Ég vil öflugra mannlíf í Garðabæ

Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi, varaformaður bæjarráðs og formaður skólanefndar Garðabæjar, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri sem haldið verður þann 5. mars nk. Sigríður Hulda hefur verið bæjarfulltrúi frá árinu 2014, en hefur auk þess mikla og víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og hefur frá árinu 2013 rekið sitt eigið fyrirtæki, SHJ ráðgjöf, sem sérhæfir sig í fræðslu fyrir fyrirtæki og vinnustaði, stjórnendaráðgjöf og stefnumótunarvinnu.

Hef komið að fjölda verkefna í bæjarmálunum

En það er ekki úr vegi að byrja að spyrja hana að því hvaðan áhugi hennar á sveitarstjórnarmálum komi? ,,Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á að láta gott af mér leiða, vinna með fólki, tengja við málefni og skapa saman framtíðarsýn og betra samfélag. Ég er fædd og alin upp á sveitabæ í Þingeyjarsveit þar sem allir lögðust á árarnar hvort sem var í vinnu eða félagslífi. ,,Ef þú vilt að eitthvað gerist, gerðu þá eitthvað í því!“ er kannski sú lífsspeki sem ég tek úr bernskunni. Virkni í félagsmálum hefur alltaf einkennt mig, sveitastjórnarmál er þjónustu-, stefnumótunar- og rekstrarstarf með það leiðarljós að efla lífsgæði íbúa. Ég er mjög þakkát fyrir það traust sem ég hef fengið. Síðastliðin átta ár hef ég verið bæjarfulltrúi, varaformaður bæjaráðs, formaður skólanefndar, varamaður í stjórn Stætó bs. og Sorpu bs. Veturinn 2015-2016 var ég forseti bæjarstjórnar. Á þessum árum hef ég komið að fjölda verkefna í bæjarmálunum, bæði með formlegum og óformlegum hætti s.s. stýrt nefnd um val á aðkomutákni bæjarins, starfað í nefndum og vinnuhópum um menningarhús í bænum, heilsueflandi bæjarfélag, endurskoðun ýmissa stefna sem snerta ungmenni, skólamál, lýðræðismál og forvarnir, lagt fram tillögur í bæjarstjórn, komið að verkefninu ,,Betri Garðabær“ og fylgt eftir málum á ýmsum sviðum. Ég var áður formaður Sjálfstæðisfélagsins í Garðabæ um árabil. Þar starfaði ég með skemmtilegu og öflugu fólki og við gerðum ótal margt mikilvægt, en hlutverk félagsins er m.a. að skapa tengsl milli kjörinna fulltrúa og bæjarbúa. Á þessum árum átti félagið stórafmæli og við fórum í gegnum nokkrar vel heppnaðar kosningar. Félagið stóð fyrir og skipulagði hvatningarnámskeið fyrir allar konur í Garðabæ, kom á páskaeggjaleitinni fyrir börnin og við gáfum nokkrum sinnum út veglegar útgáfur af málgagni okkar, Görðum. Ég hef tekið virkan þátt í mörgum kosningum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það var svo árið 2014 sem ég tók sæti sem bæjarfulltrúi í Garðabæ. Þá hafði ég verið formaður skólanefndar Tónlistarskólans í Garðabæ kjörtímabilið áður.“

Við þurfum að gæta að sjálfsmynd unglinganna

Þú útskrifast með BA gráðu í uppeldis- og menntunarfræði auk kennsluréttinda frá Háskóla Íslands árið 1989, þá 24 ára gömul, og byrjar það sama ár sem náms- og starfsráðgjafi við Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Hvernig kom það til? ,,Ég vildi vinna með ungu fólki, styðja það og styrkja til góðra verka. Framhaldsskólaárin eru oft mikil mótunarár og þá getur það skipt sköpum að hafa einhvern í skólanum sem virkilega hefur trú á þér, veitir þér jákvæða athygli og hvetur til góðra verka. Ég vildi líka hafa áhrif á skólakerfið t.d. með auknum tækifærum út frá ólíkri stöðu nemenda, en við stofnuðum í FG á þessum árum þriggja ára námsbraut fyrir þá sem vildu fara hraðar í gegnum námið sem var almennt ekki möguleiki þá. Einnig settum við á fót sérstaka þjónustu fyrir nemendur með lestrarerfiðleika, þá sem þurftu sértækan stuðning, sérdeild og fjölbreytileg úrræði. Ég var með hópráðgjöf fyrir nemendur og innleiddi ýmsar nýjungar sem studdu við hagsmuni þeirra. Skóli á að endurspegla mannlífið í sinni fjölbreyttustu mynd og þjónusta nemandann þar sem hann er staddur. Þetta voru afskaplega lærdómsrík og skemmtileg ár, ég kynntist bæjarfélaginu Garðabæ og innviðum samfélagins vel. Ég var á þessum árum einnig fengin í stefnumótunarverkefni á vegum menntamálaráðuneytis, hélt utan um forvarnastefnu og -starf fyrir alla framhaldsskóla landsins og átti sæti í ýmsum stjórnum sem varða hagsmuni ungmenna. Dýrmætast í starfinu var þegar mér tókst að snerta þannig við viðhorfum nemanda að viðkomandi sá tilgang í náminu eða jafnvel með eigin lífi. Það er ómetanlegt að fá að vera vitni að því þegar ungmenni fer í gegnum áhugaleysi, vonleysi, sorg, veikindi eða aðra erfiðleika og missir þá tímabundið tiltrú á náminu eða eigin verðleikum – en stígur síðan inn í styrk sinn, fær aftur trú á eigin getu, finnur áhugann og eigin stefnu. Við þurfum að gæta að sjálfsmynd unglinganna, skapa tækifæri til að allir geti sýnt hvað í þeim býr með heilbrigðum og viðurkenndum hætti.“

Öflugt mannlíf skapar tengingar, öryggi og gleði

Og þá var ekki aftur snúið eða hvað, þú varst kominn með báðar fætur í Garðabæ og hefur sjálfsagt ávallt kunnið vel við þig í bænum? ,,Mér hefur alltaf fundist heillandi þetta nærsamfélag sem Garðabær er, mannauðurinn og nálægðin við náttúruna. Vissulega hefur bærinn stækkað frá því við Þorsteinn, eiginmaður minn og fyrrverandi skólameistari FG, fluttum hingað og byggðum okkur hús í Ásahverfinu um síðustu aldamót. Við  eigum að mínu mati að halda í og styðja við nærsamfélagið með skipulagi og bæjarbrag. Öflugt mannlíf skapar tengingar milli fólks og þar með öryggi, gleði og samkennd. Við eigum að hlúa að jákvæðri upplifun og heilbrigði með því að skapa bæjarfélag þar sem slíkt þrífst vel. Það er svo gefandi að hitta fólk sem maður þekkir þegar maður skreppur út í búð, í kaffinu á 17. júní o.s.frv. Komandi úr sveitarsamfélaginu með viðkomu í Reykjavík í áratug fannst mér eins og ég væri komin ,,heim“ að finna mig í fámennara samfélagi sem hafði þessi einkenni nærsamfélags. Þetta eigum við að halda í því þetta er dýrmætur félagsauður í bænum og á að vera einkenni bæjarins áfram.“

,,Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á að láta gott af mér leiða, vinna með fólki, tengja við málefni og skapa saman framtíðarsýn og betra samfélag,” segir Sigríður Hulda

Garðabær er á spennandi stað

Eins og áður segir þá varst þú bæjarfulltrúi árið 2014 og skipaðir svo annað sæti á lista flokksins í kosningunum árið 2018, nú sækist þú eftir að leiða lista flokksins fyrir komandi kosningar, ástæðan? ,,Ég gef kost á mér í þetta verkefni af einlægni og brennandi áhuga á að gera Garðabæ að enn betri bæ fyrir íbúa. Það eru svo mörg tækifæri, Garðabær er á mjög spennandi stað sem stækkandi samfélag í góðum rekstri og ég vil sjá bæinn þróast sem blómlegan mannlífsbæ með nútímalegum áherslum, skemmtilegum þjónustu- og mannlífsmiðjum, fjölbreyttum tómstundum og aðgengi að náttúru.  Það er margt sem mig langar að vinna áfram með öflugum einstaklingum og bæjarbúum. Ég er tilbúin að helga mig þessu verkefni og álít að ég geti orðið að liði fyrir íbúa Garðabæjar. Ég tel í fyrsta lagi að menntun mín, sem er MA gráða í náms- og starfsráðgjöf (með áherslu á starfsþróun) og MBA í viðskiptum og stjórnun nýtist vel, í öðru lagi fjölþætt reynsla mín úr atvinnulífinu, en ég hef starfað fyrir margskonar fyrirtæki, öll skólastig, verið stjórnandi og með stjórnenda- og stefnumótunarráðgjöf um árabil, rekið eigið fyrirtæki sl. níu ár, setið í stjórnun, unnið við sáttamiðlun, siðanefndir og frumkvöðlastarfsemi. Síðast en ekki síst er það í þriðja lagi lífsreynslan sem kennir okkur kannski mest og mótar. Það má segja að persónulegir styrkleikar mínir felist t.d. í yfirsýn, greiningarhæfni og samskiptafærni, en lífið hefur kennt mér þrautseigju, yfirvegun og að finna alltaf leiðir til að leysa málin með þeim einstaklingum sem að því koma hverju sinni. Ég lifi líka samkvæmt því mottói að taka ákvarðanir út frá hugrekki og stíga alltaf fram til vaxtar bæði fyrir mig og þá sem ég tengist eða vinn fyrir. Svo já, nú er rétti tíminn, ég mæti þessu af ákveðnu æðruleysi og við sjáum hvert þetta leiðir mig, valið er hjá bæjarbúum.“

Framsækni, mannlíf, náttúra, snjalltækni og ráðdeild í rekstri

Skólamálin hafa verið þér hugleikin í gegnum tíðina, en hvað annað er það sem þú brennur fyrir þegar kemur að málefnum bæjarins? „Ég vil nýja nálgun sem eflir mannlífið í bænum. Að efla mannlíf tengist öllum þáttum bæjarlífsins, forgangsröðun og rekstri. Þetta er raunhæft undir áframhaldandi ábyrgri fjármálastjórn með lágum álögum á íbúa og fyrirtæki. Ráðdeild í rekstri er klárlega grunnur að möguleikum, það þekki ég úr rekstri á eigin fyrirtæki. En það er síðan alltaf mannlífið sem skapar töfrana og vellíðan í bæjarfélagi og það vil ég efla með ýmsum áherslum“ segir Sigríður Hulda.
Ég vil aukið íbúalýðræði, virkja samtalið og samráð við íbúa og hagsmunahópa, rafræna samráðsgátt og aukið gegnsæi í stjórnsýslu. Nútíma stjórnun byggir á þessu. Við þurfum reglulegt samráð við bæjarbúa og hagsmunahópa, s.s. ungmenni, fjölskyldufólk, eldri borgara, íbúa hverfa sem eru í uppbyggingu, félaga- og áhugahópa, þá sem nýta eða þurfa á sérstakri þjónustu að halda o.s.frv. Við erum öll saman í því að þróa bæinn okkar, byggja hann upp, sinna viðhaldi og skapa samfélag þar sem er öruggt og gott að búa. Lýðræði nýtir mannauðinn í bænum sem er gríðarlega mikill, eykur öryggi, fjölbreytileika og valkosti. Verkefnið ,,Betri Garðabær“ er gott dæmi um skref í þessa átt, þau eiga að vera fleiri og stærri á næstu árum.
Lykilatriði er að vernda náttúruna, sýna ábyrgð í umhverfismálum og auka aðgengi bæjarbúa að friðlandi. Það er hreinlega hollt að vera í ómanngerðri náttúru og það aðgengi er hluti af lífsgæðum bæjarbúa. Ég sé t.d. fyrir mér náttúrulegan göngustíg í Gálgahrauni sem myndar hring og tengir saman Álftanesið, Prýðahverfið, Garðaholt og Ásana sem eitt útivistarsvæði. Þetta svæði er gríðarlega fallegt en illfært og göngustígar um slíkt svæði eru unnir út frá friðhelgi svæðisins.
Garðatorg á að vera aðlaðandi miðbær með verslun, þjónustu og menningu, t.d. í anda mathallar. Að efla mannlífið felur í sér sameiginleg svæði í þágu útivistar og mannlífs, s.s. miðbæjarkjarna og bæjargarð.

Bærinn á að vera skóla- og fjölskyldubær í fremstu röð með áherslu á metnaðarfullt fagfólk, val nemenda um skóla, ungbarnaleikskóla, aðlaðandi vinnuumhverfi, ólík rekstrarform og öflugan þróunarsjóð. Ég vil sjá aukna tækni í kennsluháttum út frá styrkleikum nemenda t.d. með sýndarveruleika og vendikennslu, fjölbreyttar aðferðir í lestrarkennslu og aukna samvinnu milli skólastiga. Nemendur í Garðabæ eiga að þekkja eigin styrkleika, fá þjálfun í að tileinka sér samskiptafærni, læsi í víðri merkingu, slökun og hugleiðslu. Félagsauður og heilbrigði byggir að hluta til á tækifærum til að stunda fjölbreytt íþrótta-, tómstunda- og menningarstarf. Það er mikilvægt að virkja og styðja við grasrótina og frjáls félagasamtök til að auðga tækifæri og mannlíf í bænum. 

Þjónusta þarf að vera mannleg og nútímaleg, svo að íbúar á öllum aldri og með ólíkar þarfir, hafi val um skilvirka þjónustu tengda ólíkum rekstrarformum. Við þurfum að hafa metnað og hugrekki til að vera í fararbroddi í snjalllausnum sem og fjölbreyttum rekstrarformum bæði í skólamálum og velferðarþjónustu. T.d. tel ég mikilvægt að vinna að því að fá öfluga einkarekna heilsugæslu í bæinn þar sem biðtími eftir þjónustu er lítill, samfella er í þjónustu, tæknilausnir nýttar og á sama stað væri gott að hafa líkamsrækt og -þjálfun.“

Mannauður, tækni og heilsuefling

En það er ávallt hægt að gera gott betra  – hverjar verða helstu áherslurnar fyrir komandi kosningar að þínu mati? ,,Í stækkandi bæjarfélagi eru miklar framkvæmdir og þá er lykilatriði að gæta vel að rekstrinum, hlúa að mannlífinu í gegnum alla málaflokka, vera framsækin og frumleg í nálgunum s.s. vegna umhverfisvænna lausna og snjalltækni. Mannauðurinn er okkar fjöregg sem hlúa þarf að á tímum heimsfaraldurs. Skólamálin, í víðu samhengi, og unga fólkið þarf að setja í forgang, því þau mál eru fjölskyldumál og snerta velferð okkar allra. Huga þarf betur að vellíðan ungmenna, ekki síst í kjölfar heimsfaraldurs. Það bendir margt til þess að við munum vera að takast á við efnahagslegar og sálfélagslegar afleiðingar kórónuveirunnar um eitthvert skeið og þar þarf að mynda skjaldborg um unga fólkið og þá sem glíma við áskoranir á þessum sviðum. Með sama hætti þurfum við að huga að mannlífsþróun, en við erum að lifa lengur og með virkari hætti. Það er mannréttindamál að koma mun betur til móts við þarfir eldri borgara og endurhugsa þá þjónustu út frá þörfum markhópsins. Sama gildir um þjónustu við þá sem búa við fatlanir eða þurfa sértæka þjónustu. Við þurfum að stíga fastar inn sem heilsueflandi samfélag meðal annars með stuðningi við fjölbreyttar tómstundir, íþróttir og menningu.  Ég vildi sjá heilsumiðju sem býður upp á fjölbreyttari form á rekstri heilsugæslu, þjálfunar og ræktar fyrir líkama og sál. Allt þetta eflir mannlífið og skapar íbúum aukin lífsgæði“

Lýðræðislegt tilboð til bæjarbúa

Og svona að lokum. Meirihlutinn hefur starfað mjög vel og náið saman allt þetta kjörtímabil. Hvernig líst þér á prófkjörsbaráttuna sem framundan er gegn þínum góðu vinum í flokknum? ,,Ég hvet alla sem hafa áhuga á verkefninu til að gefa kost á sér í prófkjörinu. Ég lít ekki á þetta sem baráttu við góða félaga mína í flokknum. Ég lít á þetta sem lýðræðislegt tilboð til bæjarbúa um að þjónusta þá og þeirra er valið. Það skiptir miklu máli að skapa bæjarbúum fjölbreytt val um þá sem eru í þeirra þjónustu og við stjórnvölinn í bæjarfélaginu. Það hefur verið mjög ánægjulegt að starfa með núverandi meirihluta og ég á von á heiðarlegri og málefnalegri framgöngu allra. Lykilatriði er að það sé breidd í stjórnendahópum og sama gildir um bæjarfulltrúa. Það er mikilvægt að hafa raddir unga fólksins, þeirra sem eldri eru, fá raddir þeirra sem hafa ólík sjónarmið, áhuga, reynslu, búsetu í ýmsum hverfum o.s.frv. Það er alltaf best ef þeir sem eru að stýra eða þjónusta ákveðin hóp endurspegla hann sem best, það eykur flæði og tengingu milli bæjarfulltrúa og bæjarbúa.“

Upplýsingar um áherslur eru á heimasíðu

Og þú ert búin að opna vefsíðu á sigridurhuldajons.is? ,,Já, mér fannst nauðsynleg og eðlileg þjónusta við bæjarbúa að vinna þessa heimasíðu. Þá gef ég þeim tækifæri til að hafa samband við mig, sjá helstu áherslur mínar, reynslu og svolítið um það hver ég er. Ég tók mér nokkurn tíma í að skrifa þennan texta og það var mjög gagnlegt fyrir mig sjálfa að fara í gegnum þá vinnu. Það má segja að það hafi verið fræðileg vinna, skemmtilegt samtal við marga bæjarbúa til að finna hvar hjartað slær og svo sjálfsskoðun á eigin gildum og forgangsröðun. Ég hvet alla til að kíkja á heimasíðuna, þar má sjá mínar málefnaáherslur fyrir Garðabæ, greinar, viðtöl o.fl. Það er gaman að fá skilaboð og ábendingar frá bæjarbúum en ég vil heyra af áhyggjum þeirra sem og ánægju. Það er alltaf best að taka samtalið, saman byggjum við betri bæ.“ segir Sigríður Hulda að lokum.

Slóðin inn á vefsíðu Sigríðar Huldu er: www.sigridurhuldajons.is

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar