Engin framtíð án fólks

Í Garðabæ hefur verið góð þjónusta við barnafjölskyldur og þar gegna framúrskarandi leikskólar lykilhlutverki. 

Ef við ætlum að bjóða upp á framúrskarandi leikskólastarf, þurfum við gott starfsfólk. Í skólum sveitarfélagsins er mikill mannauður og það er hann sem gerir leikskólana okkar jafn góða og eftirsótta og raun ber vitni. En okkur vantar fleira fólk. Vandamál leikskóla á Íslandi er fyrst og fremst mannekla og æ erfiðara er að fá starfsfólk í skólana. Það er ekki nóg að byggja húsnæði ef við höfum ekki öflugt og gott starfsfólk til að sinna börnunum. Við þurfum að gera ákveðnar kerfisbreytingar á leikskólakerfinu til þess að styrkja það og bæta. Það er engin framtíð án fólksins. 

Bætum starfsumhverfið og menntum fleira fólk

Starfsumhverfi snýst sannarlega um húsnæði, rými og búnað en það snýst ekki síður um sveigjanleika í starfi, vinnutíma og álag. Þessum þáttum verðum við að veita meiri athygli því þannig búum við til betri leikskóla fyrir alla. Þegar starfsumhverfi leikskólakennara verður meira aðlaðandi, velja fleiri að mennta sig til starfans. Einnig er mikilvægt að í boði séu styttri námsleiðir. Leikskólabrú á framhaldsskólastigi er í því samhengi mikilvægur valkostur. Þar getur ófaglært starfsfólk í leikskólum, eða aðrir sem hafa áhuga á starfinu, tekið sín fyrstu skref í námi sem síðan er metið inn í háskóla. 

Leikskólamál eru líka skipulagsmál. Gæðin sem felast í því að geta sótt leikskóla sem næst heimili barnsins eru þau að það einfaldar líf okkar, er umhverfisvænna og tengir saman börn og fjölskyldur sem búa í sama hverfinu. Það er ákjósanlegt að systkini geti verið í sama leikskóla. Leikskóli í nálægð við lítil börn er lykilatriði í sterku samfélagi. Við þurfum að huga betur að uppbyggingu leikskóla samhliða uppbyggingu nýrra hverfa. 

Í Garðabæ höfum við lagt áherslu á eftirfarandi þætti sem eru mikilvægir til að veita bæjarbúum góða þjónustu: 

• Við höfum brúað bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur með því að bjóða eins árs börnum leikskólavist og höfum verið leiðandi í því að laga aðbúnað í leikskólum að þörfum yngsta fólksins. 
• Tryggja valfrelsi fólks í skólamálum. Sjálfstætt starfandi skólar eru þar mikilvægur valkostur, bæði fyrir fjölskyldur og starfsfólk
• Innritun barna í leikskóla þarf að vera a.m.k. tvisvar sinnum á ári. Foreldrar eiga ekki að þurfa að skipuleggja barneignir út frá úthlutun leikskólaplássa að hausti. 
• Sumaropnanir skipta fjölskyldur í Garðabæ máli. Það hafa ekki allir kost á því að fara í frí frá vinnu í júlí og eins hentar það einfaldlega ekki öllum. Því er mikilvægt að bjóða upp á þetta val.
• Garðabær veitr myndarlega styrki til starfsfólks leikskóla sem eru skráðir til náms í leikskólafræðum.
• Vistun hjá dagforeldrum á að vera raunverulegur valkostur og kostnaðarþátttaka bæjarins tryggir að sama gjald er fyrir vistun hjá dagforeldrum og í leikskóla með þjónustusamningum – í nágranna sveitarfélögum er vistun hjá dagforeldrum hærri.

Framtíðarsýn

Leikskólarnir eru samfélagi okkar mikilvægir og þá þurfum við að efla og styrkja.
Í Garðabæ munum við áfram bjóða upp á leikskólavist þegar fæðingarorlofi lýkur. Skólarnir verða áfram opnir á sumrin. Fjölskyldur eiga að hafa val um leikskóla og mikilvægt að þau geti valið skóla í sínu nærumhverfi. Fjölgum sjálfstætt starfandi skólum til að fjölskyldur hafi val um ólíka valkosti. Við bætum starfsumhverfi starfsfólks leikskóla, færum það nær starfsumhverfi grunnskólakennara og hvetjum fólk til náms. Það þarf að fara í ákveðnar kerfisbreytingar í leikskólakerfinu á Íslandi og Garðabær á að leiða þá vinnu. 
Garðabær á að vera áfram í forystu í leikskólamálum.

Áslaug Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Garðabæjar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar