Nú stendur yfir endurskoðun á stígakerfi Garðabæjar sem verður lögð fram sem breyting á aðalskipulagi. Stígakerfi Garðabæjar er í núgildandi aðalskipulagi flokkað í stofnstíga, tengistíga, útivistarstíga og reiðstíga. Stígar eru samgönguleiðir fyrir gangandi, hjólandi eða ríðandi vegfarendur og tengja þeir saman bæjarhluta, útivistarsvæði og sveitarfélög.
Tilgangur verkefnisins er að móta ítarlega stefnu um uppbyggingu stígakerfis og viðmið um hönnun og yfirbragð mismunandi stígagerða í Garðabæ. Lögð verður áhersla á að umhverfi og uppbygging stíga í Garðabæ styrki samgöngu- og útivistarmöguleika og verði senn aðlaðandi, öruggt, skilvirkt og vistvænt fyrir alla notendur.
Nú gefst íbúum kostur á að koma með hugmyndir eða ábendingar í allt sumar um stígakerfið í gegnum ábendingagátt á vefsíðu Garðabæjar, gardabaer.is. Allar ábendingar eru velkomnar, hvort sem það eru hugmyndir að nýjum stígum eða ábendingar um það sem betur má fara. Gáttin verður opin til 1. september næstkomandi og eru öll hvött til að kynna sér verkefnið.