Ég borða hamborgara á hverjum degi

Nú geta Garðbæingar sem og íbúar í nágrannasveitarfélögunum heldur betur glaðst því í dag opnaði hinn vinsæli hamborgarstaður Yuzu í Litlatúni í Garðabæ, þar sem Pósturinn var áður til húsa, en Yuzu er þó svo miklu meira en bara hamborgarastaður eins og Garðapósturinn komst að þegar hann heyrði í Hauki Má Haukssyni, matreiðslumanni og einn eiganda Yuzu hamborgarastaðanna sem er nú fimm talsins.

Ég náttúrulega dýrka Garðabæ

Hamborgarastaðurinn í Litlatúni er sá fimmti sem er opinn undir merkjum Yuzu, en hvað varð til þess að þið ákváðuð að opna Yuzu í Garðabæ? ,,Ég náttúrulega bara dýrka Garðabæinn,” segir Haukur Már án hiks og hlær. ,,Við erum náttúrulega með þrjá staði í Reykjavík og einn í Hveragerði svo það var heldur betur kominn tími á að opna stað í Garðabæ. Það er mikið búið að vera að pressa á okkur að opna Yuzu stað hér og þar á höfuðborgarsvæðinu og sérstaklega hafa Garðbæingar verið duglegir að þrýsta á okkur að opna á þessu svæði við Litlatún. Og okkur fannst þessi staður tilvalin, bæði að opna í Garðabæ og í Litlatúni því þar getum við einnig þjónustað Kópavogsbúa og Hafnfirðinga í leiðinni,” segir Haukur.

Yuzu borgarar…klikka ekki.

Þeir sem mæta fyrstir fá fría hamborgara

Og þið opnið með trompi og eruð með sérstaka opnunarviku þar sem viðskiptavinir geta fengið fría hamborgara og þeir verða einnig settir í pott þar sem tveir heppnir siguvegarar verða dregnir út og fá vegleg gjafabréf? ,,Já, það er rétt, við verðum með nokkuð brött og skemmtileg tilboð frá miðvikudegi til sunnudags. Við verðum með þriðjudagstilboðið okkar í gangi þessa daga, sem er 1799 kr. fyrir máltíðina og svo ætlum við að gefa þeim 40 til 50 fyrstu sem mæta hamborgara miðvikudag og fimmtudag og svo einnig laugardag og sunnudag. Á föstudaginn fylgir svo Yuzulaði með öllum hamborgaratilboðum á meðan birgðir endast,” segir Haukur, en einnig mun Yuzu safna nöfnum og símanúmerum viðskiptavina yfir opnunarvikuna, setja í pott og draga svo tvo stálheppna sigurvegara út sem vinna tvö vegleg gjafabréf.

Ég náttúrulega bara dýrka Garðabæinn,” segir Haukur Már án hiks og hlær. ,,Við erum náttúrulega með þrjá staði í Reykjavík og einn í Hveragerði svo það var heldur betur kominn tími á að opna stað í Garðabæ.

Það kemur fram að Yuzu sé hamborgarastaður með bragð sem hefur ekki sést á á Íslandi áður og sé með mikla sérstöðu hvað varðar stemmningu og efnissköpum. Hvaðan kemur hugmyndin að þessu konsepti og hvað er það sem einkennir Yuzu hamborgarann? ,,Ég er matreiðslumaður og byrjaði að læra kokkinn beint eftir grunnskóla og ég fókusaði þá strax á japanska matargerð og Yuzu, sem er japanskur sitrus-ávöxtur. Þegar ég byrjaði svo að fikta með hamborgara þá var ég að nota Yuzu í sósur og flaggskipið á matseðlin- um hjá okkur, Yuzu chilli hamborgarinn, er með yuzu, sesam og sesam olíu auk ,,hot-koríander” sósu svo þetta er ekki þetta beisik hamborgarabragð, en svo í dag erum við með fleiri tegundir af hamborgurum. Staðurinn breyttist nefnilega töluvert i covid-inu því við vorum við líka með smárétti á matseðlinum og áfenga drykki fyrir covid og Yuzu var því meiri veitingastaður en hamborgarastaður, en í covid fórum við að bjóða upp á ,,take away” og þá fór ég að prófa mig áfram í fleiri útfærslum á hamborgurum,” segir Haukur en í dag eru 11 tegundir af ham-borgurum á matseðlinum og svo er alltaf borgari mánaðarins sem er breytilegur á milli mánaða. Það kemur svo fyrir að einhver af þeim endi á matseðlinum.

Verður til Silfurskeiðarborgari?

Ertu þá að búa til einhvern Garðbæjarhamborgara í þessum töluðu orðum? ,,Já, þú meinar Silfurskeiðarborgara, það væri áhugavert að skoða það og vera með fyrir leiki hjá Stjörnunni í það minnsta,” segir hann brosandi og bætir við: ,, Það verða í það minnsta Silfurskeiðar á Yuzu í Litlatúni.”

Hver er svo vinsælasti hamborgarinn á Yuzu? ,,Það er Yuzu-chilliborgarinn og stóri Yuzu, sem er svona nýtt andlit fyrir Big Mcdonald´s borgarann á Íslandi, sem við byrjum með þegar Íslendingar gátu ekki ferðast erlendis, en það hefur löngum verið ein að ferðavenjum Íslendinga að fá sér Big Mac borgara erlendis. Ég fór því eftir minni að reyna að ná brögðunum í Big Mac í huganum og setja saman, nema að þetta er hamborgari með góðum hráefnum. Þetta eru sem sagt tveir af vinsælustu hamborgurunum ásamt kjúklingaborgurunum sem við erum með.”

Haukur Már borðar sjálfur hamborgara á hverjum degi.

Borðar hamborgara á hverjum degi

En hver er uppáhalds hamborgari Hauks? ,,Sko, ég borða hamborgara á hverjum degi, en það er eiginlega aldrei sami hamborgarinn. Nú erum við komnir með mjög ólíka hamborgara á Yuzu og fjölbreytnin því mikil, við erum meira að segja með sjoppuborgara, sem er bara kjöt, hamborgarasósa og krydd, kál og ostur, bara einfaldur en mjög góður. Ég er mikið í honum en svo fæ ég mér oft hamborgara með engu þ.e.a.s. bara brauð, kjöt og ost en enga sósu eða grænmeti. Ég er því eiginlega búinn að fara allan hringinn,” segir Haukur og bætir því við að hann sé spenntur að taka á móti Garðbæingum og nágrönnum í Yuzu í Litlatúni. ,,Við erum mjög ánægðir að vera loksins komnir í Garðabæ.”

Myndirnar af Hauki Má tók Rakel Rún Garðasdóttir

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar