,,Félagsstarfið hjá FEBG er búið að vera mjög blómlegt í ár. Við erum að sjá góðan árangur af vetrarstarfinu og þá sérstaklega í öllu sem kalla má hreyfingu,” segir Laufey Jóhannsdóttir, formaður Félags eldri borgara í Garðabæ.
FEBG leggur mikla áherslu á hreyfingu og heilsueflingu í starfinu og fer félagið fyrir öllu slíku fyrir Garðabæ, en sveitarfélagið gerði saming við FEBG um að sjá um þennan þátt fyrir eldra fólk í bænum. ,,Orðsporið fer víða af okkar góða starfi og nýlega fengum við sjónvarpsþáttinn Landann í heimsókn til okkar. Gísli Einarsson og hans fólk mættu til okkar í Sjálandsskóla en þar voru glæsilegir fulltrúar í félaginu í stjólajóga hjá henni Kristínu Björgu Hallbjörnsdóttur,” segir hún og bætir við: ,,Það er svo mikil gleði og kátína í þessum tímum enda höfum við gjarnan kallað þetta gleðijóga. Þau eru búin að vera að æfa jafnvægi og styrk í þessum tímum og samhæfing hugar og handar skipta öllu máli ásamt jafnvægisæfingum.