Ég vil sjá öfluga þjónusta við alla íbúa

Uppstillingarnefnd Garðabæjarlistans valdi í síðustu viku Þorbjörgu Þorvaldsdóttur sem oddvita listans í sveitarstjórnarkosningum í vor. Þorbjörg er fráfarandi formaður Samtakanna ‘78, málfræðingur og grunn-skólakennari og Garðapósturinn heyrði í henni hljóðið, nú þegar rétt rúmir tveir mánuðir eru í sveitar-stjórnarkosningarnar.

Það er kannski eðlilegt að byrja að spyrja þig að því hver Þorbjörg Þorvaldsdóttir er? ,,Ég er 32 ára Garðbæingur, eiginkona Silju Ýrar S. Leifsdóttur og mamma Valbjargar Maríu 6 ára og Steinunnar Þórkötlu 2 ára. Ég vinn í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði og kenni þar íslensku, dönsku og spænsku í unglingadeild. Ég er málfræðingur, með BA í almennum málvísindum frá HÍ og MA í málvísindum frá Leiden University í Hollandi. Svo er ég líka íslenskukennari og hef nýverið lokið viðbótardiplómu til kennsluréttinda frá HÍ. Á öðrum tímabilum lífs míns hef ég verið doktorsnemi, flugfreyja, starfað við aðhlynningu, verið barþjónn og unnið í gestamóttöku á hóteli,” segir hún brosandi.

Stóð á tímamótum um áramótin

Þú ert alls ekki ókunn Garðabæjarlistanum því þú varst í 7. sæti á listanum í sveitarstjórnarkosningunum fyrir fjórum árum, en ert nú orðin oddviti flokksins. Ertu búin að stefna að þessu lengi eða hvað varð til þess að þú ákvaðst að taka við oddvitasætinu? ,,Ég stóð á tímamótum um áramótin. Ég hafði ákveðið að hætta sem formaður Samtakanna ‘78 og sá fram á tækifæri og svigrúm til þess að láta meira til mín taka í bæjarmálunum. Ég hef alltaf haft áhuga á því að taka þátt í pólitík af fullum krafti og ég held einfaldlega að ég hafi eiginleika sem geta komið að gagni, bæði fyrir Garðabæjarlistann og fyrir Garðabæ. Þess vegna sóttist ég eftir oddvitasætinu,” segir Þorbjörg.

Þorbjörg fyrir utan heimilið sitt í Hrísmóum, en hún segir gott að búa í Garðabæ ,,Ég hef búið víða þótt ég sé uppalin hér í bænum, þannig að það segir kannski ýmislegt að ég skuli hafa valið að koma hingað aftur til þess að ala upp börnin mín.”

Sveitarstjórnarmál eru skemmtileg

Hvenær vaknaði áhugi þinn á sveitarstjórnarmálum? ,,Ég er ekki viss. Ég hef alltaf haft áhuga á samfélaginu og viljað gera það betra. Ég kynntist sveitarstjórnarmálum fyrst af alvöru þegar ég tók sæti á Garðabæjarlistanum fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, en þessi áhugi hefur svo viðhaldist og aukist í störf-um mínum í menningar- og safnanefnd Garðabæjar undanfarin fjögur ár og sem varabæjarfulltrúi. Sveitarstjórnarmál eru skemmtileg því þau eru svo áþreifanleg. Það er magnað að fylgjast með verkefnum frá hug-myndastigi og þar til þau verða að veruleika og finna svo sjálfur fyrir því sem íbúi hvernig lífsgæðin batna í kjölfarið.”

Innviðauppbygging þarf að fylgja íbúaþróun

En hvaða málefni verða svo heitust fyrir komandi kosningar? ,,Ég held að Garðbæingar muni kalla af miklum krafti eftir því að innviðauppbygging verði látin fylgja íbúaþróun, svo við lendum ekki í sömu vandræðum og hafa komið upp undir stjórn Sjálfstæðisflokksins t.a.m. í Urriðaholti. Mér finnst stundum hálf fyndið að meirihlutinn hafi ekki búist við því að hverfið myndi fyllast af ungu barnafólki, svona í ljósi þess að áþreifanlegur skortur hafði verið á húsnæði fyrir mína kynslóð Garðbæinga fram að því. Þessi sömu mistök mega ekki endurtaka sig á öðrum svæðum þar sem uppbygging er fyrirhuguð, t.d. á Álftanesi og í Hnoðraholti.”

Það á ekki að velta á hvað foreldrar manns eigi mikinn pening hvort maður geti búið í okkar frábæra sveitarfélagi

Einhver málefni sem þú brennur meira fyrir en önnur? ,,Öflug þjónusta við alla íbúa er það sem ég vil sjá, og þar er helst þörf á úrbótum í málefnum fatlaðs fólks og í leikskólamálunum. Ég er síðan almennt mikill aðdáandi fjölbreytni, bæði í húsnæðisuppbyggingu og í samgöngumálum og mun setja hvort tveggja á oddinn. Við eigum ekki öll að þurfa að eiga tvo bíla til að komast leiðar okkar með einföldum og öruggum hætti í Garðabæ. Það vantar líka fleiri leiguíbúðir og búseturéttaríbúðir í bæinn, þá sérstaklega svo ungt fólk geti búið hérna. Ég held að við konan mín höfum keypt síðustu þriggja herbergja íbúðina sem seldist undir 40 milljónum hérna í bænum árið 2018 og við fengum til þess aðstoð foreldra. Það á ekki að velta á því hvað foreldrar manns eiga mikinn pening hvort maður geti búið í okkar frábæra sveit-arfélagi, en til þess verða búsetukostirnir líka að vera fjölbreyttir. Það er ábyrg húsnæðisstefna.”

Það er gott að búa í Garðabæ

Þú ert uppalin í Garðabæ, er gott að búa í bænum? ,,Heldur betur. Ég hef búið víða þótt ég sé uppalin hér í bænum, þannig að það segir kannski ýmislegt að ég skuli hafa valið að koma hingað aftur til þess að ala upp börnin mín. Ég hef búið á nokkrum stöðum í Garðabæ: í Kjarrmóum, Ásbrekku á Álftanesi, í Holtsbúð og í Þrastarlundi sem barn og unglingur, en bý nú í Hrísmóum. Ég er því beint fyrir aftan Garðatorg þar sem ég get sótt alla þjónustu og stutt frá helstu almenningssamgöngum. Foreldrar mínir og amma mín búa svo í tveggja mínútna göngu-fjarlægð frá mér og ég á vini hér í næstu götum sem ég get hoppað til í kaffi. Það er yndislegt og það eru svo ótrúleg lífsgæði að hafa svona þétt net og samfélag í kringum sig.”

Illa haldin af félagsmálabakteríu

Og svona fyrir utan vinnutímann, einhver áhugamál? ,,Nóg af þeim! Ég hef mikinn áhuga á mannréttindum og hef undanfarin fjögur ár setið í stjórn Samtakanna ‘78, síðustu þrjú árin sem formaður. Ég er illa haldin af félagsmálabakteríu og þarf að beita mig hörðu svo ég sé ekki allt í einu komin í stjórnir of margra félaga í einu. Það er held ég vegna þess að mér finnst gaman að hafa áhrif og hef skoðanir á mörgu. Ég hef áhuga á bókmenntum, poppmenningu og alþjóðastjórnmálum, en síðan hef ég mjög gaman af sjósundi og er orðin mikil kælidrottning, svona að eigin mati, eftir að hafa byrjað á því í haust.”

Ætlum okkar stóra hluti í vor

Nú verður listinn ykkar kynntur 13. mars nk. Verður væntanlega öflugur listi. Er stefnan á að gera betur en fyrir fjórum árum þegar þið fenguð þrjá menn kjörna í bæjarstjórn? ,,Við ætlum okkur stóra hluti í vor og að sjálfsögðu er stefnan að gera betur en síðast. Það þarf að vera öflugt mótvægi við Sjálf-stæðisflokkinn í Garðabæ, einfaldlega því það er eitthvað bogið við lýðræðissamfélag þar sem einn flokkur ræður alltaf öllu. Það býr til samfélag þar sem fólk sem hefur hagsmuna að gæta þorir ekki að gagnrýna bæjaryfirvöld, jafnvel þótt sú gagnrýni sé réttmæt. Garðabæjarlistinn er þetta heilbrigða og lýðræðislega mót-vægi,” segir Þorbjörg, nýr oddviti Garðabæjarlistans, að lokum.

Forsíðumynd: Fjölskyldan! Þorbjörg ásamt eiginkonu sinni, Silju Ýr S. Leifsdóttur og dætrum sínum Valbjörgu Maríu 6 ára og Steinunni Þórkötlu 2 ára

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar