Á fundi öldungaráðs Garðabæjar í byrjun mars var fjallað um fjölgun rýma í dagdvöl Hrafnistu Ísafoldar. Lagt var fram bréf, dagsett 25. febrúar, sem sent var til heilbrigðisráðherra þar sem bókun ráðsins frá desember 2024 var ítrekuð. Í bókuninni lýsti öldungaráð vonbrigðum sínum yfir því að ekki væri búið að taka ný rými í dagdvöl Ísafoldar í notkun og hvatti ráðuneytið til að bregðast við. Öldungaráð undirstrikaði mikilvægi þessarar þjónustu fyrir eldra fólk í Garðabæ og ætlar að fylgja málinu eftir.
Dagdvöl Hrafnistu Ísafoldar hefur leyfi fyrir 4 sértæk rými fyrir einstaklinga með heilabilun og 16 almenn rými. Markmið dagdvalar er að styðja fólk til að búa sem lengst heima, viðhalda eða auka færni, rjúfa félagslega einangrun og létta undir með aðstandendum.
Samkomulag um fjölgun rýma í dagdvöl Ísafoldar var gert á sínum tíma milli heilbrigðisráðuneytisins og Hrafnistu með það að markmiði að mæta aukinni þörf fyrir þessa þjónustu. Var gert ráð fyrir að fjölga dagdvalarrýmum á Hrafnistu Ísafold úr 20 í 30 og felur fjölgun í sér að almenn rými aukast úr 16 í 22 og sérhæfð rými fyrir einstaklinga með heilabilun fara úr 4 í 8.
Þrátt fyrir samkomulagið hefur innleiðing nýrra rýma dregist, sem veldur áhyggjum meðal bæjaryfirvalda og íbúa.
Í fundagerð öldungaráðs Garðabæjar kemur fram að ráðið muni áfram fylgjast náið með framvindu málsins og beita sér fyrir því að nauðsynleg rými í dagdvöl Ísafoldar verði tekin í notkun sem fyrst, í þágu velferðar eldri borgara í sveitarfélaginu.