Ferð til Torremolinos með Margréti fyrir 60 ára og eldri

Úrval-Útsýn býður upp á spennandi ferð 12.-26. 0któber til Torremolinos á Costa del Sol.

Farastjóri er Margrét Halldórsdóttir, sem hefur ferðast víða og oft komið til Spánar og er Andalúsía eitt af hennar uppáhalds svæðum, þannig að allir ættu að koma heim með bros á vör. Margrét hefur starfað um árabil sem hjúkrunarfræðingur og flugfreyja og eru ferðalög, félagsstörf og heilsuefling hennar aðal áhugamál.
Margrét verður með kynningu á ferðinni þriðjudaginn 4. júní kl. 15:00 í Hlíðasmára 19 í Kópavogi og það verður boðið upp á 10.000 kr bókunarafslátt fyrir þá sem bóka á staðnum.

Paradísin við Miðjarðarhafið

Costa del Sol er oft kölluð Paradísin við Miðjarðarhafið, með hvítar strendur, falleg fjallaþorp, veðursæld, góðan mat, menningu og sögu og flotta golfvelli.

Torremolinos er mjög vinsælt svæði á Costa del Sol, en aðalgatan Calle San Miguel, sem liggur í stígum og stuttri brekku upp í miðbæinn er stutt frá hótelinu þar sem ferðalangar munu gista. Á göngugötunni og í miðbænum má finna marga góða og ekki dýra veitingastaði og verslanir. ,,Við ætlum að njóta þess að dvelja í Torremolinos á góðu hóteli, með mjög góðum morgunmat og kvöldmat. Hótelgarðurinn er mjög fínn og alltaf lifandi tónlist á kvöldin á barnum. Falleg og hrein strönd er rétt við hótelið og hitastigið er notalegt á þessum tíma,” segir Margrét, en flugtímar eru þægilegir og stutt á hótelið frá Malaga flugvelli.

Ætla að njóta alls þessa besta

Margrét segir að það verði nóg um að vera í ferðinni og mikið fjör. ,,Við ætlum að eiga góðar stundir saman í Torremolinos og njóta alls þess besta sem svæðið hefur upp á að bjóða. Boðið verður upp á létta hreyfingu og teygjur í hótelgarðinum, farið á kaffihús , hamingjustund og samvera við barinn og Minigolf er rétt hjá hótelinu, svo fátt eitt sé nefnt,” segir hún og bætir við: ,,Við heimsækjum Malaga og eitt af hvítu þorpunum sem eru svo falleg. Malaga er ein elsta borg Spánar, yndisleg og heillandi stórborg og uppfull af menningu og saga hennar spannar ótrúlega langt aftur í tímann. Listmálaarinn Picasso fæddist í borginni og er nærveru hans alls staðar að finna í hverjum krók og kima og þar er Picasso safnið auk fjölda annara safna og þá er dómkirkjan mjög falleg. Malaga er falinn gimsteinn,” segir hún brosandi.

Margrét hvetur alla til að koma á kynningarfundinn 4. júní og skella sér svo með í þessa fínu ferð.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar