Einstakur veitingastaður í fallegu umhverfi við sjávarsíðuna á Hliði á Áltanesi

Í gamla fiskimannaþorpinu að Hliði á Álftanesi er að finna notalegan veitingastað í einstöku umhverfi við sjávarsíðuna þar sem útsýnir er til allra átta.

Í raun er veitingastaðurinn hluti af litlu þorpi sem hefur að geyma 25 gistiherbergi, en Hlið er í eigu fjölskyldu Garðbæingsins Jóhannesar Viðars Bjarnasonar, sem á einnig Fjörukrána í Hafnarfirði.

Veitingastaðurinn að Hliði er opinn föstudaga til sunnudaga frá kl. 16 og aðra daga er opið fyrir hópabókanir fyrir 25 gesti eða fleiri, en veitingastaðurinn getur tekið allt að 80 manns í sæti og hægt er að bóka píanótónlist eða söngvara með matnum fyrir hópa.

Garðapósturinn hleraði Birnu Rut Viðarsdóttur veitingastjóra Hliðs og Fjörukrárinnar og Jóhannes Viðar til að forvitnast nánar um veitingastaðinn á Hliði sem fer einstaklega gott orð af og ekki eingöngu vegna matarins heldur einnig er umhverfið og útsýnið stórbrotið.

En hvenær og hvernig kom það til að fjölskyldan ákvað opnaði veitingastað á þessum einstaka stað að Hliði á Álftanesi? ,,Á sínum tíma ætlaði ég að kaupa Gaflaraleikhúsið sem stóð við hliðina á Hótel Víking og planið var að stækka hótelið þar, það gekk ekki upp af því það var annar sem keypti leikhúsið. Stuttu seinna stóð mér til boða að kaupa Hlið og ákvað ég að gera það svo ég gæti farið að dúlla mér í að gera eitthvað flott þar. Stelpurnar mínar tvær eru að taka hægt og rólega yfir á Fjörukránni og Hótel Víking svo mér fannst ég þurfa að finna mér eitthvað annað líka. Í byrjun átti þetta bara að vera lítið, nokkur herbergi til útleigu og lítill veitingastaður sem tók 45 manns í sæti. Þetta breyttist fljótt og er í dag 25 herbergi og veitingastaður sem tekur allt að 80 manns í sæti. Reyndar eru verið að stækka hótel Víking í dag en það er annað mál,“ segir Jóhannes Viðar.

Veitingastaðurinn hefur verið einstaklega vinsæll í gegnum árin fyrir hópa, en hann er einnig opinn fyrir gesti alla föstudaga til sunnudaga eftir kl. 16? ,,Við vildum bara byrja rólega og reka þetta samhliða Fjörukránni, við höfum tekið á móti mörgum hópum og allir mjög ánægðir. Núna langaði okkur að opna þetta aðeins fyrir almenning og erum að prófa okkur áfram með það og er opið föstudaga, laugardaga og sunnudaga frá kl 16. Planið er að halda því áfram og ef vel gengur þá kannski verður opnað fleiri daga. Það er lifandi píanó tónlist fyrir matargesti á kvöldin. Svo er opið fyrir hópabókanir alla daga vikunnar og er mikið af hópum og allskonar veislum eins og til dæmis fermingarveislur, afmælisveislur, brúðkaupsveislur, ráðstefnur og fleira. Um Jólin höfum við svo sett upp jólahlaðborð á Hliði,“ segir Birna.

Og bjóðið upp á frekar nett og gott en nokkuð óvenjulegt hlaðborð á góðu verði? ,,Planið er að hafa þetta breytilegt um helgar svo það sé ekki alltaf það sama í boði. Undanfarið höfum við verið með hlaðborð. Á hlaðborðinu hefur verið boðið uppá asískan mat, súpa og kjúklingaréttur eða svínakjötsréttur, hrísgrjón, núðlur og grænmeti, djúpsteikur kjúklingur, eldbakaðar pizzur, fiski og sjávarréttir og fleira,“ segir hún en einnig er hægt að kíkja bara við í kaffi og pönnukökur eða eplaköku. ,,Það er mjög vinsælt að taka sunnudagsbíltúrinn á Hlið.“ 

En matseðillinn verður eitthvað fjölbreyttari og stærri þegar um hópabókanir er að ræða? ,,Við erum með sérstakan hópmatseðil fyrir hópa og þar er allskonar spennandi í boði,“ segir Birna, en hægt er að skoða matseðilinn á heimasíðunni, www.hlið.is (með Ð en ekki D.).

Og það hefur verið vinsælt að koma með allskyns hópa að borða, vinir, ættingjar og heilu vinnstaðirnir að mæta? ,,Jú, við höfum ekkert auglýst Hlið fyrr en núna af því verið um að opna um helgar, þetta hefur auglýst sig nánast sjálft bara með því að fólk lætur orðið ganga. Ég held ég geti sagt það að enginn hefur farið óánægður út frá Hliði. Fólk er alltaf svo ánægð með útsýnið, en það er sjávarútsýni út um alla glugga og náttúran stórkosleg allt um kring og svo matinn að sjálfsögðu. Við höfum líka lagt mikið upp úr að hafa góða og persónulega þjónustu. Vinur minn hann Ólafur Ágúst Þorgeirsson sér um að reka þetta með mér núna og er hann reynslubolti og hann leikur við hvern sinn fingur, það er enginn sem kemst með tærnar þar sem hann hefur hælana sem framreiðslumaður,“ segir Jóhannes Viðar. 

En það er ekki bara maturinn sem hefur heillað heldur er umhverfið að Hliði og útsýnið einstakt eins og þið hafið minnst á? ,,Já, þetta er eins og að vera komin upp í sveit sem er frábært af því þú ert enga stund í bæinn aftur.“ 

Og þú hvetur alla til að gera sér á ferð að Hliði að Álftanesi?  ,,Já, það er þess virði að gera sér ferð á nesið okkar fagra og kíkja á Hlið. Þú beygir á fyrsta hringtorginu til vinstri, ef þú ferð til hægri ferðu á Bessastaði en til vinstri liggur leiðin út á Hlið. Þú heldur beint áfram þar þangað til þú sérð golfvöllinn en þar beygiru aftur til vinstri og keyrir beint þangað til vegurinn er á enda og þá ertu kominn í þorpið okkar, Fiskimannaþorpið eins og við köllum það,“ segir Jóhannes brosandi.

Hliðá Álftanesi

Þess má geta að Hlið var friðlýst sem fólkvangur árið 2002 og árið 2022 var undirrituð auglýsing  um stækkun friðlýsingar fólkvangsins Hliðs á Álftanesi og bauð Jóhannes Viðar öllum viðstöddum til pönnukökuveislu að undirritun lokinni á veitingastaðnum að Hliði.

Markmið friðlýsingarinnar er að tryggja landsvæði til útivistar og almenningsnota. Fjaran og aðliggjandi sjávarsvæði eru sérstaklega áhugaverð til náttúruskoðunar svo sem fugla- og fjöruskoðunar, en meðal tegunda sem finnast innan fólkvangsins eru margæs, æðarfugl, rauðbrystingur, sendlingur og tildra. Aðgengi að svæðinu er gott og því er það sérstaklega ákjósanlegt til útikennslu. Með stækkuninni er landsvæði þar sem áður var gert ráð fyrir byggingarlóðum orðið hluti fólkvangsins.

Uppbygging á Hliði

Í bæjarhúsunum á Hliði hefur verið uppbygging ferðaþjónusta frá aldamótum og þar hafa m.a. verið byggð hús í torfbæjarstíl. Húsin þar eru þó utan fólkvangs en í tengslum við uppbyggingaráform á staðnum var ráðist í fornleifarannsókn í námunda við bæjarhúsin og skv. aðalskipulagi og deiliskipulagi er gert ráð fyrir ferðaþjónustu á staðnum. 

Á Hliði hafa verið miklar landbreytingar í gegnum tíðina af völdum sjávargangs, áður var heilmikill tangi sunnan við Hlið sem sést enn móta fyrir á fjöru. Þar eru miklar minjar um sjósókn þar sem m.a. mótar fyrir vörum í fjörugrjótinu.


 

    Nýjustu greinarnar

    Tengdar greinar