Einstaklega vel heppnuð ferð FEBG til Prag

Eitt af þeim skemmtilegu verkefnum sem Félag Eldri Borgara í Garðabæ er með á sínum snærum er að skipu- leggja skemmtilegar ferðir sem vekja áhuga og auðga félagsanda félaganna. Um er að ræða bæði ferðir innanlands og erlendis.

Ein slík ferð var skipulögð nú í byrjun maí og í þetta sinn var áfangastaðurinn Prag. Ferðin var skipulögð og var á vegum ferðaskrifstofunnar Betri Ferða og fararstjórinn var Lilja Hilmarsdóttir en hún hefur farið með og skipulagt margar ferðir á vegum FEBG.

Það var fjallhress og kátur 45 manna hópur sem ferðaðist saman að þessu sinni til Prag. ,,Prag er einstaklega glæsileg borg! Borg menningar, mennta og lista! Með allar sínar byggingar frá miðöldum óskemmdar, sem kemur til að því að Þjóðverjar hernámu Tékkland í upphafi stríðs og landið slapp við loftárásir. Frelsissaga Tékka er svo mögnuð,” segir Laufey Jóhannsdóttir einn félagi í FEBG, en hópurinn gisti á góðu hóteli sem er mjög vel staðsett í miðri Prag fjórar nætur.

,,Við skoðuðum það markverðasta eins og Vysehrad hæðina þar sem er kapella heilags Martins, elsta bygging borgarinnar. Wenceslas torgið þar sem helstu atburðir sögunnar áttu sér stað. Við gengum um kastalahverfið fræga sem er með stærsta kastala í heimi, litum á gullnu götuna, virtum fyrir okkur St. Vitus kirkjuna, sem er eitt helsta kennileiti Prag, gengum yfir Karlsbrúna og virtum fyrir okkur sögulegar minjar sem og fjölbreytt mannlíf borgarinnar. Eitt kvöldið var farið í skemmtisiglingu á Moldá og þar var fram borinn ljúffengur kvöldverður og flutt lifandi tónlist á sigingunni,” segir Laufey.

Þá fór hópurinn í gönguferð þar sem byrjað var í Gyðingahverfinu í gamla bænum þar sem má finna einstakar byggingar frá 14 og 15 öld. ,,Þröngar götur einkenna bæjarhlutann. Hápunkturinn var svo gamla torgið „Staromák“ sem er elsta og merkasta torg Prag, er að margra mati eitt fallegasta torgið í Evrópu. Það var ekki aðeins vettvangur fjölmargra dramatískra sögulegra atburða, heldur er það ótrúlega fallegt og heillandi. Gamla bæjartorgið er enn í dag þar sem hjarta Prag slær.”

60 þúsund beinagrindur

Seinasta daginn var skipulögð dagsferð um sveitir Tékklands í austurátt frá höfuðborginni, m.a. til eins vinsælasta ferðamannastaðar Tékklands, bæjarins Kutna Hora, sem er á heimsminjaskrá UNESCO. ,,Bærinn er þekktur frá fornu fari vegna hinna geysimiklu silfurnáma sem voru mikil auðæfi áður fyrr. Þar er líka Barbörukirkjan en heilög Barbara er verndari námumanna. Við skoðuðum Beinakapelluna í Kutná Hora, en talið er að yfir 60.000 beinagrindur séu í kirkjunni a.m.k. Komum við í Ricany, sem nýverið var valinn vinsælasti staðurinn til að búa á í Tékklandi,” segir Laufey en það var svo sæll og glaður hópur ferðafélaga sem lenti á Keflavíkurflugvelli seint á föstudagskvöldi að aflokinni ánægjulegri og fróðlegri ferð til Prag.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar