrst. Byggjum leikskóla, skóla og íþróttahús miðað við áætlaða stærð hverfa strax í upphafi. Þannig mætum við þörfum og væntingum íbúanna sem þangað flytja.

Þessi hugmynd er ekki ný af nálinni. Eftir því var t.d. tekið þegar uppbygging í Flötunum hófst árið 1960. Þá voru götur malbikaðar, gangstéttir steyptar og ljósastaurar lagðir áður en nokkurt hús var byggt.

Hugsum eins og frumherjarnir – verum framsækin!

Tengjum saman bæjarhluta – eflum öryggi í samgöngum

Tengjum saman bæjarhluta í bænum og myndum einn heildstæðan bæ. Tryggjum öryggi í samgöngum, t.d. með því að leggja undirgöng eða göngubrú yfir Reykjanesbraut frá Urriðaholti. Þannig komast börn og ungmenni í hverfinu með öruggum hætti yfir á íþróttasvæði bæjarins. Tryggjum einnig gott aðgengi allra íbúa í bænum að Miðgarði, nýja fjölnota íþróttahúsinu.

Höldum Garðbæingum í Garðabæ – skipuleggjum blandaða byggð

Skipuleggjum blandaða byggð í Garðabæ sem tryggir eðlilegan samgang yngri og eldri íbúa í bænum. Gerum ungu fólki kleift að eignast sína fyrstu fasteign í bænum en ekki síður eldri íbúum að minnka við sig.

Unga fólkið í forgang

Ungt fólk hefur áður verið sett í forgang í Garðabæ. Þannig var Bæjargilið sérstaklega skipulagt með það í huga. Skilyrði fyrir lóðaúthlutun var að umsækjandi væri undir þrítugu og auk þess var lóðaverðið mun lægra en þekktist. Kaupendur áttu meira að segja kost á að dreifa greiðslum fyrir lóðina yfir fjögur ár.

Það hefur alltaf verið eftirspurn eftir lóðum og íbúðum í Garðabæ hjá ungum Garðbæingum. Þannig er það líka í dag.

Ég sé fyrir mér að skipuleggja megi hverfi með það í huga að afmarkaður hluti þeirra sé tryggður ungu fólki til búsetu – t.d. með sögu Bæjargils í huga. Forystumenn sveitarfélagsins voru þá framsýnir og við ættum að tileinka okkur hugsanahátt þeirra.

Framtíðarsýn í menningarmálum

Reisum lifandi fjölnota menningarhús í bænum þar sem lífleg starfsemi þrífst. Ég sé fyrir mér að þar væru tónlista- og sýningasalir, bókasafn og önnur söfn bæjarins, stúdíó og smiðjur fyrir listamenn, og bókakaffi. Mikilvægast er að húsið sé lifandi og bæti mannlífið í Garðabæ.

Bessastaðasafn vil ég sjá á Álftanesi sem allt í senn gæti verið félags- og menningarmiðstöð Álftnesinga, safn forsetasetursins og móttaka ferðamanna.

Varðveitum arfinn og stofnum Minja-, Skjala- og Ljósmyndasafn Garðabæjar. Saga Garðabæjar er merkileg!

Fyrirhyggja í fjármálum

Verum minnug þess að fyrirhyggja í fjármálum og traustur fjárhagur er undirstaða framþróunar. Festa í fjármálum hefur löngum verið einkenni Garðabæjar. Þannig verður það að vera áfram.

Tökum þátt í prófkjörinu!

Senn líður að lokum þessarar kosningabaráttu. Hún hefur verið lífleg enda 17 frambjóðendur sem bjóða fram krafta sína. Það er gleðilegt að mikill samhljómur er meðal frambjóðenda og það mun nýtast flokknum í vor.

Prófkjörið er 5. mars. Fjölmennum á kjörstað og tökum þátt! Ég vona að sjálfstæðisfólk gefi mér tækifæri og traust, og sé tilbúið að gefa framtíðarsýn minni brautargengi!

Ég heiti Hrannar Bragi Eyjólfsson og býð mig fram í 4.-5. sæti.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar