Eldri borgarar lögðu drög að góðu veðri

,,Við vorum búin að leggja drög að góðu veðri og svo sannanlega rættust óskir okkar,” segir Laufey Jóhannsdóttir formaður Félags eldri borgara í Garðabæ, en glæsilegur hópur frá FEBG átti dýrðlegan dag á ferð um Vesturland á dögunum.

,,Við byrjuðum á að fræðast um Egilssögu í Skallagrímsgarði í Borgarnesi. Mýrarnar, Borgarfjarðarfjöllin og Snæfellsnesfjallgarður voru böðuð í sól og töfrum slegin,” segir Laufey aðspurð um ferðina en næsti áfanga-staður var við Rjúkanda. ,,Síðan var áfram haldið og fræddumst við um hákarlaverkun fyrr og nú í Bjarnarhöfn. Guðjón Hildibrandsson fræddi og sagði frá þessari merkilegu sögu hákarlaverkunar. Og enn vorum við böðuð í sól og Breiðafjörðurinn og Nesið töfrum slegin. Næst lá ferðin í Stykkishólm. Skoðuðum bæjartákn Stykkishólms, Stykkishólmskirkju. Nú gafst tími til að ganga um bæinn, sumir gengu upp í Súgandisey og nutu útsýnisins yfir spegilssléttan Breiðafjörðinn og yfir eyjarnar óteljandi. Í lokin var svo frábær kvöldverður í Fosshóteli Stykkishólmur. Þá var komið að heimferð og enn var landið baðað í kvöldsólinni,” segir hún og það var svo kátur og þakklátur hópur sem renndi í Garðabæ um kvöldið eftir einstaka ferð um Snæfellsnesi. ,,Við nutum leiðsagnar Súsönnu Rósar sem leiddi okkur um söguslóðir Egilssögu og sagði okkur margar frábærar sögur.”

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar