Er stressið að fara með þig?

Ég las afar áhugaverða pistil eftir Ólaf Þór Ævarsson geðlækni á aðventunni á fésbókarsíðu hans.   Hann segir að svo virðist vera að streita sé að aukast og afleiðingar hennar séu sýnilegri en áður.   Við gerum þær kröfur að fólk geti unnið flókin og krefjandi störf samhliða því að sinna fjölskyldu og heimili auk þess sem mörg vilja vera hluti af lífsgæðakapphlaupinu, sem er alveg ferlega krefjandi hlaup.  Á sama tíma gerir samskiptatækni og miðlun auknar kröfur þar sem alltaf á að vera hægt að ná í fólk og óttast Ólafur að fólk fái ekki nauðsynlegan tíma til endurhleðslu.  Það þurfi nefnilega að hlaða fleira en símann.  En viðerum alltaf í sambandi við sem flesta í einu í stað þess að einbeita okkur í nánd og samtali.  Í þessu sambandi notar höfundur hugtakið fjölvirkni (multi-tasking) þegar ekki er í boði að einbeita sér að einu í einu. Sem er orkufrek hegðun.  Síðan ræðir hannþá streitu sem einkennir miðaldra fólk eins og undirritaða.  Þessi kynslóð er á hátindi starfsferils síns með mikla ábyrgð og hefur á sama tíma oft áhyggjur af unga fólkinu sínu sem kemst ekki að heiman af því að fasteignaverð er með ólíkindum og á sama tíma sér miðaldra liðið einnig um aldraða foreldra sem gjarnan býr í heimahúsum með takmarkaða þjónustu. 
 
Ólafur talar líka um unga fólkið okkar sem ég hef oft svo mikla samúð með.  Unga fólkið býr við ytri kröfur um fegurð og skjótan frama.  Þau fá stöðug skilaboð um mikla sjálfmiðun en lítil skilaboð um samkennd og samúð. Ungt fólk þarf tíma fyrir hvíld, kyrrð hugans og endurhleðslu heilans eigi taugakerfið að endurnýjast og alhliða þroski að vaxa. Læknirinn berndir á vaxandi einkenni um streitu, kvíða og depurð í þessum aldurshópi auk ýmissa líkamlegra óþæginda og einbeitingarvandamála.  Ég er sammála Ólafi Þór þarna.  Ég finn það í mínu starfi að unglingar eru undir of miklu álagi og þar hefur síminn oft neikvæð áhrif.  Ég óttast að ein algengasta setningin mín með unglingum sé þessi ,,slökkvið nú á símanum í smá stund”.  Það er með ólíkindum hvað þetta litla tæki getur stjórnað lífi fólks.  Þá vekur athygli mína að geðlæknirinn hefur áhyggjur af því að trúariðkun sé á undanhaldi í hinum vestræna heimi. Þar sé að finna mörg úrræði sem verji gegn álagi og kulnun svo sem íhugun, sjálfsskoðun og kyrringu hugans.  Eins leggi trúin áherslu á mildi í samskiptum, skilning, fyrirgefningu og umhyggju fyrir náunganum í veröld þar sem ofbeldi tekur hræðilega mikið pláss á sama tíma og falsfréttir og neikvæðir sleggjudómar á netmiðlum hafi dregið úr trausti og von.  
 
Mér þykja hugleiðingar þessa ágæta geðlæknis mikilvægar og langar að fá að deila þeim sem víðast.  Með árunum finn ég beturhvað það skiptir óendanlega miklu máli að skapa samfélag þar sem við týnumst ekki í einmannaleika, streitu, kvíða, depurð eða kulnun.  Hin kristna trú er stöðugt að minna á að allar manneskjur eru elskuverðar og dýrmætar.  Það er svo fallegt hvernig Jesús er alltaf að tala um að hann sé komin til að finna þau sem eru týnd.  Við erum nefnilega stundum svo óttalega týnd og tröllum gefin.  Þá er svo mikilvægt að eiga bjargráð til að snúa til baka og enduruppgötva hinn raunverulega tilgang lífsins. Þar leggur trúin áherslu á gildi hvíldar og endurnýjunar í öllu lífi, enda hljóðar eitt af fyrstu boðorðunum svona ,,minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.”  
 
Aðventan er tími íhugunar og ég hvet þig til að staldra við og skoða þitt eigið líf.  Ég þarf stöðugt að vera á þeirri vegferð og eitt af þeim bjargráðum sem hefur reynst mér óendanleg mikilvæg er iðkun trúarinnar og reynslan af því að vera umvafinn og borin uppi af æðri mætti.  Við í Vídalínskirkju minnum á helgihald á aðventu og jólum sem hefur þann tilgang að auka tengsl og skapa fegurð og nánd á milli fólks og beina huganum útfyrir streituna og upp til hæða.
 
Með blessunaróskum
 
Jóna Hrönn Bolladóttir sóknarprestur í Garðabæ

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar