Ég æfi eins og ég keppi og keppi eins og ég æfi

Íþróttahátíð Garðabæjar var haldin í Miðgarði núna í. janúar þar sem íþróttafólk var heiðrað fyrir góðan árangur árið 2022.

Á hátíðinni var Hilmar Snær Örvarsson skíðamaður útnefndur Íþróttakarl Garðabæjar fyrir árið 2022 og Garðapósturinn sló á þráðinn til hans.

Íþróttamaður ársins hjá ÍF

Hilmar Snær Örvarsson skíðamaður hlaut á dögunum nafnbótina „Íþrótta-maður ársins“ hjá ÍF (Íþróttasambandi fatlaðra). Hilmar Snær var fyrst kjörinn árið 2020 en hlýtur nú titilinn fyrir sögulegan árangur fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótinu í vetraríþróttum og á vetrar ,,Paralympics“. Á báðum mótum hafnaði Hilmar í 5. sæti í svig- keppni sem er besti árangur Íslands á báðum mótum. Á HM keppti hann líka í stórsvigi þar sem hann hafnaði í 21. sæti en á Vetrar-Paralympics féll hann úr leik í stórsvigskeppninni. Þetta er í þriðja skiptið sem Hilmar Snær er kjörinn íþróttakarl Garðabæjar.

Mikill heiður

Þú ert væntanlega ánægður með viðurkenninguna og vera valinn Íþróttakarl Garðabæjar í þriðja sinn, en það hefur enginn verið valinn jafn oft sem Íþróttakarl Garðabæjar? ,,Já, ég virkilega ánægður með viðurkenninguna og það er mikill heiður að vera valinn og hvað þá í þriðja skiptið,” segir Hilmar Snær.

Þú varst í 5. sæti í svigkeppni á heimsmeistaramóti fatlaðra árið 2022 og náðir einnig sama sæti á Ólympíuleikunum, sem er frábær árangur og sá besti sem náðst hefur. Varstu ánægður með þennan árangur eða varstu með enn háleitari markmið fyrir veturinn og árangurinn á þessum mótum? ,,Markmiðin fyrir bæði mótin var að komast í efstu 5 sætin, sem ég náði svo ég get ekki verið annað en sáttur við árangurinn og að hafa náð mínum markmiðum.”

Hilmar Örn í brekkunni.

Meira undir á stóru mótunum

Hvernig var að taka þátt í þessum tveimur mótum, er það erfiðara andlega en að taka t.d. þátt í Evrópumótaröðinni, stærrra og bara eitt tækifæri? ,,Á stóru mótunum setur maður meiri pressu á sjálfan sig því það er meira undir, ég tel að það reyni meira á andlegu hliðina heldur en líkamlegu hliðina. Til þess að minnka álagið og stressið fyrir stórmótin þá reyni ég að gera keppnisdaganna eins hversdagslega og ég get án þess að draga úr undirbúningnum. Oft hugsa ég: ,,Þessi ferð er bara eins og hver önnur ferð á æfingum…”. Við getum sagt að ég æfi eins og ég keppi og keppi eins og ég æfi. Það hugarfar trúi ég að hefur hjálpað mér mikið á mótum.”

Hver æfing í fjallinu tók fjóra klukkutíma

En ef maður ætlar að vera í fremstu röð á skíðum eins og þú hefur verið undanfarin ár þá krefst það sjálfsagt mikilla æfinga og aga, hvað varstu að æfa mikið, hvernig æfðir þú og þetta hefur væntanlega tekið mikinn tíma? ,,Þegar ég var á landinu þá voru æfingar í fjallinu þegar það var opið, jafnvel þó það var lokað. Stundum var því æfing alla daga vikunar og sumar vikurnar var kannski ein skíðaæfing. Það fór bara alfarið eftir veðrinu. Ég æfði alla daga vikunnar styrk samhliða skíðunum. Ég setti æfingar í fyrsta sætið svo að allur minn aukatími fór í skíða- og styrktaræfingar. Hver æfing upp í fjalli tekur langan tíma eða allt að fjóra tíma með keyrslu, græja búnað og æfingin sjálf.
Mikill tími fór í æfingarferðir erlendis á undirbúningstímabilinu sem er september til desember, ég var því að fara út fjórum sinnum á því tímabili í 2 vikur í senn. Ég var því meira og minna erlendis á þeim tíma. Eftir þann tíma tók keppnistímabilið við og voru það svipað margar ferðir eða fleiri en styttri í senn.”

Hilmar með systur sinni, Helenu Örvars á hátíðinni, en hún var tilnefnd sem Íþróttakona Garðabæjar. Helena leikur handknattleik með Stjörnunni

Vildi ekki halda áfam með hálfan haus

Og þú tókst síðan þá ákvörðun í október sl. að segja skilið við skíðin eftir að hafa æft þau og keppt á mótum í 12 ár, bæði hér heima og erlendis frá 2016. Þetta hefur sjálfsagt verið erfið ákvörðun og af hverju ákvaðstu að hætta? ,,Já, svona stór ákvörðun er aldrei auðveld. Helsta ástæðan fyrir því að ég ákvað að hætta er sú að ég var ekki all in, og því sá ég ekki ástæðu til þess að halda áfram með hálfan haus.”

Og er þetta endanleg ákvörðun eða sérðu fyrir þér að þú komir til baka aftur eftir einhvern tímann og keppir hér heima í það minnsta? ,,Aldrei segja aldrei. Við skulum hafa það opið.”

Æðislegt fyrir fatlaðan einstakling að stunda skíði á Íslandi

En hvernig er það fyrir fatlaðan einstakling að stunda skíði á Íslandi? ,,Æðislegt, enginn munur á því og ég er nátturulega bara eins og allir hinir, þrátt fyrir að vera á einu skíði og hef ég alltaf horft á það þannig. Íþróttarsamband fatlaðra hefur haldið vel utan um mig, stutt og hvatt mig áfram.”

Aðallega bara gaman og gleði

En þegar þú lítur til baka, er þetta búin að vera skemmtilegur tími þessi 12 ára, bæði sorg, gleði og allur skalinn sem þú hefur upplifað? ,,Já, en aðallega bara gaman og gleði, ég hef einnig kynnst svo mörgu fólki í gegnum skíðin sem ég mun taka með mér út í lífið.”

Þó þú sért sjálfur hættur að keppa á skíðum og þá hefur þú ekki alveg sagt skilið við íþróttina því þú ert farinn að þjálfa, hefur það alltaf blundað í þér? ,,Ne,i alls ekki, mér var boðið að þjálfa í haust og ákvað að stökkva á það tækifæri sem ég fékk.”

Kominn í crossfit og golf

En þar sem þú ert búinn að leggja æfinga- og keppnisskíðin frá þér þá ætti að skapast smá tími og svigrúm, þú ert aðeins 22 ára, hvað tekur nú við? ,,Ég mun áfram stunda íþróttir af krafti og æfi flest alla daga Crossfit. Mögulega mun ég fara í einhverja aðra íþrótt, en eins og er finnst mér gaman í Crossfit og mun halda því áfram samhliða golfinu í sumar.”

Og svo ertu að klára rafmagnsverkfræði við Háskóla Íslands núna í vor, hvað tekur við eftir það og hvað stefnir þú á að gera í framtíðinni? ,,Ég stefni á að fara í master en tímasetningin er óviss eins og er. Þangað til mun ég vera að vinna og safna vonandi smá í reynslubankann fyrir master.”

En íþróttirnar verða aldrei langt undan? ,,Nei, alls ekki. Ég mun vonandi aldrei hætta að æfa, það gefur mér svo mikið. Ég mun taka eina og eina skíðaæfingu yfir veturinn til gamans,” segir Íþróttakarl Garðabæjar 2022, Hilmar Snær Örvarsson, en hans verður sárt saknað í brekkunum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar