Ég kolféll fyrir golfinu segir Jón Júlíusson, nýr formaður GKG

Jón Júlíusson frv. deildarstjóri íþróttadeildar hjá Kópavogsbæ var kosinn nýr formaður á aðalfundi Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar á dögunum og tekur Jón við keflinu af Guðmundi Oddssyni sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Guðmundur lætur því af formennsku eftir 15 ár samtals sem formaður GKG, en Jón er sjötti formaður GKG frá upphafi.

Félagar í GKG eru tæplega 2900 í dag og státar félagið m.a. af fjölmennasta barnaog unglingastarfi á landinu, en 864 börn og unglingar æfa og spila golf hjá félaginu. Þá er er GKG með glæsilega vetrar- aðstöðu, félagið er með 22 golfherma, 16 í Íþróttamiðstöð GKG í Garðabæ og 6 í Kórnum í Kópavogi.

Garðapósturinn/Kópavogspósturinn settist niður með Jóni og spurði hann hvernig það hafi komið til að hann ákvað að taka að sér formennsku í GKG? ,,Ég starfaði sem deildarstjóri íþróttadeildar hjá Kópavogsbæ frá 1988, þar til fyrir rúmu ári, er ég minnkaði við mig vinnu og sinni nú ákveðnum verkefnum. Ég hef í gegnum tíðina starfað nokkuð í félagsmálum, við þjálfun og önnur stjórnarstörf. Í aðdraganda þessara breytinga kom það til tals milli okkar Agnar framkvæmdastjóra að nú hefði ég tíma til að taka þátt í starfi GKG, í nefnd eða örðum verkefn-um sem lægju fyrir hjá klúbbnum,” segir Jón.

En hvenær og hvernig smitaðist þú af golfbakteríunni? ,,Það var rétt fyrir aldamótin að ég fékk golfnámskeið í af- mælisgjöf og notaði ég tækifærið og skellti mér á námskeið hjá GKG og þá var ekki aftur snúið, ég kolféll fyrir golf-inu og hef stundað það í hartnær 22 ár.”

Mega félagar í GKG eiga von á einhverjum breytingum með nýjum formanni eða hugmyndin að halda áfram að styðja við það góða starf sem er innan GKG? ,,Ég reikna nú ekki með miklum breytingum, enda hefur fráfarandi formaður og stjórn haldið einstaklega vel um stjórnartaumana sl. tvo áratugi. Barna og unglingastarf er með því öflugasta sem þekkist „norðan Alpafjalla“. Þá hefur Afreksstarfið blómstrað líka, og gott dæmi um það er sigur mfl. karla í Íslandsmótinu í efstu deild og það í 8 skiptið á síðustu 18 árum.”

En það er engu að síður margt framundan hjá ykkur m.a. er verið að færa völlinn og búa til nýjar brautir. Hvernig gengur það? ,,Nýi 9 holu völlurinn er í deiliskipulagsferli sem og breytingar á brautum 13, 14 og 15 á Leirdalsvellinum. Byrjað var að móta og sáð í tvær af brautum nýja vallarins sumarið 2021, en þessi völlur á að leysa Mýrina af í náinni framtíð sem þá verður lögð af að mestu, þegar hann er tilbúinn.”

Þið tókuð ekki fyrir svo löngu síðan 12 nýja golfherma í notkun í félagsheimilinu ykkar, er þetta mikil bylting fyrir félagið, nú geta menn stundað golf allan ársins hring og ávallt líf í félagsheimilinu? ,,Já þetta er mikil breyting frá því sem var, algjör bylting.”

Það er mikill metnaður innan GKG sem á jafnt við barna- og unglingastarfið sem og afreksstarfið – þið leggið mikla áherslu á þetta starf sem vegur kannski hvort annað upp? ,,Já, það hefur gengið vel hjá okkur allt frá því að fyrsti Íslandsmeistaratitillinn í höggleik kom í hús hjá GKG árið 1998. Það gerði Gunnar Þór Gunnarsson í drengjaflokki 15 ára og yngri. Síðan hafa kylfingar GKG landað 36 Íslandsmeistaratitlum í höggleik í öllum flokkum,og þar af 24 titli síðan 2012. Í holukeppni í hafa Íslandsmeistaratitlarnir orðið 27 og þar af 17 síðustu 10 árin. Sama á við um sveitakeppnir GSÍ, á Íslandsmótum Golfklúbba, þar sem A sveitir karla og kvenna hafa unnið samtals 10 sinnum og unglingarnir okkar á aldrinum 12-18 ára skilað 18 Íslands-meistaratitlum í hús.”

GKG skilaði ágætis hagnaði fyrir árið 2022, en hvernig gengur að reka svona öflugt félag eins og GKG. Hversu mikilvægur er stuðningur sveitarfélaganna tveggja, Kópavogs og Garðabæjar við starfið? ,,Stuðningur sveitarfélaganna er mjög mikilvægur klúbbnum en hann hefur fyrst og fremst falist í framlögum til stofnframkvæmda svo sem vegna uppbyggingar golfvalla og íþróttamiðstöðvar. Rekstarframlög sveitafélaganna vegna sumarvinnu sem og vegna barna- og unglingastarfsins er gríðarlega mikilvæg, algjör forsenda fyrir því að mikið og fjölmennt barna- og unglingastarf fá áfram að dafna í klúbbnum.”

Guðmundur Oddsson lét af formennsku eftir 15 ára sem formaður GKG. Er nýr formaður í svipuðum pælingum hvaða árafjölda varðar? ,,Ég reikna nú ekki með því, en það verður bara að koma í ljós. Það eru mjög umfangsmikil verkefni framundan hjá GKG á næstu árum, sem þarf að vinna í nánu sam-starfi við alla hlutaðeigandi aðila á svæðinu.”

En það eru greinilega spennandi tímar framundan hjá GKG og þú ert fullur tilhlökkunar fyrir komandi árum? ,,Já, ég er það og ég sé fyrir mér með áframhaldandi uppbyggingu aðstöðunnar verði GKG í fremstu röð golfklúbba á landinu og þó víðar væri leitað.”

Og svona að lokum, menn geta varla tekið að sér formennsku í GKG nema vera búnir að fara í holu í höggi, hvað segir nýr formaður um það? ,,Nei, ég hef ekki náð því ennþá en nálægt því nokkrum sinnum,” segir hann brosandi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar