Það er alvöru nágrannaslagur í Umhyggjuhöllinni í Ásgarði á morgun, föstudaginn, er Stjarnan tekur á móti Álftanesi í Subway-deildinni í körfuknattleik kl. 19:15, en liðin hafa aldrei áður mæst í efstu deildinni í körfuknattleik.
Það má reikna með hörkuleik á milli þessara liða enda hafa þau staðið sig vel í Subway-deildinni sem af er vetri og deila 2.-8. sæti með nokkrum liðum en deildin hefur verið óvenjujöfn í vetur og því skiptir hver leikur máli. Stigin tvö eru því mikil-væg fyrir liðin, en ekki má gleyma að leikurinn snýst líka um montréttinn í Garðabæ, tímabundið það minnsta.
Garðapósturinn heyrði í Arnari Guðjónssyni þjálfara Stjörnunnar.
Það er kannski best að byrja að spyrja að því hvort þú sér sáttur með leik Stjörnunnar sem af er tímabilinu og stöðu liðsins í dag? ,,Ég myndi segja að frammistöður í öllum leikjum nema síðasta hafi verið nokkuð ásættanleg. Hattar leikurinn var talsverð vonbrigði, en það er bara áfram gakk,” segir Arnar.
Það skipta að sjálfögðu allir leikir máli í deildinni, en leikurinn á móti Álftanesi verður með öðrum undirtóni enda nágrannaslagur af bestu gerð – í fyrsta skipti sem liðin mætast í efstu deild – spenntur fyrir leiknum? ,,Þetta er áhugaverður leikur og ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem þessi lið mætast í keppnis leik í meistaraflokk í körfubotla, sama hvort um kvenna- eða karlaleik ræðir. Það verður áhugavert að sjá hvernig þessar rimmur munu þróast.”
Nýliðar með mikið fjármagn á bak við sig
Álftanes eru nýliði í Subway-deildinni og er að leika sitt fyrsta tímabili í efstu deild frá upphafi – hafa þeir komið þér á óvart með leik sínum? ,,Álftanes eru nú frekar óvenjulegur nýliðar held ég að verði að segjast, efast um að við höfum áður sé nýliða í körfunni með jafn mikið fjármagn á bak við sig. Enda ekki á hverj- um degi þar sem nýliðar eru með 5 erlenda leikmenn og hóp af A landsliðs og yngri flokka landsliðmönnum. Þannig að ég get ekki sagt að þeir komi mér á óvart, reikna með þeim sem eitt af fjórum bestu liðum landsins.”
Ekki búinn að sjá Álftanes spila
Út frá stigum og stigaskori liðanna mætti segja að þetta væri mjög áþekk lið, bæði með 10 stig og markatalan áþekk, en þetta eru tvö bestu varnarlið deildarinnar, hafa fengið á sig fæstu stiginn í deildinni, Álftanes 626 stig og og Stjarnan 659 stig. Er leikstíll þessara liða mjög svipaður og áttu von á lokuðum leik þar sem varnarleikurinn verður í fyrirrúmi? ,,Ég held að þetta verði áhugaverður leikur og skiptir máli uppá stöðubaráttuna sem er í deildinni. Núna er bara sunnudagsmorgun (innsk blm. þegar viðtalið er tekið) og ég er ekki búinn að sjá neitt með Álftanesi síðan á undirbúningstímabilinu, þannig að ég get lítið sagt um leikstílinn, en þekkjandi leikendur þá gef ég mér að bæði lið séu áræðin í vörn og ætti þetta því að vera skemmtileg barátta.”
Heldur þétt á trompunum þrátt fyrir ást sína á Garðapóstinum
Hvað er það sem mun ráða úrslitum í þessum leik – ertu með einhver tromp á hendi fyrir leikinn? ,,Það eru svo margir þættir sem geta ráðið úrslitum í kappleikjum og hver þeirra á raun sitt líf. Þannig að það kemur i raun bara í ljós eftir því sem á leikinn líður. En varðandi eitthver tromp, þá held ég að það sé vænlegast þrátt fyrir mikla ást á Garðapóstinum að halda þeim þétt að mér,” segir hann brosandi
Álftanes sterkt lið með mörg vopn
Eru einhverjir sérstakir leikmenn í Álftanesi sem þú þarft að leggja áherslu að loka á – hver er styrkleiki þeirra? ,,Álftanes er sterkt lið með mörg vopn, þannig að ég efast um að einhver einn leikmaður sé lykillinn að því að stöðva þá. En það gefur auga leið af tölfræðinni að Haukur, Dúi og svo útlendingarnir eru þeirra helstu menn, allavega á meðan Hörður er meiddur.”
En þekkir þú ekki leikaðferðir Kjartans Atla þjálfari Álftaness nokkuð vel – verður þetta ekki bara auðlesinn leikur fyrir ykkur? ,,Eins og ég kom inná hef ég lítið séð til Álftanes en sem komið er, mánudagurinn fer í að kynna sér þá. Það sem maður sá á undirbúningstímabilinu var að varnarleikurinn var nánast sá sami og íslenska landsliðið spilaði á árunum 2013-2017 með góðum árangri, enda svipaðir leikendur í liði Álftanes og voru í landsliðinu þá. Svo var sóknarleikurinn allavega á haustmánuðum nánast sá sami og Keflavík spilaði þegar Hörður Axel lék þar. En það má nú vera að einhverjar breytingar hafi orðið síðan ég sá til þeirra síðast.”
Nú er Stjarnan á leika á heimavelli, í Umhyggjuhöllinni, á þetta ekki að vera skyldusigur? ,,Við lítum á það að allir leikir í Umhyggjuhöllinni séu skyldusigrar fyrir okkur, burtséð frá mótherjum.”
Og þessi leikur snýst náttúrulega um svo mikið meira en stigin tvö sem eru í boði, montrétturinn í Garðabæ er undir? ,,Ég átta mig ekki alveg á því. Þeir sem maður þekkir út á Álftanesi eru miklir Álftnesingar allt þar til þá vantar aðstoð og þjónustu frá Garðabæ, þá breytast þeir í Garðbæinga um stundarsakir,” segir Arnar í léttum tóni.