Eiríkur K. Þorbjörnsson

Garðar Grásteinn – kynning á frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins fyrir prófkjör sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ 5. mars nk.

Hver er ég hvaða sæti sækist ég eftir?
Ég hef búið í Garðabæ í yfir 20 ár með fjölskyldu minni og hér líður okkur vel í nálægð við náttúrufegurð og gott mannlíf.

Ég er menntaður rafvirki, hef lokið BS í rafmagnstæknifræði og er auk þess með meistaragráðu í Öryggis- og áhættustjórnun frá Leicester í Englandi.

Á starfsferli mínum hef ég m.a. unnið sem framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar og tók virkan þátt í undirbúningi og stofnun hennar. Ég starfaði við öryggisráðgjöf hjá eigin fyrirtæki á sinum tíma. Frá árinu 2005 hef ég starfað hjá Verkís verkfræðistofu, lengst af sem hópstjóri og viðskiptastjóri. Ég hef setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja, verið í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins og sit núna í endurskoðunarnefnd þess sjóðs.
Af áhuga, eldmóði og heilum hug er ég reiðubúinn að takast á við krefjandi verkefni framundan. Óska ég því eftir stuðningi ykkar í 4. eða 5. sæti á listanum í komandi prófkjöri.

Af hverju býður þú þig fram?
Garðabær er í örum vexti og íbúar eru ánægðir með að búa í bænum, það kemur skýrt fram í nýrri þjónustukönnun Gallup sem birt er á vef Garðabæjar. Því ber að fagna og slíkt gefur tilefni til að halda áfram á þeirri braut sem unnið hefur verið á undanförnum árum.

Í gegnum tíðina hef ég haft brennandi áhuga á bæjarmálum í Garðabæ og velferð bæjarbúa og tel mig hafa góða þekkingu og innsýn í marga þætti samfélagsins. Ég var í stjórn Sjálfstæðisfélagsins í Garðbæ frá 2010 og formaður 2011 til 2014. Ég hef setið í stjórn almenningsíþróttadeildar Stjörnunnar og er félagi í Rótarýklúbbnum Görðum. Á síðasta kjörtímabili var ég formaður skólanefndar Tónlistarskóla Garðabæjar og er enn.

Hverjar eru þínar helstu áherslur?
Áherslur mínar á komandi kjörtímabili eru að standa vörð um og efla velferð og vellíðan bæjarbúa, m.a. með því að standa vörð um áframhaldandi góða fjárhagsstöðu bæjarins, stuðla að auknu öryggi bæjarbúa, hafa snyrtilegt umhverfi í bænum og varðveita náttúruperlur, stuðla að fjölbreyttum valmöguleikum í húsnæðismálum, styrkja menningarlíf í bænum, auka hróður og vinna að stækkun Tónlistarskóla Garðabæjar, efla grunnþjónustu til bæjarbúa með samráði við íbúa ásamt því að leggja áherslu á stafrænar lausnir í samskiptum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar