Í lok mánaðar mega Garðbæingar eiga von á menningardagskrá haustins í Garðabæ inn um lúguna. Blaðamaður er að vonum forvitinn um hvað verður í boði fram að jólum enda Garðbæingar orðnir vanir innihaldsríkri dagskrá á Hönnunarsafni Íslands, Tónlistarskóla Garðabæjar og á Bókasafni Garðabæjar. Þá fara hátíðir fram á Garðatorgi.
Ólöf Breiðfjörð menningarfulltrúi sem heldur utanum alla þræði og segir okkur frá því helsta sem er á dagskrá. „Við höfum undanfarin ár verið að prófa okkur áfram með hvað hentar íbúum Garðabæjar best og reynum að koma til móts við sem flesta hópa samfélagsins. Þegar ég segi við þá er það auk mín, viðburðastjóri bókasafnsins sem og forstöðukona Bókasafns Garðabæjar, safnstjóri Hönnunarsafns og nýr fræðslufulltrúi safnsins, en þessi glæsilega dagskrá væri ekki gerleg nema af því við erum allar á sömu línu og vinnum vel saman,“ segir menningarfulltrúinn.
Fjölbreytt dagskrá á bókasafninu og Hönnunarsafni Íslands
Eru einhverjar nýjungar á dagskrá? ,,Bóksafnið býður uppá langa fimmtudaga allan októbermánuð en þá verður dagskrá á safninu frá kl. 19 til 21 og Seinni heimsstyrjöldin í brennidepli. Þá verður skemmtilegt að bjóða uppá foreldramorgna alla fimmtudaga í vetur þar sem skynjunarsmiðjur og svo fagleg fræðsla fyrir foreldra ungbarna verður í boði á Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi 7. Þá er það nýtt af nálinni að náttfatasögustundir verða á dagskrá fyrir 3-7 ára sem mæta þá á náttfötunum með uppáhalds tuskudýrið sitt og eiga notalega stund á Bókasafninu en slíkar kósístundir verða 17. september og 10. desember,” segir Ólöf og bætir við: ,,Hvað varðar nýjungar á Hönnunarsafninu þá tengjast þær alltaf nýjum sýningum eða aðilum í vinnustofudvöl en textílfélagið sem fagnar 50 ára afmæli á árinu verður með tvær sýningar nú í haust á Pallinum. Nokkrir þeirra sem sýna á pallinum verða með fjölskyldusmiðjur og þannig verður skemmtileg tenging milli sýninga og viðburða. Þá verður sýnt spennandi verkefni sem þjóðfræðideild Háskóla Íslands hefur unnið að en afraksturinn er sýningin Örverur á heimilum sem er svoköllum heimsóknarsýning á fastasýning- una. Í tengslum við þetta eru svo viðburðir, hægt að læra að gera súrdeigsbrauð, fyrirlestrar, smakk og spjall.”
Ungt fólk sýnir hönnun og myndlist í október
Hverju mundir þú ekki vilja missa af? ,,Rökkvan, listahátíð þar sem ungt fólk fær að koma fram og sýna hönnun og myndlist fer fram þann 12. október á göngugötunni Garðatorgi, nú í þriðja sinn. Hátíðin er allt-af breytileg því unga fólkið okkar fær að blómstra og sumir sem áður hafa tekið þátt eru flognir á vit ævintýranna en það er ein-mitt það sem gerir hátíðina skemmtilega, hún er aldrei með sama sniði.”
Katrín Jakobsdóttir með glæpakviss á bókasafninu
,,Glæpakviss sem Katrín Jakobsdóttir leiði á bókasafninu 5. september kl. 17-19 er ótrúlega spennandi viðburður og svo missi ég ekki af því að gera áramótahatta á Hönnunarsafninu og stól fyrir uppáhalds bangsann minn en slík fjölskyldusmiðja fer fram 6. október.
Í fyrra vorum við svo heppin að fá óperuviðburð frá Óperudögum og núna ætlum við að bjóða uppá Óperugala sem fer fram í lok október en þar munu koma fram flottir óperusöngvarar og gera úr Garðatorgi 7 óperuhús í smá stund. Við erum reyndar í meira samstarfi við Óperudaga en Rannveig Káradóttir söngkona sem búsett er í Þýskalandi syngur á Tónlistarnæringu í nóvember en tónleikarnir sem venjulega eru 30 mínútur að lengd verða að þessu sinni klukkutími.
Nú eru aðventutónleikar Þýska sendiráðsins orðnir að föstu samstarfsverkefni við Menningu í Garðabæ og það er alltaf yndislega hátíðleg stund þegar Vídalínskirkja fyllist af fólki sem gleðst saman á aðventunni og styrkir Slysavarnarfélagið Landsbjörgu,” segir hún.
Fólk elskar festu í líf sitt
Hvaða fastaliðir eru svo komnir til að vera? ,,Við höfum lært það að fólk elskar festu í líf sitt og þess vegna eru alltaf fjölskyldusmiðjur í Hönnunarsafninu fyrsta sunnudag í mánuði, alltaf Tónlistarnæring í Tónlistarskólanum fyrsta miðvikudag í mánuði og svo veglegir viðburðir á Bókasafninu þriðja laugardag í mánuði. Svo er það Aðventuhátíð Garðabæjar sem fer alltaf fram daginn fyrir fyrsta í aðventu sem er að þessu sinni 30. nóvember.
Auk þessarar flottu dagskrár fyrir fjölskyldur eða fullorðna er alltaf verið að taka á móti skólahópum á Bókasafni Garðabæjar, Hönnunarsafni Íslands, Minjagarðinum og Aftur til Hofsstaða og svo í Tón-listarskolanum,” segir Ólöf og bætir við að lokum: ,,Við hlökkum til að taka á móti Garðbæingum og öðrum góðum gestum á Bókasafni Garðabæjar, Hönnunarsafninu og í Tónlistarskóla Garðabæjar auk göngugötunnar á Garðatorgi sem og Garðatorgi 7.”