Kjörstjórn Garðabæjar hefur fallist á beiðni Garðabæjarlistans um endurtalningu atkvæða í sveitarstjórnarkosningunum í Garðabæ sl. laugardag, en endurtalningin mun fara fram á morgun, miðvikudag kl. 16.
Aðeins munaði 12 atkvæðum á að Harpa Þorsteinsdóttir, þriðji maður á lista Garðabæjarlistans, kæmist inn í bæjarstjórn á kostnað Guðfinns Sigurvinssonar, sjöunda manns á lista Sjálfstæðisflokksins. Þorbjörg Þorvaldsdóttir, oddviti Garðabæjarlistans, segir að flokkurinn hafi óskað eftir endurtalningu fyrst og fremst hversu litlu hafið munað, en ekki vegna vantrausts. ,,Þetta snýst eingöngu um þennan litla mun. Við höfum engar grunsemdir um að neitt vafasamt hafi átt sér stað, en okkur mun líða betur eftir endurtalningu.“
Mynd: Aðeins munaði 12 atkvæðum að Harpa Þorsteinsdóttir, sem hefur seti í bæjarstjórn undanfarin fjögur ár, fengi umboð sitt endurnýjað í kosningunum á laugardaginn. Hér er Harpa í góðum gír að grilla pylsur fyrir kjósendur fyrir kosningarnar ásamt félögum sínum í Garðabæjarlistanum, Ingvari Arnarsyni og Hannesi Geirssyni.
Niðurstaða endurtalningu ætti að liggja fyrir um kvöldmatarleytið
Endurtalningin á ekki að taka nema þrjá til fjóra klukkutíma, þar sem búið er að flokka og telja atkvæðin í bunka eftir fyrstu talningu. Ef allt gengur samkvæmt áætlun ætti niðurstaðan úr endurtalningu því að liggja fyrir um og eftir kvöldmatarleytið á morgun, miðvikudag.