Engin stefnubreyting hvað varðar stuðning við fjölbreytt skólastarf í Garðabæ

Á síðasta fundi bæjarstjórnar sl. fimmtudag gerði Almar Guðmundsson bæjarstjóri í Garðabæ grein fyrir samningi sem er til afgreiðslu við Hjallastefnuna um starfsemi Barnaskóla Hjallastefnunnar á Vífilsstöðum.

Ókláraður viðauki um rekstrarframlagið

Sara Dögg Svanhildardóttir, bæjarfulltrúi Viðreisnar tók til máls um samninginn og lagði fram bókun, en hún telur að öruggt rekstrarumhverfi sé grunnforsenda þess að sjálfstætt starfandi skóli dafni og vaxi. ,,Á sama tíma og það er mikilvægt að vera með undirritaðan samning við Hjallastefnuna er það afleitt að yfir honum hangi viðauki um ókláruð mál, hryggjastykkið sjálft, rekstrarframlagið. Viðreisn kallar eftir því að meirihlutinn leggi metnað sinn í að eyða slíkri óvissu hið fyrsta. Ekkert er verra en óvissa og ófyrirsjáanleiki í rekstrarumhverfi sem fyrst og fremst reiðir sig á pólitískan vilja og metnað þeirra sem fara með stjórn sveitarfélagsins sem starfað er innan.”

Ávallt sýnt í verki stuðning við sjálfstætt starfandi skóla

Almar Guðmundsson tók til máls að nýju um samninginn og lagði fram eftirfarandi bókun. „Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins árétta að í samningi þessum ásamt viðauka felst ekki nein stefnubreytingu hjá sveitarfélaginu hvað varðar stuðning við fjölbreytt skólastarf og þar með rekstur sjálfstætt starfandi skóla. Garðabær hefur ávallt, á ýmsan hátt, sýnt í verki stuðning við starfsemi sjálfstætt starfandi skóla og mun gera það áfram.“

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða samning Hjallastefnuna um starfsemi Barnaskóla Hjallastefnunnar á Vífilsstöðum og fól Almari undirritun hans.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar