Bjartur-Veröld gefur út bókina Laxá í Aðaldal, drottning norðursins eftir Garðbæinginn og rithöfundinn Steinar J. Lúðvíksson, en meðal margra verka Steinars má nefna Sögu Garðabæjar, sem var í fimm bindum og Skíni Stjarnan, sem var gefin út í tilefni 50 ára afmælis Stjörnunnar árið 2020.
Laxá í Aðaldal hefur verið kölluð drottning norðursins. Hún er rómuð fyrir fegurð og fisksæld og er ein af perlum íslenskrar náttúru. Í bókinni rekur Steinar J. Lúðvíksson sögu veiða í ánni, segir frá frægum veiðimönnum og minna þekktum, og deilum um nýtingu hennar. Þá fjallar hann um Laxárfélagið, upphaf þess, starfsemi og endalok, en félagið hafði meginhluta árinnar á leigu í áttatíu ár. Þannig er saga árinnar og félagsins samofin.
En hvernig kom það til að Steinar ákvað að rita sögu Laxár í Aðaldal, ertu sjálfur mikill veiðimaður og kannski oft veitt í ánni? ,,Þegar Laxárfélagið minntist fimmtugsafmælis síns árið 1990 kom til umræðu að skrifa bók um ána, samskiptin við landeigendur nyrðra, og skrifa nýja veiðistaðalýsingu sem koma átti sem einskonar viðbót við slíka lýsingu sem er í hinni þekktu bók Jakobs Hafstein um ána sem út kom árið 1965. Í stað bókarútgáfu var hins vegar ákveðið að efna til stórveislu nyrðra og hið sama var uppi á teningnum á sextugsafmælinu árið 2000. Þetta voru samkomur sem lengi voru í minnum hafðar, en alltaf var í bakhöndinni að gefa út bók sem komst ekki til framkvæmda fyrr en félaginu var slitið árið 2020. Frumkvæðið átti Jóhann G. Bergþórsson, þáverandi formaður félagsins, sem er mikill athafnamaður og dreif bókarskrifin af stað. Sjálfur var hann formaður ritnefndar sem vann með höfundi að verkinu en auk hans voru í ritnefndinni tveir gamalkunnir Laxármenn þeir Gunnar Lárusson húsasmíðameistari og Sigurður Bjarnason tannlæknir,“ segir Steinar og heldur áfram: ,,Orri Vigfússon sem lengst allar gegndi formennsku í Laxárfélaginu hafði frá upphafi margskorað á mig að taka bókaskrifin að mér. Upphaflega var ég mjög á báðum áttum og á sextugsafmælinu var ég önnum kafinn við önnur verkefni. Hins vegar var mjög erfitt að segja nei við Jóhann G. þar sem hann tekur ekki mark á slíku og að auki fannst mér ég skulda hinni stórkostlegu Laxá og félaginu það að ráðast í verkefnið sem svolítið endurgjald fyrir alla þá dýrðardaga sem ég hafði átt þar nyrðra í ógleymanlegum félagsskap þar sem menn voru ekki aðeins veiðifélagar heldur einnig góðir vinir.“
Var við veiðiskap í Laxá í á sjötta áratug
,,Sjálfur var ég við veiðiskap í Laxá í á sjötta áratug, stundum tíu daga á sumri, og þekkti því góðan hluta árinnar býsna vel og hafði upplifað þar hvert ævintýrið af öðru eins og flestir Laxármenn höfðu gert. Áin er raunar þannig að þar lenda menn sjaldan í mokveiðiskap eins og maður upplifði í mörgum öðrum ám í „gamla daga“,“ segir Steinar.
Las fleiri þúsund síður
Þetta er stórt og mikið verk full af fróðleik. Það hefur væntanlega tekið sinn tíma að afla allra þessara heimilda/gagna og skrifa bókina – hvenær hófst þetta ævintýri? ,,Árið 2000, eftir að ákveðið var að ég tæki verkið að mér fór ég að safna heimildum og reyndist það mikið verk. Fundargögn Laxárfélagsins voru til allt frá fyrstu tíð en voru ekki í röð og reglu þannig að ég varð að lesa þau öll, fleiri þúsund síður, og rita hjá mér það sem að gagni mátti koma, auk þess sem ég las flest það sem birst hafði á prenti um ána á þessum 80 árum. Það nægði þó ekki. Ég hafði í gegnum tíðina párað hjá mér ýmislegt um ána, umhverfið og vináttu okkar Laxárfélaga og kom það að góðum notum. Einnig hafði ég samband við fjölda fólks til þess að fylla upp í eyðurnar og allir sem ég leitaði til mættu kvabbi mínu af áhuga. Smátt og smátt tók þetta á sig þá mynd sem sjá má í bókinni.“
Laxá í Aðaldal hefur löngum verið kölluð drottning laxveiðiáa á Íslandi. Hún kemur úr Mývatni og rennur um 56 km í fögru umhverfi í Skjálfandaflóa. Í efri hluti árinnar, þeim sem rennur um Mývatnssveit og Laxárdal, eru þekkt urriðasvæði og einnig er að finna gríðargóð svæði stuttu neðan Laxárvirkjun. Fyrir neðan urriðasvæðin tekur svo við 20 km laxveiðisvæði. En hvað er það sem einkennir helst Laxá í Aðaldal, af hverju er hún kölluð drottning laxveiðiáa á Íslandi? ,,Einhvern veginn var það þannig að við Laxármenn kölluðum ána okkar „Drottningu norðursins,“ en ég hygg að höfundur nafngiftarinnar hafi verið Jakob heitinn Hafstein. Í orðunum fólst að fyrstu árin bar Laxá af ekki aðeins hvað aflabrögðum varðaði heldur veiddust þar fleiri risalaxar en í flestum ám á Íslandi. Umhverfi árinnar var vissulega konunglegt og ævintýrin sem veiðimenn lentu oft í voru stundum þannig að þau hefðu sem best getað gerst í höllum kónga og drottninga.“
Einstakir veiðistaðir hvíldir til þess að þjóðhöfðingar ættu greiðari leið að laxinum
Og það hefur sjálfsagt alltaf verið vinsælt að veiða í ánni og eins og þú rekur í bókinni þá hafa margir þekktir einstaklingar veitt í henni og margar skemmtilegar sögur orðið til? ,,Laxá í Aðaldal gat sér orðstý í hinum stóra stangaveiði heimi heimsins. Margir þekktir útlendingar lögðu mikið á sig að komast þar til veiða. Ef þeim var skotið inn í hóp okkar sem veiddum lengi í ánni var aldrei talað um það útífrá. Þeir urðu einfaldlega að hlíta öllum sömu reglum og hinir og falla inn í hópin hvort sem var við veiðiskap eða í veiðihúsi. Það eina sem greindi þá frá okkur hinum var að reynt var að haga málum þannig að þeir væru í friði fyrir fjölmiðlum og í gamla daga mun það einnig hafa gerst að einstakir veiðistaðir væru hvíldir til þess að þjóðhöfðingar ættu greiðari leið að laxinum.“
Þú fjallar um Laxafélagið sem leigði mestan hluta árinnar í áttatíu ár og deilur um nýtingu hennar – var alltaf einhver átök um ána og nýtingu hennar? ,,Eftir að Laxá varð ein þekktasta veiðiá landins höfðu margir áhuga á aðgengi að henni,“ segir hann og heldur áfram: ,,Kringum 1960 varð töluverð uppstokkun og Laxárfélagið missti nokkrar veiðijarðir sem það hafði haft frá upphafi og eftir það voru næstum eingöngu útlendingar sem veiddu á þeim svæðum. Auðvitað voru Laxárfélagar svolítið súrir yfir þessu og um innri mál félagsins urðu einnig smáátök sem alltaf tókst að jafna með góðu. Samskipti Laxárfélaga og veiðiréttarhafa sem héldu tryggð við félagið voru hins vegar einstök. Þau báru ekki vitni um kaup og sölu á verðmætum réttindum heldur einkenndust af miklum heiðarleika og djúpri vináttu.“
Veiðimenn eru sérstakur „þjóðflokkur“ sem helgar sig þessari íþrótt af einlægni
Og er bókin áhugaverð lesning fyrir alla þá sem veitt hafa í ánni í gegnum árin og í raun alla stangveiðimanna? ,,Ég vona að bókin höfði til allra stangveiðimanna – ekki bara þeirra sem stunduðu veiðar í Laxá. Veiðimenn eru sérstakur „þjóðflokkur“ sem helgar sig þessari íþrótt af einlægni. Alla vega er ég þannig að mér finnst gaman og upplýsandi að lesa frásagnir og lýsingar á ám sem ég hef aldrei komið í. Auðvitað er það þannig að „hverjum finnst sinn fugl fagur“ en veiðiskapur og veiðináttúra er alltaf söm við sig. Ég á þá ósk heitasta að þeir sem aldrei hafa veitt í Laxá finni samt samkennd við ána og okkur Laxárfélaga með því að lesa og skoða bókina.
Hennar tími mun koma
Hver er svo staða Laxár í Aðaldal í dag, er hún enn hin eina sanna drottning laxveiðiáa? ,,Því miður hefur runnið upp sá tími að Laxá stendur ekki að fullu undir drottningarnafninu. Veiðin þar hefur verið afskaplega döpur um töluvert árabil. En allir sem til þekkja geyma það í vitund sinni að slókt hefur gerst fyrir norðan áður og enginn veit um orsakirnar. Eigum við ekki bara að segja að drottinguna hafi verið farið að klæja undan kórónunni og tekið hana af sér um stund. Alla vega eru flestir sannfærðir um að „hennar tími mun koma“ rétt eins og þekktur stjórnmálamaður sagði þegar viðkomandi var ýtt úr forystusveit.“
Þótt Laxá í Aðaldal sé í Norðausturlandi var þá bókin öll skrifuð á Sunnuflötinni í Garðabæ? ,,Þótt bókin sé unnin við skrifborðið á Sunnuflötinni voru hliðarspor þaðan allan tímann sem á vinnslunni stóð. Nútímatækni – upptökutækni, tölvur og ekki síst Netið auðvelda mjög að finna heimildir og ná í og fást við fólk hvenær sem er þótt mér finnist alltaf persónulegt samband vega þyngst.“
Hvað segir svo Steinar að lokum, hvað er framundan – ertu með einhver verk í vinnslu um þessar mundir? ,,Ég verð að viðurkenna að ég var orðinn þreyttur þegar bókarvinnslunni lauk og ákvað að fá mér stutt frí frá skrifum. Hins vegar held ég að það sé í eðli mínu að þurfa alltaf að vera að fást við ný og ný viðfangsefni og ef ég þekki sjálfan mig rétt líður varla á löngu áður en aftur verður lagt af stað. Mér standa til boða spennandi verkefni – freistingar sem auðvelt verður að falla fyrir,“ segir Steinar að lokum.
Þess má geta að Laxá í Aðaldal – Drottning norðursins er ríkulega skreytt myndum, textinn er lifandi og læsilegur. Þetta er sannkölluð glæsibók og kjörgripur fyrir alla þá stundað hafa stangveiði og bókin hefur fengið góða dóma.
„Það er líklegt að bókin Drottning norðursins verði til framtíðar eitt af höfuðverkum íslenskra veiðibókmennta.“ Eggert Skúlason, Sporðaköst á mbl.is
„Laxveiðibók sem sætir tíðindum … Bókin er einstaklega vönduð í alla staði og Steinari J. Lúðvíkssyni til mikils sóma. Í stjörnugjöf verðskuldar hún fullt hús á alla mælikvarða.“ Helgi Magnússon, DV.is