Eydís Shanti Foley fyrsti lestrarhestur sumarsins

Eydís Shanti Foley, 8 ára nemandi í Sjálandsskóla var dregin út í Sumarlestri Bókasafns Garðabæjar föstudaginn 11.júní sl. Hún las bókina Dog man eftir Dav Pilkey og setti umsögn í lukkukassann. Í verðlaun fékk Eydís bókina Jörðin eftir Ruth Symons en í henni er að finna alls kyns skemmtilegan fróðleik um jörðina og eldgos sem er einmitt þema Sumarlesturs í ár.

Eydís les mjög mikið, jafnvel margar bækur á viku. Hún hafði skilað inn þó nokkrum miðum í lukkukassann og átti því sannarlega skilið að vera dregin út. Henni finnst bækurnar um Dog man vera mjög skemmtilegar og fyndnar en að vísu helst til stuttar! Hún er nefnilega vön því að lesa langar bækur, jafnvel bækurnar um Harry Potter og er því mjög fljót að klára styttri bækur.

Eydís ætlar að halda áfram að vera dugleg að lesa í allt sumar, jafnvel á ferðalögum og taka þátt í Sumarlestrinum. Lestrarhestur vikunnar verður dreginn út hvern föstudag í sumar til 13.ágúst. Sumarlestri lýkur með uppskeruhátíð laugardaginn 21.ágúst klukkan 12 og þá munu allir virkir þátttakendur fá glaðning og þrír lestrarhestar verða dregnir úr umsagnarmiðum sumarsins. Lesum saman í sumar. Búum til stórt bókahraun. Lestur er minn sprengikraftur.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar