Jólatónleikar þýska sendiráðsins eru árlegur viðburður í Vídalínskirkju til styrktar Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu en um nokkurra ára skeið hefur Menning í Garðabær verið í samstarfi við sendiráðið. Einstök stemning hefur skapast á tónleikunum og gestir verða ekki sviknir af frábærum listamönnum sem koma fram.
Tónleikarnir fara fram á morgun, föstdaginn, 13. desember og hefjast klukkan 20.00.
Þau Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Hildigunnur Einarsdóttir mezzósópran, Gissur Páll Gissurarson tenór, Kristinn Sigmundsson bassi ásamt Mótettukórnum, píanóleikaranum Helgu Bryndísi Magnúsdóttur og Jóhanni Baldvinssyni organisti munu flytja sígildar jólaperlur frá ýmsum löndum. Það eru þó ekki aðeins tónlistarmenn úr klassíska geiranum sem koma fram en Kótiletturnar flytja léttari útsetningar af jólalögum og þeir Einar Örn Magnússon söngvari og Matthías Örn Sigurðarson gítarleikari flytja lög sem hafa fylgt þjóðinni í gegnum aðventuna.
Aðgangur er ókeypis en tekið er við frjálsum framlögum sem renna óskert til Landsbjargar.
Að tónleikum loknum býður þýski sendiherrann upp á léttar veitingar.