Ég hlakka svo til að stíga á svið með uppáhalds fólkinu mínu

Garðbæingurinn Sigríður Ósk Hrafnkelsdóttir, sem er betur þekkt undir listamannanafninu Sigga Ózk, tekur þátt í undakeppni Söngvakeppni RÚV á laugardaginn, en hún mun syngja lagið Um allan alheiminn. Flestir muna sjálfsagt eftir Siggu Ózk frá söngvakeppninni í fyrra þar sem hún söng lagið Gleyma þér og dansa, en hún komst í úrslitaþáttinn og var því í raun hársbreidd frá því að synga fyrir Íslands hönd í Eurovision.

Sigga Ózk á ekki langt að sækja hæfileikana, en faðir hennar er Hrafnkell Pálmarsson, sem flestir þekkja úr hljómsveitinni Í svörtum fötum og afi hennar er Pálmar Ólason tónlistarmaður sem hefur m.a. haldið uppi fjörinu á Þorrablóti Stjörnunnar í áratugi ásamt Hrafnkeli syni sínum. Móðir Siggu er Elín María Björnsdóttir, sem stjórn- aði m.a. á sínum tíma brúðkaupsþættinum Já.

Ákvað að senda á RÚV að ég væri með klikkað lag

Garðapósturinn sló á þráðinn til Siggu Ózkar og spurði m.a. hvort hún hafi strax tekið stefnuna á þátttöku í keppninni að ári eftir að hún lauk keppni í fyrra eða hvernig kom það til að hún ákvað að slá til að nýju? ,,Þegar eg var búin að semja þetta lag þá var ég á tæpasta vaði hvað ég ætti að gera, en ákvað að það mundi ekki saka að senda á RÚV og láta vita að ég væri með klikkað lag. Ég vissi nú ekki að það myndi komast inn, en stundum gerast hlutirnir þegar þú býst minnst við þeim,” segir hún.

Saman erum við sterkari

Og þú ætlar að syngja lagið Um allan alheiminn á laugardaginn, en þú átt bæði lag og texta ásamt Birki Blæ og TRIBBS. Er þetta lag búið að vera lengi í smíðum og um hvað fjallar það? ,,Þetta lag var upprunalega samið til að vera á plötu sem kemur út eftir söngvakeppnina. Lagið snýst um að saman erum við sterkari og getum látið gott af okkur leiða.”

Ef þú berð lögin saman, Gleyma þér og dansa, sem þú söngst í keppninni í fyrra og Um allan alheiminn, er þá eitthvað líkt með þessum lögum? ,,Það sem er líkt er gleðin sem ríkir í kringum bæði lögin þótt þau séu alveg gjör ólík.”

Ég elska að semja lög

Ertu mikið að semja lög og finnst þér skemmtilegra að syngja eigin lög frekar en lög annarra? ,,Ég elska að semja lög og mér þykir það skemmtilegra að syngja mín eigin lög, en ég vona að einn daginn munu aðrir elska að syngja lögin mín,” segir hún brosandi.

Fer á svið til að njóta þess

Þar sem þú hefur reynslu úr söngvakeppninni, hvað er það sem skiptir mestu máli þegar stigið er á svið á laugardaginn og hvernig verður atriðið þitt? ,,Það sem skiptir mig mestu máli þegar ég fer á svið er að ég sé að njóta þess og að hafa dansara með mér á sviðinu, sem mér þykir vænt um, það er æðislegt. Þá er einnig svo gott að finna að allt sem við erum búin að liggja sveitt yfir sé loksins að koma saman og þá er ekki annað hægt en að njóta. Þetta er það sem ég elska mest við að koma fram.”

Þetta er númer eitt, tvo og þrjú

En á þetta hug þinn allan, að koma fram og syngja, kemst lítið annað að eða áttu einhver önnur áhugamál? ,,Þetta er alveg númer eitt tvö og þrjú hjá mér. En ég á fullt af áhugamálum. Ég elska að kenna, ég elska að leika, ég elska að mála og búa til eitthvað listrænt, ég elska hreyfingu og að vera með fjölskyldu og vinum. Svo á ég mér leyni áhugamál, sudoku. Ég er í raun mjög góð í því,” segir hún brosandi og heldur áfram: ,,En þar sem þetta ferli er einhvern veginn blanda af öllu saman, að semja lag, að búa til atriði, að sauma bún- inga, smíða sviðsmynd, að ákveða hvernig ljósin og grafíkin verður svo atriðið nái sem flottustu útkomunni og síðan að smella þessu öllu saman með framkomunni. Ég elska þetta.”

Ég hlakka svo til

Þú stígur á svið í kvöld, er allt að smella saman og mikil tilhlökkun? ,,Já! Ég er að bilast. Ég hlakka svo til að stíga á svið með uppáhalds fólkinu mínu, sýna þjóðinni hvað við erum búin að æfa og njóta.”

Og er það draumurinn að sigra keppnina og keppa fyrir Íslands hönd í Eurovison í Malmö? ,,Auðvitað, þetta hefur verið draumur síðan ég var barn að horfa á Eurovision og ímyndaði mér að það væri ég sem væri á stóra sviðinu.”

Draumurinn að verða stór popp-stjarna

En hvað mun svo taka við hjá Siggu Ózk eftir að keppninni lýkur, hvað ertu að gera og á hvað stefnir þú í framtíðinni? ,,Það mun koma ný og ,,ICONIC” tónlist og draumurinn er að verða stór popp stjarna,” segir hún og brosir.

Svo verð ég nú að minnast á það að þú hefur sungið á þorrablóti Stjörnunnar síðustu ár og keyrt stuðið í gang með pabba þínum, afa og systur. Hvernig er að syngja á þorrablótinu með þeim? ,,Það er ekkert eins og að syngja með þeim eins og við séum heima í stofu, en við erum á sviði með allan Garðabæ með okkur.”

Fer Sigga í forsetaframboð?

Og svona létt að lokum Sigga! Þú nefndir það í viðtali sl. sumar að þú sæir fyrir þér að setjast í forsetastólinn einn daginn. Nú er Guðni Th. Jóhannesson, forseta Íslands að hætta sem forseti í sumar, megum við eiga von á að Sigga Ózk taki skrefið og bjóði sig fram – eru dyrnar að Bessastöðum jafnvel að opnast fyrr en þú áttir von á? ,,Ég held að það ætti að vera í forgangi að verða fulltrúi Íslands í Eurovision, fyrst ég er með aldurinn í það! En það er aldrei að vita,” segir hún brosandi að lokum full tilhlökkunar að stíga á svið á laugardaginn.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar